Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:43:52 (865)

1996-11-06 14:43:52# 121. lþ. 19.2 fundur 79. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það verður að hafa það þótt hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sé furðu lostin. Ég tel að óskynsamlegt hefði verið í fyrra að fastsetja kvóta. Ég get tekið undir það með henni og öðrum sem hér hafa talað að okkur ber siðferðileg skylda til að taka á móti flóttamönnum og við eigum að reyna að standa að því með reisn og reyna að gera það eins vel og við mögulega getum. Stjórnvöld hafa stutt að málinu. Mörg byggðarlög gætu leikið eftir það sem Ísfirðingar hafa gert og munu vafalaust gera. Reynslan af þessu hefur verið góð og það er sjálfsagt að halda áfram. Þetta er miklu betur gert núna en forverar mínir hafa gert. Við tókum á móti stærri hópi heldur en flóttamannaráð lagði til og ég tel að við höfum staðið myndarlega að þessu öll sömul. Ég er þakklátur Ísfirðingum, Rauða krossinum og öllum þeim sem að móttöku þessara flóttamanna hafa komið. Ég tel að við eigum að ráða því sjálf og ekki hengja okkur aftan í Svía eða aðra Norðurlandabúa hvernig við stöndum að móttöku flóttamanna. Þetta tókst vel og þessa leið vil ég fara í framtíðinni.