Verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:45:57 (866)

1996-11-06 14:45:57# 121. lþ. 19.3 fundur 92. mál: #A verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem borin er fram til menntmrh. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Er unnið í skólum landsins samkvæmt verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð?``

Þessi fsp. er tengd annarri sem var sett fram á sama tíma til samstarfsráðherra Norðurlandanna en hún hljóðaði svo: Hvers eðlis var átakið ,,Norðurlönd gegn útlendingaandúð``? Hvað var gert hér á landi?

Þetta átak var sett á laggir fyrir tveimur eða þremur árum. Ég minnist þess sjálf því að ég átti sæti þá sem formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs og tók þátt í undirbúningi þess að þetta átak yrði gert. Það hefur hins vegar lítið heyrst um það hér en ég þykist þess fullviss að unnið hafi verið samkvæmt því hér á landi.

Petrína Baldursdóttir bendir á varðandi þessa fsp. að á undanförnum árum hefur sú breyting orðið hér á landi, eins og annars staðar, að fleiri innflytjendur hafa sest að á Íslandi og vorum við jafnframt að ræða það mál rétt áðan og tengist í raun þessi fsp. því sem við vorum að ræða. Fólk hefur ættleitt börn af erlendu bergi og íþróttamenn hafa sest hér að og oft er um að ræða fólk frá þeim stöðum sem geta lent í því, ef hugarfar er ekki rétt þar sem fólk sest að, að það verði fyrir útlendingaandúð.

Hér ganga börn í skóla, hér er fólk á vinnumarkaði og það er alveg ljóst að útlendingaandúð hefur verið fyrirferðarmikil á síðustu árum erlendis þar sem rasistar, nýnasistar, hafa fengið aukinn hljómgrunn í þjóðfélögum Evrópulanda.

Við Íslendingar viljum venjulega telja okkur til hópa sem öðruvísi standa að málum og á meðan nágrannar okkar hafa haft áhyggjur af því, miðað við þá áherslu sem þar hefur verið lögð á, að finna hvað gerist í þeirra samfélagi þegar innflytjendur eiga undir högg að sækja.

Það hefur orðið fjölgun á innflytjendum til Íslands eins og ég kom inn á og mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hafi stefnuáætlun um það að upplýsa Íslendinga um menningu innflytjenda, íslensk stjórnvöld hafi forgöngu um að uppræta neikvæð viðhorf gagnvart fólki. Það er eðlilegt að í skólum landsins sé unnið markvisst að því að innræta börnum frá byrjun ákveðna hluti og fordómaleysi gagnvart útlendingum. Fordómar verða venjulega til af þekkingarleysi og óöryggi. Börn eru mjög opnir einstaklingar, venjulega fordómalaus og hægt er með jákvæðum áróðri að innræta þeim ákveðna hluti gagnvart mönnum og málefnum. Því er spurningin endurtekin:

Að hvaða marki er unnið gegn útlendingaandúð í skólum landsins og er verkefnaáætlun í gangi?