Verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:49:39 (867)

1996-11-06 14:49:39# 121. lþ. 19.3 fundur 92. mál: #A verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í lögum um grunnskóla nr. 66/1995 segir í 29. gr.:

,,Við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms, sbr. 2. gr.

Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.

Í öllu skólastarfi skal tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, hæfileikum, getu eða áhugasviðum nemenda.``

Ætlast er til að allir grunnskólar starfi í þessum anda. Við endurskoðun aðalnámskrár verða þessi lagaákvæði túlkuð og stefnt er að útgáfu næstu aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla árið 1998.

Í aðalnámskrá grunnskóla frá 1989 er sérstök umfjöllun um umburðarlyndi. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Umburðarlyndi tengist lýðræðinu og kristnu siðgæði og byggist á sömu forsendum. Það verður að ætla öllum rétt til sjálfstæðra skoðana og tækifæri til að tjá þær og reyna að vinna þeim fylgi, að því tilskildu að það sé gert á heiðarlegan hátt og réttur annarra til hins sama virtur. Gagnkvæmni er grundvallaratriði í umburðarlyndi. Það skiptir mestu máli fyrir þá sem eru í minni hluta eða víkja verulega frá ríkjandi hefð.``

Herra forseti. Ég les annars vegar þessa lagagrein og hins vegar þennan kafla úr aðalnámskrá grunnskóla til að árétta það að samkvæmt þessu ber íslenskum skólum að starfa. Að öðru leyti hefur ekki verið samin sérstök verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð til notkunar í íslenskum skólum. Eins og hér kemur fram er unnið að því við endurskoðun aðalnámskrár, bæði fyrir framhaldsskóla og grunnskóla, að útfæra þau markmið sem lögin setja að því er varðar jafna stöðu allra án tillits til kyns, búsetu, uppruna, stéttar, trúarbragða eða fötlunar, eins og það er orðað.

Menntmrn. hefur á hinn bóginn tekið þátt í ýmsum verkefnum sem lúta að því að sporna gegn kynþáttamisrétti og má þar nefna verkefni á vegum Evrópuráðsins og sú nefnd sem þar starfaði tengdist einnig þeirri verkefnaáætlun á vegum Norðurlandanna sem hv. fyrirspyrjandi vék að. Ýmis félagasamtök og æskulýðsfélög tilnefndu fulltrúa í þessa nefnd sem stofnuð var 1994 og var Guðmundur Árnason, skrifstofustjóri í forsrn., formaður hennar. Lauk nefndin störfum í desember 1995. Nefndin ákvað að meginverkefni hennar væri að hlutast til um að gerð yrði rannsókn á högum nýbúa hér á landi í samvinnu við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Gerður var sérstakur samningur við stofnunina um framkvæmd slíkrar rannsóknar á högum nýbúa á Íslandi og þá einkanlega yngra fólks. Er ætlunin að niðurstöður þessarar rannsóknar verði kynntar í sérstakri skýrslu og er við það miðað að könnuninni verði lokið nú fyrir árslok.

Þetta eru þau tvö atriði eða þrjú atriði sem ég vildi sérstaklega nefna sem svar við fyrirspurn hv. þm. en árétta að af hálfu menntmrn. er ekki unnið eftir sérstakri verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð og í skólum landsins er ekki um slíkar áætlanir að ræða af hálfu ráðuneytisins. Hins vegar hafa verið af hálfu ráðuneytisins undirbúin verkefni sem lúta að því að auðvelda nýbúum á Íslandi að kynnast íslensku þjóðfélagi, læra íslensku og laga sig að íslenskum siðum. Þetta verkefni hefur verið unnið á undanförnum missirum og það hefur nú að verulegu leyti flust til sveitarfélaganna eftir að grunnskólarnir fluttust þangað, en ráðuneytið hefur lagt grunn að þessu starfi. Þar tel ég að hafi verið unnið mjög merkilegt og mikilvægt starf, bæði fyrir þá einstaklinga, sem notið hafa þeirrar þjónustu í skólanum sem veitt hefur verið, og einnig til undirbúnings því að við getum með skipulegum hætti mótað þær áætlanir sem hér er spurt um og unnið að því að setja þær fram og inn í þær námskrár sem eru í undirbúningi og unnið verður að og ætlunin er að taki gildi á árinu 1998.