Verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:56:26 (869)

1996-11-06 14:56:26# 121. lþ. 19.3 fundur 92. mál: #A verkefnaáætlun í skólum gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í nefnd þeirri sem skilaði af sér á síðasta ári og vann að þessu í tengslum við ályktanir Evrópuráðsins var þetta meginkjarni í hennar tillögum. En hún beitti sér einnig fyrir öðrum verkefnum sem unnt er að tíunda ef menn vilja fara ofan í slíka þætti. En spurningin snerist ekki um það heldur snerist spurningin um það hvort í skólum landsins væri unnið samkvæmt verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð. En eins og ég sagði starfa skólar landsins eftir lögum og eftir aðalnámskrá og eru þau meginstjórntæki sem ráðherra menntamála hefur til að hafa áhrif á starf í skólunum.

Aðalnámskráin er í endurskoðun. Þessi mál verða tekin þar til athugunar og skoðunar í ljósi þeirra viðhorfa sem uppi eru og þeirra ráðstafana sem taldar eru nauðsynlegar til að veita fræðslu á þeim forsendum sem nú eru í þjóðfélaginu og þar mótast þau stjórntæki sem yfirvöld menntamála hafa til að beina sérstökum tilmælum til skóla og hafa áhrif á innra starf þeirra. Og það á að gera m.a. í samvinnu við þingflokka því að stefnumótun varðandi námskrárgerðina verður unnin í samvinnu við þingflokkana og hafi flokkar sérstök áhersluatriði í þessu sambandi, þá er hægt að koma því inn í þá vinnu. Það er það stjórntæki sem menn hafa. Einstakar áætlanir kunna að skila árangri en aðalatriðið er að þetta sé lifandi og eðlilegur þáttur í starfi skólanna og það sé miklu mikilvægara en einstök átaksverkefni og ég vona, að nýja námskráin verði þannig úr garði gerð að menn geti sinnt þessum verkefnum þar.