Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:06:05 (872)

1996-11-06 15:06:05# 121. lþ. 19.4 fundur 94. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Mér sýnist að það séu um það bil 3 milljarðar sem hafa farið í þessa úreldingarstyrki. Mér heyrist líka að ekki sé lengur verið að eyðileggja báta eða skip sem úrelt eru. Ráðherra nefndi að flest skip standi áfram á skipaskrá en nokkur seld úr landi. Ég árétta að fá upplýsingar um hvort að bátum eða skipum sé eytt. Það er ljóst miðað við svar ráðherrans að ákveðnum skipum, eins og þeim með aflamarkskerfi, hefur fækkað um 300 og bátum með krókaleyfi um 100 en það er mjög erfitt að átta sig á hvort árangur í hagræðingu innan sjávarútvegsins hafi náðst eða orðið.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vísa til svars sem ég fékk við fsp., sem ég beindi til ráðherra í fyrra, sem var um fjölda og stærð fiskiskipa, aldur úreltra fiskiskipa og spurningu um hvaða fiskiskip hafi komið í stað þeirra sem úrelt hafi verið og hver sóknargeta fiskiskipaflotans væri. Hvort hún hefði aukist eða minnkað sem er grundvallaratriði í því að reyna að meta hagræðinguna. Hvort hagræðing varð af því kerfi sem var sett á, og reyndar var spáð að yrði með upptöku kvótakerfisins --- að það hlyti að gerast að hagræðing yrði í flotanum. Við þessu svari fékk ég bara upplýsingar um að ráðuneytið hefði kannað endurnýjun í skipastólnum frá Fiskistofu og setti upp töflu þar um með upplýsingum um veiðileyfi og heildartonnatölu. En þegar maður skoðar þetta þá er mjög erfitt að átta sig á hvað felst í þeim tölum sem Fiskistofa setur fram um heildargetu vegna þess að í svarinu hlyti að eiga að koma fram hver getan er og hver þörfin er. Ég vil beina þessu til ráðherra varðandi fsp. okkar í framtíðinni.