Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:08:29 (873)

1996-11-06 15:08:29# 121. lþ. 19.4 fundur 94. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:08]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er engum vafa undirorpið að gífurleg hagræðing hefur orðið í sjávarútvegi á undanförnum árum og ekki síst í fiskveiðunum. Meginástæðan fyrir því er það markaðskerfi, sem við notumst við, við stjórnun fiskveiða. En þetta sérstaka átak til úreldingar á fiskiskipum hefur, eins og hér hefur komið fram, hjálpað til í því efni. Það er auðvitað rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að fjöldi skipa segir ekki allt í þessu efni. Auðvitað eru ný skip yfirleitt betur tækjum búin og oft betur til þess fallin að stunda fiskveiðar en eldri skip og sóknargetan verður því ekki mæld einvörðungu með fjölda skipa eða rúmlestatölu þeirra. Það er heldur ekki hægt að setja upp neina formúlu í því efni hvað er þörf á mörgum fiskiskipum. Það getur verið breytilegt og er auðvitað breytilegt. En hitt er líka ljóst að fari svo að óskir okkar og spár um að fiskstofnar séu að styrkjast, eins og til að mynda þorskstofninn, er líka augljóst að við þurfum færri skip en áður vegna þess að afli á sóknareiningu eykst og áfram verður mikil þörf á áframhaldandi hagræðingu vegna þessa. Ýmsir hafa kannski talið að vaxandi þorskstofn kallaði á fleiri fiskiskip en því er í raun og veru þveröfugt farið. Vegna þess að styrkari stofn á að þýða að við fáum meiri afla á hverja sóknareiningu. Það er atriði sem ég er sannfærður um að mun þróast á þeim grundvelli sem lagður hefur verið með fiskveiðistjórnuninni að greinin aðlagar sig smám saman að breyttum og nýjum aðstæðum og reynsla undangenginna ára sýnir að svo hefur verið.