Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:42:30 (877)

1996-11-06 15:42:30# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:42]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ekki á ég nú von á því að við knýjum hæstv. landbrh., settan utanrrh., eða iðnaðar- og viðskrh. til þess að breyta um stefnu í þessum málum í þessum umræðutíma í þessum ræðustól. Ég hygg að það taki ögn lengri tíma enda er bardaginn við landbúnaðarkerfið búinn að standa í ansi marga áratugi og með litlum árangri. Það hefur þó mjatlast í því að draga úr skattpíningu á almenning til stuðnings þessu úrelta og ónýta kerfi en samt stendur eftir að við erum í fjórða efsta sæti í heimsbyggðinni að því er það varðar.

Hæstv. ráðherra var spurður margra spurninga af því einfalda tilefni að verðhækkun á nítján mánuðum á nokkrum tegundum af grænmeti upp á tæplega 50% hefur síðan þær afleiðingar að hækka skuldir heimilana um 1,3 milljarða sem þýðir greiðslubyrði á ári upp á 300 millj. kr. Hver eru svör hæstv. ráðherra í þessu? Þau eru út af fyrir sig engin. Þeir árétta þó að þeir hafi ekki verið dregnir fyrir lög eða dóm í útlöndum út af þessu máli. Það er alveg laukrétt hjá þeim að þeir hafa hvorki verið dregnir fyrir dómstóla né dæmdir. Það eina sem þeir hafa gert er að þeir hafa beitt þó nokkrum klókindum, búhyggingum, kænsku og tæknibrellum til að stilla þessa ofurtolla þannig af að þeir eru alveg undir þeim heimildarhámörkum sem samningurinn heimilaði. Það dugar til þess að þeir sleppa við skuldbindinguna um það að þrepa þessa tollvernd niður í áföngum þannig að við erum eina landið sem framkvæmum GATT-samninginn með þeim hætti að það er enginn samdráttur í tollverndinni á aðlögunartímanum. Tollverndin er afstillt í upphafi slík sem hún er. Með öðrum orðum, landbúnaðinum og þó sérstaklega landbúnaðarkerfinu er ekki gert að laga sig að nýju umhverfi. Þetta er gert í þágu sérhagsmuna, ekki í þágu neytenda, ekki í þágu bænda. Þetta er gert af ásettu ráði til þess að viðhalda úreltu og ónýtu kerfi sem situr yfir hlut bæði bænda og neytenda.