Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:47:25 (879)

1996-11-06 15:47:25# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:47]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru nú fleiri sem koma við þessa sögu en garmurinn hann Ketill. Forustuflokkur ríkisstjórnarinnar, Sjálfstfl., hefur sagst vera málsvari frjálsra viðskipta, málsvari opinna markaða, málsvari eðlilegrar samkeppni. Hann þykist fylgjandi þátttöku Íslendinga í samningum þjóða um að létta af hömlum, kvöðum og miðstýringu. En hvernig framfylgir forustuflokkur ríkisstjórnarinnar þessum stefnumálum sínum? Hann framfylgir þeim ekki. Hver er tilgangur þessa flokks sem getur sér helst orð í þessari umræðu fyrir að vera fjarverandi. Hvar eru ráðherrar Sjálfstfl.? Hvar er formaður Sjálfstfl. sem bannaði 1.700 flokksþingsfulltrúum fyrir nokkru síðan svo mikið sem að impra á gagnrýni á GATT? Og hver er tilgangur flokksins með þeirri stefnu sem hann hefur beitt sér fyrir? Var tilgangurinn með GATT-samningnum að gera mikilvæga neysluvöru dýrari eftir GATT en fyrir GATT, eins og á við um t.d. grænmeti? Var tilgangurinn með GATT-samningnum að auka skuldir heimilanna? Var tilgangurinn með GATT-samningnum að torvelda frjálsa samkeppni? Var tilgangurinn með GATT-samningnum að viðhalda miðstýrðu landbúnaðarkerfi? Var tilgangurinn með GATT-samningnum að koma í veg fyrir fjölbreyttara úrval neysluvöru á innlendum markaði? Var tilgangur Sjálfstfl. með GATT-samningunum að leggja 700% tolla á hollustu og mikilvægustu neysluvörur íslenskra heimila?

Þetta er ekki það sem Sjálfstfl. boðar, en þetta er það sem hann framkvæmir. Þess vegna eru allir ráðherrar Sjálfstfl. fjarverandi í þessum umræðum. Virðulegi forseti, vonandi er það vitni um að þeir skammast sín fyrir hlutdeild sína í þessu máli en ég er bara því miður ekki alveg viss um það.