Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:11:39 (889)

1996-11-07 11:11:39# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Í tengslum við skýrslu Byggðastofnunar er rétt og nauðsynlegt að ræða líka stjórnsýsluendurskoðun hjá Byggðastofnun sem unnin var af Ríkisendurskoðun. Sú skoðun og gagnrýni sem ég mun setja fram á því máli byggir ekki bara á þessari skýrslu sem fram hefur komið hjá Ríkisendurskoðun heldur tel ég mig hafa kynnt mér þetta mál nokkuð vel. Ég hef líka farið yfir athugasemdir sem fram hafa komið frá Byggðastofnun sem er undir fyrirsögninni: Mistök Ríkisendurskoðunar í skýrslu um stjórnsýsluendurskoðun hjá Byggðastofnun. Eins hef ég farið yfir ítarlega greinargerð frá Ríkisendurskoðun, sem var í hólfum þingmanna í morgun, þar sem svarað er þessari gagnrýni frá Byggðastofnun sem ég tel reyndar að forsrh. hafi ekki lesið miðað við hans málflutning áðan. Einnig hefur allshn. sérstaklega fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund forstjóra og starfsmann Byggðastofnunar.

Það er vissulega mín skoðun að byggðaaðstoð eigi fullan rétt á sér og við eigum að koma í veg fyrir óeðlilega byggðaröskun. En það sem ég gagnrýni er hvernig að henni hefur verið staðið af hálfu Byggðastofnunar. Þó skýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 1995 sýni að margt hafi verið fært til betra horfs frá árum áður er ljóst að mörgu er ábótavant í rekstri og skipulagi Byggðastofnunar sem nauðsynlegt er að breyta.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er í raun mikill áfellisdómur á Byggðastofnun og stjórn hennar sem kallar á breytt vinnubrögð og að verkefni og hlutverk Byggðastofnunar verði endurskoðuð frá grunni. Allshn. þingsins hefur, eins og ég sagði, fjallað um skýrsluna og fengið á sinn fund forstjóra hennar og starfsmann og sú yfirferð á þessari skýrslu gefur vissulega tilefni til að allshn. taki skýrsluna til rækilegrar skoðunar á grundvelli 26. og 31. gr. þingskapa og skili þinginu skýrslu sinni og áliti um hana, sem og tillögur um breytingar á verkefni, hlutverki og vinnubrögðum í Byggðastofnun. Ég mun alvarlega hugleiða og meta það í ljósi þeirrar umræðu sem fer fram hvort ekki sé rétt að fara fram á það við allshn. sem ég á sæti í.

Ég mun í máli mínu fara inn á nokkur atriði sem ég tel mjög ámælisverð í starfi Byggðastofnunar og fram komu m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar og setja fram mína skoðun á því hverju þurfi að breyta.

Í fyrsta lagi er því haldið fram af Ríkisendurskoðun að Byggðastofnun hafi ekki skilgreint hvað felst í þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar. Hvað sé óeðlileg byggðaröskun og hvar sé lífvænleg byggð, sem samkvæmt lögum er hennar verkefni og forsenda þess að markmiðum laga um Byggðastofnun verði náð. Einnig kemur fram að verulega skorti á að stofnunin hafi markað skýra stefnu um það hvar eigi að styrkja byggð í landinu. Af hvaða ástæðum og með hvaða hætti. Í 16. gr. reglugerðar um Byggðastofnun kemur fram að lán eða annar fjárstuðningur sem Byggðastofnun veitir skuli vera í samræmi við þær byggðaáætlanir sem gerðar hafa verið á grundvelli laga um Byggðastofnun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þó í fyrsta skipti hafi verið gefin út á árinu 1994 stefnumótandi byggðaáætlun þá hafi enn sem komið er ekki verið gefnar út svæðisbundnar byggðaáætlanir. Maður spyr: Á hverju hafa lánveitingar og styrkir, 17--18 milljarðar, á tíu árum byggst? Hvaða forsendur lágu þar að baki? Hvaða markmið voru lögð til grundvallar af hálfu stjórnar eða starfsmanna Byggðastofnunar? Voru það fyrst og fremst geðþóttaákvarðanir eða jafnvel hagsmunagæsla sem þar lágu að baki án nokkurrar fyrirhyggju um hvað best væri fyrir byggðaþróun í landinu?

[11:15]

Það sem þó er hvað ámælisverðast er að Byggðastofnun virðist ekki hafa lagt mat á árangur af þeim miklu lánum og styrkveitingum sem hún hefur staðið fyrir, lánum og styrkjum sem þó nema 17--18 milljörðum á tíu ára tímabili. Það eru forkastanleg vinnubrögð að engin árangursmæling hafi farið fram á yfir 17 milljarða kr. fjármagni úr almannasjóðum og hvort árangurinn er í samræmi við þau markmið sem stofnunin á að vinna eftir samkvæmt lögum. Enda er árangurinn samkvæmt því þar sem á þessu tímabili hafa verið afskrifaðir 3,8 milljarðar eða 23% af heildarfjárveitingum stofnunarinnar og í sumum atvinnugreinum eins og fiskeldi hefur nánast allt verið afskrifað eða 93%. Enn verri er niðurstaðan þegar litið er til hlutafjárkaupa Byggðastofnunar en afskrifa varð hlutafé hjá 38 fyrirtækjum af þeim 44 sem Byggðastofnun tók þátt í. Af 443 millj. sem lagt var hlutafé í voru afskrifaðar rúmlega 270 millj. kr. eða 61% af hlutafjárkaupum stofnunarinnar. Maður spyr. Hvaða forsendur lágu að baki þessum hlutafjárkaupum? Hvernig var málið undirbyggt af hálfu stofnunarinnar? Hvaða tilgangi þjónuðu þessar lánveitingar þegar ljóst var að stærsti hluti fyrirtækjanna sem Byggðastofnun lagði hlutafé í hafði engan rekstrargrundvöll og skilaði því engu fyrir markvissa byggðastefnu? Það virðist enginn þurfa að svara til saka fyrir svona meðferð á almannafé frekar en annars staðar þar sem slíkt viðgengst í þjóðfélaginu. Ekki stjórnin, ekki forstjóri eða forstöðumenn Byggðastofnunar. Enginn virðist bera ábyrgð. Ekki fremur en hjá ríkisbönkum eða opinberum sjóðum en nýlega var upplýst að útlánatöp þeirra voru á árinu 1990 til ársins 1995 um 22 milljarðar kr. Það er athyglisvert að fram kom á sama tíma að í útlánatöp hjá sjóðum fólksins, byggingarsjóðunum, voru einungis afskrifaðar 65 millj. kr., á sama tíma og útlánatöp ríkisbanka og opinberra sjóða voru 22 milljarðar. Launafólk eða skuldug heimili geta ekki treyst á pennastriksaðferðina eða afskriftir á sínum skuldum eins og margir fjárfestar í atvinnurekstri sem vaða af lítilli forsjálni út í glataðar fjárfestingar á kostnað skattgreiðenda. Hvergi í löndunum í kringum okkur eða hjá venjulegum fyrirtækjum mundi slíkt ábyrgðarleysi við meðferð opinberra fjármuna vera liðið. Þar eru menn látnir fjúka, reknir, en ekki verðlaunaðir eins og hér með því að kjósa þá aftur og aftur í stjórnir og stöður þar sem þeir fara eins með opinbera fjármuni og raun ber vitni.

Ég spyr: Er ekki orðið rétt að huga að því hvort ekki sé nauðsynlegt að setja reglur um embættisfærslur í opinberri stjórnsýslu, ekki síst varðandi meðferð opinberra fjármuna og að þeir sem kosnir eru til trúnaðarstarfa hjá hinu opinbera beri ábyrgð á gjörðum sínum rétt eins og tíðkast víða annars staðar? Það væri gagnlegt að fá fram skoðun hæstv. forsrh. á þessu.

Ég spyr líka formann stjórnar Byggðastofnunar, hv. þm. Egil Jónsson, um þær ásakanir sem fram koma í skýrslu Byggðastofnunar. Því er haldið fram að ætla megi að skort hafi á vilja stjórnar til að láta stofnunina gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs sem stofnunin á þó að gera samkvæmt lögum. Þetta er alvarleg ásökun. Ég spyr formanninn: Er það virkilega svo að stjórnin hafi komið í veg fyrir að gerðar yrðu áætlanir um þróun byggðar í samræmi við lög og reglur og að þessi mikilvægi þáttur sem á að vera forsenda lánveitinga hafi verið vanræktur, en á honum eiga lán og styrkveitingar að byggjast samkvæmt lögum? Af hverju hafa þær ekki verið gerðar? Er það til þess að stjórn stofnunarinnar hafi frjálsari hendur til að ráðskast með hvert lán og styrkveitingar renna án þess að markmið og stefna laganna sé höfð að leiðarljósi? Ríkisendurskoðun segir líka að stjórnin fylgist ekki markvisst með rekstri stofnunarinnar --- þetta er alvarleg ásökun sem stjórnin verður að svara --- eða að starfsmenn fari ekki að tillögu forstjóra eða starfsmanna stofnunarinnar þegar fyrir liggi rökstuðningur um að verið sé að henda fé skattborgaranna út um gluggann. Ég nefndi dæmi í skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í fundargerðum má finna dæmi um að stjórnarmenn hafi gert tillögur um lánveitingar sem voru í andstöðu við álit forstjóra. Slík mál voru afgreidd með þeirri niðurstöðu að lánið fór í háan afskriftaflokk þar sem veð og afborgunarmöguleikar lántakendanna voru taldir ófullnægjandi.``

Síðan kemur fram:

,,,,Forstjóri greindi frá því að fyrirtækin væru í miklum rekstrarvanda eins og spáð hafði verið og þyrftu fyrirtækin von bráðar á rekstrarfé að halda. Ekki væru nein veð eftir ef farið yrði í lánveitingar og talsverðar upphæðir þyrfti til að fyrirtækin gætu haldið áfram. Stofnunin stæði því frammi fyrir þeirri spurningu hvort enn skyldi halda áfram eða viðskiptum hætt.``

Haldið var áfram lánveitingum til þessa fyrirtækis sem og annarra fyrirtækja sem voru í fiskeldi þrátt fyrir að fram hafi komið sú skoðun að þau væru komin í þrot. Annað fyrirtækjanna fór í þrot og var selt á 25 millj. kr. í nóvember 1994. Stofnunin hafði keypt hlutafé, styrkt og lánað því fyrirtæki um 564 millj. kr. frá árinu 1987 til og með árinu 1992 sem allt var afskrifað við gjaldþrotið.``

Virðulegi forseti. Ég spyr: Á hið háa Alþingi ekki rétt á skýringu þegar lánað er til fyrirtækja sem vitað var fyrir fram að væru komin í þrot og deginum ljósara að skattgreiðendur þyrftu að borga brúsann? Ég spyr líka um það sem fram kemur á bls. 73 í skýrslunni en það snýr að þeim liðlega 16 milljörðum sem Byggðastofnun veitti að láni sl. tíu ár. Þar kemur fram að 17% lántakanda eru með langhæstu fjárhæðina eða 67% af heildarfjárveitingum. Engin svör fengust við því hjá forstjóra stofnunarinnar til hverra þessar lánveitingar gengu.

Það er líka athyglisvert og kallar á frekari skoðun á því máli að fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að af þeim 80 fyrirtækjum sem fengu styrki frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins á síðustu átta árum --- en sá sjóður vinnur líka undir nafni byggðastefnu --- fékk um helmingur auk þess fyrirgreiðslu af einum eða öðrum toga frá Byggðastofnun. Hver er svo niðurstaða þessara lánveitinga Byggðastofnunar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til þessara fyrirtækja? Jú, um fjórðungur af þeim fyrirtækjum sem nutu fyrirgreiðslu Byggðastofnunar og Framleiðnisjóðs eru orðin gjaldþrota eða eru í gjaldþrotaskiptum. Hvernig er samræmi og vinnubrögðum háttað milli þessara sjóða? Ég spyr formann stjórnarinnar: Veittu þessir sjóðir fyrirgreiðslu til sömu verkefna án þess að hver vissi af öðrum? Allt virðist þetta vera handahófskennt, alla samræmingu eða heildarsýn vantar hvað þá að fylgt sé markmiðum eða áætlunum sem lög og reglur kveða á um. Er nema von að milljarðar, já, tugir milljarða fari með reglulegu millibili í súginn af fé skattgreiðenda og virðast litlu skila til markvissrar byggðastefnu enda fremur fólksflótti þaðan en hitt.

Ég tel líka, herra forseti, að rekstrarkostnaður stofnunarinnar sé mjög hár eða tæplega 24% af heildarkostnaði við byggðastefnu, eða að meðaltali 150 millj. kr. á ári síðustu tíu ár. Það sem líka er umhugsunarvert varðandi reksturinn er að um 50% rekstrarkostnaðar eða um 68 millj. fara í að reka lánastarfsemina eina, sem eru líka rök fyrir því að Byggðastofnun eigi að hætta lánveitingum sem er ein tillaga Ríkisendurskoðunar og ég tek undir. Ég óska líka svara við því frá formanni stjórnar Byggðastofnunar sem forstjóri hennar átti engin svör við í allshn.: Hvaða ástæða liggur að baki því að styrkveitingar voru ekki auglýstar á þessu ári og hafa ekki verið auglýstar að undanskildu árinu 1995? Er það neyðarástand uppi sérstaklega á þessu ári í atvinnu- og byggðamálum að ekki sé rétt að auglýsa styrkina? En samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar um Byggðastofnun skal veiting óafturkræfra framlaga byggjast á umsóknum nema verið sé að afstýra neyðarástandi í atvinnu- og byggðamálum. Nei, herra forseti, Byggðastofnun virðist vera ríki í ríkinu sem telur sig greinilega hafna yfir það að fara eftir lögum og reglum sem henni eru settar og geðþóttaákvarðanir og handahófskennd vinnubrögð virðast einkenna stofnunina og lög og reglur hunsaðar og látnar lönd og leið.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég á töluvert eftir og mun því nýta mér ræðutíma minn á eftir. Ég á eftir að fara yfir ýmislegt í þessari skýrslu og í svari Ríkisendurskoðunar við ásökunum Byggðastofnunar um að Ríkisendurskoðun hafi gert mistök. En ég vil í lokin segja, herra forseti, að mín niðurstaða er sú eftir lestur þessarar skýrslu að leggja eigi Byggðastofnun niður í núverandi mynd. Hún á ekki að vera lánastofnun í þeirri mynd sem hún er nú og spyr ég um álit forsrh. á því. En undir það tekur Ríkisendurskoðun. Byggðastofnun á fyrst og fremst að sinna því að gera áætlanir um þjóðfélagslega hagkvæma þróun byggðar og einstakra landshluta og vera ráðgefandi aðili í því efni. Hún á ekki að vera lánastofnun. Byggðastofnun á fyrst og fremst að stuðla að fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu og gæti í því skyni haft með styrkveitingar að gera til að vinna að því verkefni. Það er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina að unnið sé að nýsköpun í atvinnulífinu og að auka fjölbreytni í atvinnulífinu vegna þess að fyrir það hefur landsbyggðin liðið að ekki hefur verið nægjanlega gert í því máli. Ég tel líka að það eigi að leggja af stjórn Byggðastofnunar sem þessi skýrsla sýnir að hefur ekki verið hlutverki sínu vaxin og virðist fyrst og fremst vera í einhvers konar sérhagsmunagæslu fremur en að vinna að þeim markmiðum sem henni eru sett samkvæmt lögum og reglugerðum. Það er ótækt og gengur gegn þeirri aðgreiningu sem á að vera milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að þingmenn sitji í stjórn hennar. Stjórnina á að leggja af. Lánafyrirgreiðslu Byggðastofnunar á að leggja af en styrkveitingar til þróunarverkefna og nýsköpunar í atvinnulífinu ásamt áætlanagerð og svæðisáætlunum um þróun byggðar eiga að vera í höndum Byggðastofnunar. Ég tel það miklu farsælla fyrirkomulag og líka og ekki síst fyrir landsbyggðina sjálfa. Fyrirkomulag styrkveitinga sem nú eru 100--200 millj. á ári gæti síðan verið þannig að fjárln. fengi þær til umsagnar eða staðfestingar.

Þetta eru tillögur sem ég tel að ætti að skoða. Ég sagði áðan að ég mundi meta það í ljósi umræðnanna sem hér verða hvort ég muni óska eftir því við allshn. að hún fari ítarlega í þessa skýrslu og skili niðurstöðum sínum og skýrslu til Alþingis ásamt tillögum. Ég vildi gjarnan óska þess að nefndin ræddi þessar tillögur. Ég óska efir því við hæstv. forsrh. að það komi nánar fram í hans máli hver viðhorf hans séu til þessara tillagna og hugmynda sem ég hef sett hér fram. En ég mun fara nánar í þessa skýrslu í síðari hluta ræðutíma míns.