Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:00:27 (900)

1996-11-07 12:00:27# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), ÓI
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:00]

Ólafía Ingólfsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka skýrslu um Byggðastofnun sem hæstv. forsrh. hefur flutt þingheimi. Byggðastofnun hefur á síðasta ári eins og áður unnið að margs konar verkefnum. Alls námu styrkveitingar 202 millj. kr. og fór stærsti hluti þess fjármagns til sérverkefna.

Í ársreikningi Byggðastofnunar kemur fram að ekki hefur dregið úr fólksflutningum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er þróun sem er áhyggjuefni ef byggð á að haldast á öllu landinu. Ég held að flestir geti verið sammála því að starfsemi atvinnuráðgjafa og annað þróunarstarf til handa fyrirtækjum og einstaklingum víða um land leiði til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein og því er eðlilegt að Byggðastofnun komi að því verkefni með því að styðja og styrkja þá starfsemi og tengja saman starf ferðamálafulltrúa og atvinnuráðgjafa.

Á síðasta ári styrkti Byggðastofnun starf atvinnuráðgjafanna með 30 millj. kr. framlagi og styrkveitingar til nýsköpunar og ýmissa verkefna voru 65 millj. kr. Dulið atvinnuleysi í sveitum landsins, sérstaklega á meðal kvenna, er mikið og hefur samdráttur í landbúnaði, sérstaklega í sauðfjárrækt, átt þar stærstan hlut að máli. Þar hefur starf atvinnuráðgjafa komið verulega til aðstoðar þessu fólki og stuðningur Byggðastofnunar, m.a. við handverkssýningar, hefur einnig gefið þessu fólki viðurkenningu á þeirri vinnu sem fram fer víða um land. Þetta fólk sem er að byggja upp iðnað hefur ekki mikið fjármagn til að koma framleiðslu sinni á framfæri. Ánægjulegt er að sjá hvað íslenskt handverkafólk hefur náð langt í þróun og framleiðslu vöru til nytja og gjafa fyrir innlendan markað og erlenda ferðamenn.

Í mínu kjördæmi bendi ég á þróttmikið starf fólks á handverksstaðnum í Þingborg og ég veit að hægt er að nefna miklu fleiri staði úti á landsbyggðinni. Það sem mest er um vert er að þarna er verið að vinna úr íslensku hráefni og hugmyndir fólks eru óþrjótandi. Með aukningu ferðamanna hingað til lands er kominn markaður fyrir fólk til að vinna minjagripi og annað sem hægt er að vinna yfir vetrartímann þar sem fólk er í sínu daglega umhverfi og þarf ekki að sækja um langan veg í atvinnu. Þessi atvinnustarfsemi, svo og önnur ný fyrirtæki, þurfa á svokölluðu þolinmóðu fjármagni að halda, sem gerir það að verkum að koma þeim á fæturna og að þau fái það umhverfi að þau geti lifað. Gera þarf Byggðastofnun það kleift að sinna þessari starfsemi og fái hún til þess rýmri heimildir til að styrkja slík fyrirtæki, svo og önnur fyrirtæki svo að þau geti starfað og dafnað vítt og breitt um landið.

Meðal þess sem Byggðastofnun styrkti á síðasta ári var vöruþróun á leirhitabökstrum, náttúrulegum snyrtivörum, þurrkaðri loðnu og rafgirðingarstaurum svo eitthvað sé nefnt. Það sést á þessari upptalningu að fjölbreytni er í þeirri starfsemi sem Byggðastofnun styrkir.

Endurskoðun Ríkisendurskoðunar á Byggðastofnun er nýlega lokið og hefur sú skýrsla valdið miklu fjaðrafoki og sýnist sitt hverjum. Gagnrýni er öllum holl ef hún er réttmæt. Það er ekki nóg að mínu mati að draga bara fram neikvæðar hliðar á málinu, það á að draga þær jákvæðu fram líka. Menn eiga að vera á jörðinni í þessari umræðu því mikið alvörumál er á ferðinni hvort hér á að vera byggð í öllu landinu eða ekki. Ég bið menn að vera minnuga þess.