Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:17:25 (902)

1996-11-07 12:17:25# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:17]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir einkar málefnalega ræðu og reyndar er flest af því sem hér kom fram fyllilega eðlilegt að taka til umræðu. Það sem ég vildi þó einkum minnast á eru áhrif stjórnarnefndarmanna sem ræðumaður talar um. Ég mótmæli því að stjórnarnefndarmenn beiti áhrifum sínum sérstaklega til þess að draga taum vissra kjördæma. Það er ekki mín reynsla af störfum í Byggðastofnun og ég bendi á það, sem reyndar kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar út af fjárstreymi til Vestfjarða, að það eru gefnar skýringar á því vegna hvers það hafi átt sér stað: Einhæfni í atvinnulífi og samdráttur í fiskveiðum. Þannig að Ríkisendurskoðun gefur skýringar einmitt á þessu sem menn hafa lagt út sem mikla ádeilu á stjórnarmenn Byggðastofnunar.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því, og verð þá að koma betur að því síðar, sem mér þótti vænt um að hv. þm. skyldi koma inn í umræðuna og það er þetta með skort á skilgreiningum. En ég bara spyr nú vegna þess að við veitum líka stuðning til byggðarlaga (Forseti hringir.) þar sem mikil uppbygging á sér stað. Á t.d. að sleppa Reykjanesi og þeim verkefnum sem eftir er leitað þar þegar Byggðastofnun tekur ákvarðanir?