Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:23:16 (905)

1996-11-07 12:23:16# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Við mat á fyrirgreiðslu eða lánveitingum ber auðvitað að hafa hliðsjón af atvinnusamsetningu í þeim kjördæmum sem menn eru að bera saman. Af því hér er borið saman Vesturland og Vestfirðir þá vil ég minna á frétt sem birtist í Morgunblaðinu í gær um lánveitingar Fiskveiðasjóðs, sem ekki hefur neitt sérstakt byggðahlutverk heldur er einfaldlega lánasjóður á arðsemisgrundvelli og lánar þeim sem hann treystir til að borga og öðrum ekki, að næsthæstu lánveitingarnar á síðasta ári voru til Vestfjarða, eða um 21% útlána. Það er einfaldlega vegna þess að sjávarútvegur er svo stór þáttur í atvinnulífi þar. Hins vegar fóru ekki nema 10% af lánveitingum Fiskveiðasjóðs til Vesturlands. Skýringin er ósköp einföld, bara öðruvísi samsetning á atvinnulífi og auðvitað endurspeglast þetta líka í Byggðastofnun.

En af því hv. þm. var með hugmyndir um að það skipti máli hvaðan menn væru þegar þeir tækju ákvarðanir um útdeilingu peninga þá langar mig til að rifja upp stefnu Alþfl. í byggðamálum eins og hún var kynnt þegar frv. það var til umræðu sem síðar varð að núgildandi lögum um Byggðastofnun. Þar segir, með leyfi forseta, um byggðastefnu Alþfl. sem formaður flokksins hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kynnti: ,,Kjarni stefnu okkar er sá að við viljum auka vald landsbyggðarinnar og þess fólks sem þar býr yfir sínum eigin málefnum við að gera róttæka skipulagsbreytingu á stjórnkerfinu og skapa hér nýjar stjórnsýslueiningar í sveitarstjórnarmálum sem væru fylki eða fjórðungar sem fengju verulegt vald í sínar hendur, m.a. skattlagningarvald.``

Ég vil spyrja hv. þm. Alþfl. hvort hann sé sammála þessari byggðastefnu (Forseti hringir.) sem formaður Alþfl. kynnti hér fyrir 11 árum, 30. apríl 1985, og hvort flokkur hans er enn með þessa sömu byggðastefnu. Og ég spyr hann m.a. vegna þess að fram undan er þing flokksins (Forseti hringir.) og væri fróðlegt að fá svör við því.