Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:25:43 (906)

1996-11-07 12:25:43# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:25]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Meginmarkmið Alþfl. og byggðastefna lýtur að því að treysta byggð þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti. Þetta hlýtur að vera þokkalega skýrt svar. Ég sé ekki að það felist neitt í orðum hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrir 11 árum síðan sem tekur þetta markmið neitt út af sporinu. Það er rétt, það á að auka vald landsbyggðarinnar. Það hefur ekki orðið nema í því að verkefni voru færð til sveitarstjórnanna með því að flytja grunnskólana til þeirra frá ríkisvaldinu. Að þessu verkefni stóð Alþfl. heils hugar og það er aðeins eitt sem hefur náðst af þeim markmiðum að flytja vald frá ríki til sveitarfélaga. Núna varðandi atvinnufyrirtæki er á döfinni að flytja Landmælingar frá Reykjavík til Vesturlands. Það er athygli vert. Það er líka athygli vert hver viðbrögðin eru, þverpólitísk viðbrögð manna úr öllum flokkum sem í Reykjavík eru.