Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:28:23 (908)

1996-11-07 12:28:23# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:28]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það ber ekki mikið í milli okkar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í þessum málum. Ég get ítrekað það að við alþýðuflokksmenn viljum treysta byggðina þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti. Við viljum efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfu nútímasamfélags og við viljum draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega. Hvað er að gerast um allt land? Þar standa auðar skólabyggingar, á Vestfjörðum, á Vesturlandi, á Norðurlandi, á Norðausturlandi, á Austurlandi. Og það er afleiðingin af því að við höfum ekki getað hamlað á móti og það eru hlutirnir sem ég var að tala um í ræðu minni í upphafi og við erum ekki ósammála, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.