Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:31:11 (910)

1996-11-07 12:31:11# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:31]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi dregið a.m.k. stærstu punktana fram af því sem að ég tel hafa gerst á síðasta ári. Ég tel að árangur hafi náðst. Ég kom einnig inn á það hvað Ríkisendurskoðun segir. Ég tel mig ekki hafa fallið í neina gryfju. Ég held að ég sjái þokkalega í gegnum þessa skýrslu sem gerð var vegna þessara tíu ára frá 1985--1995 enda fengið skýringar bæði frá framkvæmdastjóra Byggðastofnunar og frá skýrsluhöfundum, þ.e. ríkisendurskoðanda. Þess vegna spyr ég og bið um að stjórnarmenn og stjórnarformaður Byggðastofnunar noti þessa skýrslu til rækilegrar leiðbeiningar. Ég tel að það megi ná árangri. Við þurfum að reka eitthvert apparat sem er samsvarandi Byggðastofnun og við þurfum að fá það eins virkt og hægt er. Ég sagði líka að skýrslan er auðvitað eins og hún er vegna þess að þær ákvarðanir sem voru teknar á hverjum tíma voru í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru. Ég viðurkenni það. En við eigum, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að læra af mistökunum og ég veit að þar erum við sammála og þingmaðurinn er örugglega fús til að vinna á þeim nótum sem ég er að ræða um hér.