Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:33:01 (911)

1996-11-07 12:33:01# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:33]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Að sjálfsögðu mun ég og hef marglesið skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er kannski þess vegna sem mér gremst skýrslan því hún er skrifuð í þeirri tóntegund sem ég var hér að draga fram. Og ég sé að menn hafa fallið í þessa gryfju í samanburðarfræðinni. Það er óréttlátur samanburður þegar verið er að draga upp þessa mynd af kjördæmunum. Ég segi það enn og aftur að ef þetta eina fyrirtæki hefði verið tekið út úr, eins og er gert í samanburði við önnur fyrirtæki vegna þess að fiskeldið er þar ekki inni, þá hefðu afskrifaðar skuldir, þ.e. útlán til Norðurl. v., numið um 10%. Það er nákvæmlega sama talan og er í Reykjavík og á Reykjanesi.

Annars vil ég segja við Alþfl. og þessa ágætu menn sem tala fyrir hann hér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrv. ráðherra, að hv. þm. er fljótur að gleyma. Hún var búin að sitja í ráðherrastól býsna lengi og það var nánast sviðin jörð þegar hún fór úr ráðherrastólnum. Nánast sviðin jörð. Þrátt fyrir það leggur þessi hv. þm. til að skattleggja landsbyggðina um 14--15 milljarða kr. með auðlindaskatti.