Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:31:12 (919)

1996-11-07 13:31:12# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:31]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Fyrir tæpri viku samþykkti ríkisstjórnin að renna stoðum undir þá starfsemi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna sem getur farið fram á Akureyri. Þetta verður gert annars vegar með því að greiða ferðakostnað nemenda og kennara milli Akureyrar og Reykjavíkur en á hinn bóginn með því að styrkja starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Akureyri.

Þessi yfirlýsing kemur sem svar við harðri gagnrýni sem komið hefur fram við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að vista Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Sú ákvörðun er byggð á tillögum sem fram komu í skýrslu starfshóps sem utanrrh. skipaði. Í niðurstöðum þessarar skýrslu er gert ráð fyrir því að stofnaður verði sjávarútvegsháskóli í nánum tengslum við Hafrannsóknastofnun í Reykjavík. Er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands flytji þangað þá starfsem sína sem tengist sjávarútvegi. Er þar væntanlega um að ræða Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands og meistaranám í sjávarútvegi, en til hvors tveggja stofnaði Háskóli Íslands eftir að sjávarútvegsdeild hafði verið stofnuð við Háskólann á Akureyri.

Af þessu er ljóst að í Reykjavík mun rísa nýr sjávarútvegsháskóli með alþjóðleg tengsl og annað og meira fjárhagslegt svigrúm en Háskólinn á Akureyri til að sinna því sérsviði sem norðlensku stofnuninni var ætlað. Þessar tillögur eiga uppruna sinn í starfshópi sem var þannig skipaður að þar sátu hagsmunaaðilar sem tengjast beint þeim stofnunum sem ætlað er að koma að hinum nýja skóla í Reykjavík. Ber þar að nefna forstöðumann Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands og forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Má því með sanni segja að Háskólinn á Akureyri hafi ekki haft sömu stöðu til að gæta sinna hagsmuna við undirbúning málsins og Háskóli Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Háskólanum á Akureyri var þannig haldið frá undirbúningi málsins með sérkennilegum hætti.

Ég tel að skýrslan beri þess einnig merki. Í henni eru tilgreind sjö námssvið og eru taldar upp á hverju sviði þær stofnanir sem taldar eru koma til greina sem þátttakendur í kennslustarfinu og sem stoðdeildir við starfsemina. Í aðeins þremur af þessum sjö sviðum er Háskólinn á Akureyri nefndur á nafn. Á einu sviði þar sem Háskólinn á Akureyri er ekki talinn koma til greina sem samstarfsaðili að mati nefndarinnar eru tilgreindar sjö mismunandi námsgreinar sem allar eru hluti af þeirri kennslu sem nú er boðið upp á við Háskólann á Akureyri. Á grundvelli þessarar skýrslu er síðan mat sérfræðinganefndar háskóla Sameinuðu þjóðanna byggt enda greinir þá aðila ekki á um niðurstöður um staðsetninguna.

Með tilkomu sjávarútvegsháskólaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi gefst stjórnvöldum í raun tækifæri til þess að byggja upp Háskólann á Akureyri. Það verður ekki gert með því að stofna nýjan sjávarútvegsskóla í Reykjavík. Þvert á móti verður sú ráðstöfun til þess að draga úr sérstöðu Háskólans á Akureyri og veikja hann. Það þarf enginn að segja mér það að akademísk stofnun sem byggð verður upp í Reykjavík og sameinar Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands og meistaranám í samstarfi við Hafrannsóknastofnun í Reykjavík verði til þess að efla Háskólann á Akureyri og er það meira en sérkennilegt ef menn trúa því í raun og veru.

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að styrkja starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Akureyri og tryggja greiðslu ferðakostnaðar er jákvæð og ber að þakka þessa ákvörðun. Það er hins vegar mjög brýnt að ríkisstjórnin setji sér nú þegar það markmið að efla rannsóknasstarfsemi Háskólans á Akureyri og Hafrannsóknastofnunar með það fyrir augum að þar verði Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna staðsettur í framtíðinni. Slík ákvörðun setur þróun háskólans í samhengi við þær hugmyndir sem lágu til grundvallar þegar skólinn var stofnaður. Slík ákvörðun mundi einnig eyða þeirri óvissu um framtíðarþróun Háskólans á Akureyri sem ákvörðunin um staðsetningu Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík hefur vakið.

Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu svo þar verði öflug miðstöð rannsókna og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um staðsetningu Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna verður einnig að skoða með þessa ályktun Alþingis í huga. Hér er um pólitíska ákvörðun að ræða. Það skiptir höfuðmáli að stjórnarflokkarnir komi sér saman um framtíðarstaðsetningu Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Akureyri og það að sjálfsögðu í nánum tengslum við Háskólann á Akureyri og samfara eflingu Hafrannsóknastofnunar og annarra rannsóknastofnana þar nyrðra.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að það er kominn tími til þess að Háskóli Íslands sýni uppbyggingu Háskólans á Akureyri og uppbyggingu sjávarútvegsdeildar skólans áhuga en ekki fjandskap og flytji sjávarútvegsstofnun sína til Akureyrar. Háskóla Íslands hlýtur að vera það kappsmál að fara að dæmi Hafrannsóknastofnunar og annarra rannsóknastofnana sem hafa flutt hluta af starfsemi sinni til Akureyrar til að stuðla að eflingu Háskólans á Akureyri. Það er ekki sæmandi þessari æðstu menntastofnun þjóðarinnar að leggja sig í líma við að hindra þróun Háskólans á Akureyri og alveg sérstaklega þróun sjávarútvegsdeildar skólans.

Hin pólitíska ákvörðun ríkisstjórnarinnar er ekki síst brýn í ljósi þeirra miklu fjárfestinga og uppbyggingar sem áætluð er á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar og þau áform sem í athugun eru, er með öllu óásættanlegt að ekki sé lögð höfuðáhersla á að efla þann vaxtarbrodd og tryggja framtíð þeirrar stofnunar sem mestu hefur skipt í stöðu landsbyggðarinnar nú á síðari tímum, þ.e. uppbyggingu akademísks náms og rannsóknastarfsemi utan Reykjavíkur og náin tengsl þess við atvinnulífið.