Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:49:15 (924)

1996-11-07 13:49:15# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og hennar sjónarmiðum í þessu máli því ég held að þau séu hárrétt. Málið snýst ekki um það hvort þessi skóli sé á Akureyri eða í Reykjavík heldur hvort hann sé á Íslandi og hvort við fáum þessa stofnun hingað til landsins. Málið snýst heldur ekki um venjulegt nám á háskólastigi því að nemendurnir sem hér er um að ræða eða þeir sem höfðað er til, eru flest allt fólk sem hefur þegar lokið háskólaprófi. Þetta er spurning um það að við getum veitt þjónustu sem fullnægir alþjóðakröfum með þeim hætti að sómasamlegt sé og að Sameinuðu þjóðirnar sjái sér akk í því að koma þessari starfsemi hér upp. Ég held að það sé rétt og ég styð það eindregið sem hæstv. utanrrh. hefur farið með, þ.e. að koma þessu fyrir eins og ríkisstjórnin samþykkti. Ég tel að það sé ekki vegið að Háskólanum á Akureyri með því og hafi ekki verið vegið að Háskólanum á Akureyri í þessu máli á einn eða annan veg og að það sé algjörlega rangt að setja þetta mál þannig upp að verið sé að vega sérstaklega að Háskólanum á Akureyri.

Ég vil vitna í ræðu sem rektor Háskóla Íslands flutti fyrir skömmu á háskólahátíð, með leyfi hæstv. forseta. Hann sagði:

,,Ég hef áður lýst þeirri samvinnu sem í þróun er á milli Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og skóla og stofnana í öllum fjórðungum landsins. Einnig nánum tengslum við Hafrannsóknastofnun sem tókust þegar forstöðumaður hennar tók á sig að gegna embætti prófessors í fiskifræði. Sú samvinna mun væntanlega eflast enn en sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna verður til húsa hjá Hafrannsóknastofnun með aðild Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands auk helstu fyrirtækja í sjávarútvegi.

Háskólinn stefnir að því að starfsemi hans á sviði sjávarútvegs og matvælafræði verði samgróin starfsemi rannsóknastofnunarinnar í Skúlagötu.``

Þetta er stefna Háskóla Íslands og þetta er í samræmi við þær viðræður sem ég hef átt við rektora Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um að þeir efli samstarf sitt. Ég tel að ef rétt er á málum haldið geti sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna einmitt orðið það verkefni sem stuðlar að því að þessi samvinna verði nánari og skili okkur þess vegna lengra fram á veginn en ef menn eru í því að gera þetta að byggðaþrætumáli hér á landi.