Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:51:44 (925)

1996-11-07 13:51:44# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:51]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að okkar höfuðatvinnugrein, sjávarútvegur, skuli vera í því áliti á alþjóðavísu að háskóli Sameinuðu þjóðanna skuli hafa ákveðið að setja hér á stofn skóla sem mun hafa á hendi fræðslu í mörgum greinum sem tengjast sjávarútvegi. Í öðru lagi vil ég segja að með því að standa að þessum skóla og fjármagna að mestu rekstur hans erum við Íslendingar að bæta stöðu okkar hvað varðar fjárhagslega aðstoð við fátækar þjóðir. Í þriðja lagi er mikilvægt að vel takist til um framkvæmdina. Ég vil lýsa yfir ánægju með það að ríkisstjórnin skuli á fundi sínum síðasta föstudag hafa tekið þetta mál upp og samþykkt að beita sér fyrir því að renna stoðum undir þá starfsemi sjávarútvegsskólans sem geti farið fram á Akureyri. Í því sambandi vil ég skírskota til þeirrar umræðu sem fór fram fyrr í dag í þessari stofnun um byggðamál.

Það er ákveðin tilhneiging í þjóðfélaginu í þá átt að allir hlutir skuli vera í Reykjavík. Því er þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar mikilvæg. Enginn vafi er á því að ákveðnum þáttum í starfsemi skólans er vel fyrir komið á Akureyri, en öðrum ekki. Þess vegna er það von mín að samstarf geti verið gott á milli þeirra mikilvægu stofnana sem þurfa að koma að þessu máli þannig að það fræðslustarf í þágu vanþróaðra þjóða sem þarna á að fara fram verði okkur öllum til sóma.