Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 14:03:40 (930)

1996-11-07 14:03:40# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[14:03]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. forsrh. um Byggðastofnun. Hlutverk hennar kemur fram í 2. gr. laga nr. 64/1985, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hlutverk Byggðastofnunar er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu.``

Enn fremur segir í 2. mgr. 3. gr.:

,,Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni meðal annars að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði.``

Herra forseti. Ekki verður fjallað um Byggðastofnun án þess að geta lítillega skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnunina. Ber að virða frumkvæði hv. þm. Egils Jónssonar, formanns stjórnar stofnunarinnar, að biðja um þá endurskoðun. Það er von mín að stjórn stofnunarinnar nýti niðurstöður endurskoðunarinnar til að setja stofnuninni skarpari markmið og ná fram betri nýtingu á fé skattgreiðenda.

Í skýrslunni kemur fram að fórnarkostnaður við byggðastefnuna hafi numið rúmum 8 milljörðum kr. Er þá miðað við verðtryggða ávöxtun spariskírteina. Þetta eru feiknamiklir fjármunir sem tapast hafa á tíu árum. Þó verður að taka með í reikninginn að tannfé stofnunarinnar, skuldaslóði Byggðasjóðs sem hún tók yfir, var umtalsverður. En menn ættu ekki furða sig á þeirri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að Byggðastofnun hafi tapað fé. Henni er samkvæmt lögum ætlað að tapa fé og það hefur hún gert. Eins og ég las áðan á hún að veita lán eða annan fjárhagslegan stuðning og stuðningur þýðir að veita á lán með sérstökum kjörum sem þá væntanlega tapast að einhverju leyti.

Herra forseti. Hvernig hefur tekist til? Fólksflutningar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hafa verið óslitnir allan starfstíma Byggðastofnunar, eins og sést svo dapurlega á bls. 9 í ársskýrslu stofnunarinnar. Reyndar er lærdómsríkt að þessir flutningar stöðvuðust á tímum viðreisnar þegar menn voru að hætta við höft og tóku upp meira frjálsræði. Þá stöðvuðust flutningar frá landsbyggðinni til Reykjavíkur en eftir að Byggðasjóður og síðan Byggðastofnun tók við hafa flutningarnir stóraukist. Þetta ætti að vekja einhvern til umhugsunar. Jafnframt sést á þessari skýrslu að flutningarnir eru mestir frá Vestfjörðum, sem hafa fengið mestu styrkina og það ætti líka að vekja menn til umhugsunar.

Herra forseti. Hvernig virka beinir styrkir og styrkir í formi lána og hlutafjár?

Í fyrsta lagi. Þeir leysa vanda bankakerfisins sem fær greiddar vonlausar kröfur á vonlaus fyrirtæki, kröfur sem mynduðust vegna ótæpilegra lánveitinga í glataðan rekstur, oft vegna pólitísks þrýstings. Staða byggðarlaganna batnar ekki neitt þó að bankarnir fái sínar kröfur greiddar. Það er aðeins lengt í hengingarólinni á fyrirtækjunum. Reksturinn er eftir sem áður orsökin að vandanum.

Í öðru lagi. Lánveitingar og hlutafjárkaup fara að sjálfsögðu til illa stæðra og oft illa rekinna fyrirtækja og bæta samkeppnisstööu þeirra gagnvart vel reknum fyrirtækjum eða eins og einn framkvæmdamaður úti á landsbyggðinni sagði við mig: Það er vonlaust að keppa við ríkisstyrki þegar við erum að kaupa báta eða kvóta. Það er gersamlega vonlaust þannig að styrkirnir eru ekkert annað en refsing og þeir skaða vel rekin fyrirtæki og þar með byggðarlagið í heild.

Í þriðja lagi. Hugsum okkur fyrirtæki sem á í vanda vegna lélegrar stjórnunar eða breyttra aðstæðna. Ef fyrirtækið fær styrk til að leysa vandann þurfa menn ekki að laga stjórnunina eða breyta rekstrinum og aðlaga hann nýjum aðstæðum. Vandinn helst áfram. Styrkurinn skaðar byggðarlagið til frambúðar.

Herra forseti. Á margan hátt má líkja áhrifum styrkveitinga við áhrif eiturlyfja. Þeir hressa í byrjun en svo draga þeir reksturinn hægt og rólega til dauða. Það skýrir kannski að fólksflutningarnir eru mestir frá Vestfjörðum sem hafa fengið mestu styrkina.

Ég tel að best dugi landsbyggðinni að bæta stöðu fyrirtækja almennt og ég hygg að breyting á fjármagnstekjuskatti sem gerð var á sl. vori hafi bætt stöðu landsbyggðarinnar miklu meira heldur en allt brölt Byggðastofnunar. Ég á við að hagnaður er núna skattlagður með 10% en ekki eins og áður með ofursköttum. Við getum hugsað okkur mann sem lagði peninga í áhættusaman rekstur, eins og útgerð. Hann tapaði sínu fé, segjum hálfri milljón, þá þurfti hann að hafa í tekjur eina milljón og vera búinn að borga af henni í skatta til að borga þessa hálfu milljón. Ef hagnaður varð aftur á móti af fyrirtækinu upp á hálfa milljón, þá tók ríkissjóður í fyrsta lagi 33% skatta af fyrirtækinu og síðan 42%--47% skatt á söluhagnaðinn ef maðurinn seldi fyrirtækið.

Þetta var ofurskattlagning á hagnað og ríkið var ekki með þegar tap varð. Þetta kom sérstaklega illa niður á öllum áhættusömum rekstri; hugbúnaði og sjávarútvegi. Ég held að þetta hafi skaðað landsbyggðina allverulega. Þessu er búið að breyta.

Miðstýring bankakerfisins hefur líka skaðað landsbyggðina verulega. Hornfirðingur leggur þúsund kr. inn í banka. Hvert fer sá þúsundkall? Hann fer til Reykjavíkur. Hann er í vinnslu í Reykjavík, hann veldur þenslu í Reykjavík. Síðan má Hornfirðingurinn fá 950 kr. lánaðar á hnjánum aftur til baka, sína eigin peninga, eftir að miðstýring og miðstöð bankakerfisins í Reykjavík er búin að taka fimmtíukall. Þetta er vandi landsbyggðarinnar. Það er miðstýring fjármagnskerfisins.

Hvar skyldi Byggðastofnunin sjálf vera staðsett? Hvar skyldi hún valda þenslu? Hún veldur þenslu í Reykjavík. Ég hugsa að margir hafi flust til Reykjavíkur til að starfa hjá Byggðastofnun. Sá gífurlegi kostnaður sem Byggðastofnun hefur haft í húsnæði, sem hefur verið gagnrýnt á Alþingi, er í Reykjavík, og hefur skapað vinnu hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum í Reykjavík. Þetta veldur sem sagt þenslu í Reykjavík. Þess vegna tel ég að best sé að leggja Byggða\-stofnun niður, alla vega þann hluta hennar sem fjallar um lán og hlutafjárkaup og nota framlagið til að lækka kvaðir á einstaklingum og fyrirtækjum. Það mundi gagnast landsbyggðinni miklu betur en beinir styrkir. Eins og ég gat um áðan má líkja áhrifum styrkja við eiturlyf og ekki er gott að njóta slíkra gæða.