Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 14:28:02 (936)

1996-11-07 14:28:02# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[14:28]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997. Eins og á undanförnum árum hefur í frv. þetta verið safnað þeim lagabreytingum sem gjaldaáætlun fjárlagafrv. gerir ráð fyrir til að leggja áherslu á þann samnefnara þeirra að stuðla að aðhaldi í ríkisútgjöldum og halda jafnvægi í ríkisbúskapnum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálunum eru forsenda framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis.`` Eitt meginmarkmið þessarar ríkisstjórnar er að halda því efnahagslega jafnvægi sem þegar hefur náðst.

Verðbólga hér á landi er með því lægsta sem gerist í þróuðum iðnríkjum. Atvinnuleysi er mun lægra hér en í nágrannalöndunum. Það dregur enn meira úr því nú en þó er það meira enn en við mundum öll kjósa. Hagvöxtur hefur á undanförnum árum verið minni en eðlilegt verður að teljast, en nú er fyrst að sjást árangur af þeirri baráttu ríkisstjórnarinnar að skjóta traustum stoðum undir atvinnulífið þannig að íslenska þjóðin geti búið við þau skilyrði að saman fari skynsamleg nýting sjávarauðlinda og ásættanlegur hagvöxtur.

Við Íslendingar sjáum fram á það í dag að hinu langa tímabili lítils hagvaxtar sem varað hefur allt frá árinu 1988 er nú lokið og við tekur nýtt tímabil uppsveiflu í atvinnulífinu. Eitt þýðingarmesta verkefni ríkisstjórnarinnar undir þessum kringumstæðum er að haga stjórn efnahagsmála á þann veg að halda því jafnvægi sem náðst hefur. Þannig getur hún best tryggt að hagvöxtur verði áframhaldandi, að atvinnuleysi haldi áfram að minnka, að ásættanlegur jöfnuður haldist í viðskiptum við útlönd og að verðbólga haldist áfram í lágmarki. Kaupmáttur þarf að aukast þótt allir vilji forða þjóðarbúinu frá óraunsæjum kauphækkunum og verðbólgu í kjölfarið. Slíkt mundi trufla framvindu atvinnulífsins og draga úr hagvexti og rýra þannig að lokum kaupmátt almennings.

Til að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum við þessar aðstæður er það sérlega mikilvægt að halda föstum tökum á fjármálum ríkisins. Það er mjög eðlilegt og nauðsynlegt við þessar kringumstæður að afgreiða fjárlög með nokkrum afgangi. Hallalaus fjárlög draga úr eftirspurn hins opinbera eftir vörum og þjónustu og skapa þannig rúm fyrir aukna eftirspurn atvinnulífsins og bætta kaupgetu heimilanna.

Núverandi ríkisstjórn setti sér það markmið í upphafi kjörtímabilsins að eyða hallanum á ríkisfjármálum á tveimur árum. Fyrir þetta ár voru fjárlög samþykkt með 4 milljarða kr. halla og var þó ætlunin að afgreiða hallalaus fjárlög fyrir komandi ár. Fjárlagafrv. það sem nú liggur fyrir Alþingi gerir ráð fyrir rúmlega 1 milljarðs kr. afgangi og er það í fyrsta sinn í mörg ár að færi gefst á að afgreiða fjárlög á þann hátt. Mörgum þætti nú lag að ganga þegar í stað á þennan afgang og skila fjárlögum á sléttu. Það væri óráð. Reynsla undanfarinna ára sýnir að oft koma fram ný útgjaldatilefni á árinu auk þess sem það er fyrirhyggja að eiga borð fyrir báru þegar líða tekur á árið.

Okkur er öllum ljóst að þær náttúruhamfarir sem orðið hafa síðustu daga geta nokkuð gengið á það markmið sem sett var í fjárlagafrv. en atburðir gærdagsins gefa þó tilefni til að ætla að tjónið sé minna en leit út fyrir á verstu klukkutímum hlaupsins. Eftir er að gera nánari grein fyrir þeim kostnaði sem Skeiðarárhlaupið hefur valdið og hvernig skaðinn af því verður bættur. Greint verður frá þeirri stöðu eins nákvæmlega og fært er, jafnfljótt og kostur gefst til.

Herra forseti. Ég mun þá víkja að einstökum ákvæðum eða ráðstöfunum frv. eftir því sem ástæða er til, en vísa að öðru leyti til athugasemda með einstökum greinum frv. og umsagnar um áhrif þeirra á útgjöld ríkissjóðs sem birt er sem fskj. með frv. Greinum frv. er raðað eftir ráðuneytum í sömu röð og í fjárlagafrv. en ég mun hér haga greinargerð minni á þann hátt að fjalla í einu lagi um þau ákvæði sem eiga sér ákveðna efnislega samstöðu.

Ég vil þá fyrst fara nokkrum orðum um það sem kann að þykja markvert við þetta frv. á hinu háa Alþingi en felst þó ekki í efni þess heldur lengd en frv. er sýnu styttra en oft áður, aðeins 27 greinar í samanburði við 63 greinar í fyrra. Það stafar að stórum hluta til af því að í samnefndu frv. í fyrra var gerð gangskör að því að afnema þá tilhögun sem fest hafði rætur allt of víða í íslenskri löggjöf og fólst í að framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna voru bundin í lög ýmist með eða án sérstakra tekjustofna þannig að fjárveitingavald Alþingis var í óeðlilega miklum mæli í raun bundið fyrir fram þegar að fjárlagagerðinni kom. Ákvæði um lögmælt framlög er að vísu enn víða að finna og kunna að vera réttlætanleg, og í einhverjum tilvikum pólitískt æskileg, en þó aðeins innan ákveðinna marka. En það er rétt að menn hafi í huga að slík ákvæði grafa um leið undan því hagstjórnartæki sem stjórnarskráin fær Alþingi með fjárstjórnarvaldi fjárlaga, tæki sem á að vera hægt að beita til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap án þess að bjástra um leið við að skera niður lögmælt útgjöld og ná mörkuðum tekjustofnum að einhverju leyti í ríkissjóð með frumvörpum sem borið hafa sams konar heiti og það sem hér er mælt fyrir.

Þá er e.t.v. nærtækast, herra forseti, að byrja á þeim ákvæðum þar sem fram er haldið á þeirri braut sem mörkuð var í fyrra með afnámi þeirra lagaákvæða sem kölluð hafa verið ,,þrátt-fyrir``-ákvæði á síðari árum.

Í 5. gr. frv. er lagt til að kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í rekstri ræktunarstöðva fyrir búfé og í launum og ferðakostnaði héraðsráðunauta verði ákveðin í fjárlögum hverju sinni, en í gildandi lögum hefur hlutdeild ríkisins verið bundin við ákveðið hlutfall. Þau framlög sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. til að mæta þessum kostnaði nema svipuðu hlutfalli og framlögin hafa áður numið í reynd þannig að ekki horfir til kostnaðarbreytinga miðað við þá framkvæmd sem verið hefur í þessu efni.

Í 26. gr. er lagt til að kostnaðarþátttaka ríkissjóðs vegna refaveiða verði afnumin. Hún var takmörkuð við helming kostnaðar í fyrra en skaði af þeirra völdum er nú talinn svo hverfandi að óhætt þykir að afnema hana að fullu. Endurgreiðsluheimild helst hins vegar óbreytt að því er minkaveiðar varðar.

Samkvæmt 10. og 12. gr. frv. er leitað eftir heimildum til að verja hluta af tekjustofni Atvinnuleysistryggingasjóðs til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu og greiða fyrir þróunarverkefnum til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur sérstaklega eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Í fjárlagafrv. næsta árs er lagt til að 47 millj. kr. renni til starfsmenntunar en 20 millj. til þróunarverkefna. Áhrif til lækkunar á útgjöld ríkissjóðs nema því um 67 millj. kr. Þá er í 13. gr. frv. lagt til að framlengd verði heimild Atvinnuleysistryggingasjóðs til að styrkja átaksverkefni sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi á næsta ári. Aðrar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar felast í 2% hækkun hámarksbóta á dag samkvæmt 11. gr. frv. en fjárhæð þeirra ber samkvæmt lögunum að endurskoða við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Þessu næst skal, herra forseti, vikið að þeim lögbundnu tekjustofnum sem þrátt fyrir framansagt þykir rétt að halda í lögum en lagt er til að taki tímabundið skerðingu sem hér greinir.

Í 1. gr. er lagt til að tekjur af sérstökum eignarskatti sem verja á til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana renni að hluta í ríkissjóð, þ.e. um það bil þriðjungur á yfirstandandi ári og um það bil fjórðungur á því næsta.

Samkvæmt 21. gr. laga um ráðstöfun á ríkisfjármálum á árinu 1996, nr. 144/1995, greiðir Framkvæmdasjóður fatlaðra um það bil 140 millj. kr. til rekstrarverkefna á yfirstandandi ári. Í 8. gr. þess frv. sem hér er mælt fyrir er hins vegar lagt til að þessi tilhögun verði einfölduð á þann hátt að sjóðurinn standi ekki undir öðrum rekstrarverkefnum en þeim sem þar greinir að jafnvirði um 13 millj. kr. en annar rekstrarkostnaður greiðist úr ríkissjóð. Í staðinn er í 9. gr. lagt til að tekjur sjóðsins af erfðafjárskatti umfram 165 millj. kr., þ.e. 92 millj. kr., renni í ríkissjóð en kostnaður af þeim viðfangsefnum sem af sjóðunum eru létt er áætlaður um 130 millj. kr. í frv. til fjárlaga næsta árs.

Í 22. gr. frv. er lagt til að 856 millj. kr. af þungaskatti á sérstöku vörugjaldi á bensíni renni í ríkissjóð en ætlað er að þessi tekjustofn skili um 7,5 milljörðum í ríkissjóð á næsta ári.

Í 23. gr. er í fyrsta skipti lagt til að hluta tekna af flugvallargjaldi verði varið til framkvæmda við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með þeirri ráðstöfun er leitast við að styrkja fjárhagsgrundvöll flugstöðvarinnar en fjárhagsvandi stöðvarinnar hefur sem kunnugt er verið til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar um nokkra hríð. Hér er því lagt inn á þá braut sem einhverjum kann að þykja tímabær að flugstöðin njóti í einhverjum mæli þeirra tekna sem hún á stærstan þátt í að afla, en tekjum af flugvallargjaldi hlýtur að langmestu leyti að vera aflað af umferð um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Í frv. er að finna nokkur ákvæði um gjaldtöku fyrir þjónustu sem í té er látin, en gjaldtaka hefur áhrif á gjaldahlið fjárlaga með þeim hætti að fjárframlög úr ríkissjóði til rekstrar hlutaðeigandi stofnunar eru lækkuð sem nemur hækkun sértekna með gjaldtöku. Að hluta til er um nýbreytni að ræða en að öðru leyti er aðeins leitast við að renna styrkari stoðum undir fjárhæð gjalda sem þegar hafa verið ákveðin með lögum.

Ríkisstjórnin hefur sem kunnugt er farið sér hægt í að afla tekna með þjónustugjöldum en með álagningu þeirra vinnst einkum tvennt, annars vegar aukin kostnaðarvitund almennings og stjórnvalda og hins vegar betri stjórn á eftirspurn eftir þjónustunni.

Í 2. gr. er lagt til að innheimt verði sérstakt innritunargjald af þeim nemendum í framhaldsskólum sem af einhverjum ástæðum þurfa að þreyta próf sín eða áfanga að nýju. Áherslu ber að leggja á að þessu nýja gjaldi, sem þó getur ekki talist hátt, er ætlað að stuðla að markvissari innritun og auðvelda skipulagningu í kennslu í framhaldsskólum, en hlutfall nemenda sem hverfa frá námi eða endurtaka próf þykir bæði hafa verið óeðlilega hátt og aukið óhóflega á kostnað skólanna af þessum þáttum skólastarfsins.

Í 25. gr. er annað dæmi um nýbreytni í gjaldtöku sem ætlað er að hafa ákveðin varnaðaráhrif. Þar er lagt til að sá sem ekki vill una ákvörðun Samkeppnisstofnunar, eða eftir atvikum samkeppnisráðs, greiði fyrir málskot til áfrýjunarnefndar samkeppnismála reiknað meðaltal af þeim kostnaði sem hlýst af meðferð kærumála fyrir nefndinni, um 120 þús. kr. Gjaldtökunni er þannig ætlað að sporna við kostnaðarsamri meðferð veigaminni mála fyrir nefndinni án þess að setja kæruheimild málsaðila efnislegar skorður svo sem gilda um áfrýjun dómsmála. Eðlilegt kann þó að vera án þess að dregið sé úr varnaðaráhrifum gjaldtökunnar að áfrýjunarnefndinni verði fengnar heimildir til að mæla fyrir endurgreiðslu gjaldsins, að hluta eða í heild, í samræmi við úrlausn máls. Beini ég þessu sérstaklega til hv. efh.- og viðskn. að ástæða kunni að vera til að skoða það atriði nánar.

Í 6. og 7. gr. er loks leitað eftir að leidd verði í lög skýrari útfærsla af ákvörðun fjárhæðar sérstaks matsgjalds sem þegar er heimt af sláturleyfishöfum fyrir yfirmat á sláturafurðum, gærum og ull.

Í 14. gr. er leitað eftir 2% hækkun á gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra, en fjárhæð þess ber samkvæmt lögum um málefni aldraðra að endurskoða við afgreiðslu fjárlaga á hverju ári.

Í 21. gr. frv. er lagt til að heimild til að greiða eftirlaun þeirra sem fæddir eru árið 1914 eða fyrr og eiga engan eða lítinn lífeyrisrétt í lífeyrissjóði verði framlengd og gerð ótímabundin en hún mundi að óbreyttu falla niður hinn 1. janúar nk.

Breytingar á hlutverki Orkusjóðs samkvæmt 24. gr. frv. er ætlað að skila betri árangri í orkusparnaðarátaki sem áformað er að hleypa af stokkunum.

Að lokum vil ég víkja að þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á lögum um heilbrigðisþjónustu, en í þeim felast fyrstu áfangarnir í skipulagsbreytingum sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd á næstu tveimur til þremur árum og byggðar eru á sérstakri úttekt á rekstri nokkurra sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Hagræðing í þessum fyrsta áfanga felst m.a. í endurskoðun á hlutverki sjúkrastofnana, breytingu á verkaskiptingu þeirra og sameiningu stofnana og er ætlað að lækka útgjöld ríkissjóðs um 160 millj. kr. á næsta ári.

Í 15. gr. frv. er fest í sessi ákvæði um að heilsugæslustöð og sjúkrahús skuli reka sem eina stofnun undir einni stjórn þar sem aðstæður leyfa. Hér er fremur um að ræða breyttar áherslur en efnislega breytingu þannig að gildandi ákvæði mælir fyrir um hið sama sé þess kostur, svo tilvitnunar sé getið.

Í 16. gr. frv. er fellt niður ákvæði sem flutt er í 15. gr. laganna og sameinað nýrri útfærslu á heimild ráðherra í 17. gr. frv. til að breyta skiptingu í heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva, með reglugerð. Jafnframt er Sambandi ísl. sveitarfélaga tryggður umsagnarréttur um allar slíkar breytingar en samkvæmt gildandi lögum er ekki skylt að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórnir nema um hluta slíkra breytinga.

Þá er í 20. gr. aukið við sams konar reglugerðarheimild í 2. mgr. 24. gr. laganna um sjúkrahús, að ráðherra geti auk ákvæða um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu mælt fyrir um sameiningu sjúkrahúsa einnig að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, en því hefur ekki áður verið tryggður umsagnarréttur um slíkar breytingar. Loks miða breytingar á a-lið 18. gr. og 20. gr. frv. að því að tryggja betur en nú er að stefnt að stefna sitjandi ráðherra og ríkisstjórnar á hverjum tíma skili sér inn í stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrastofnana með því að stjórnarformennska verði í höndum sérstaks trúnaðarmanns ráðherra.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.