Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 14:41:38 (937)

1996-11-07 14:41:38# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[14:41]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að gera athugasemdir við nokkur atriði í 15., 18. og 19. gr. þessa frv. Í 15. gr. er kveðið á um að ef aðstæður leyfi skuli sjúkrahús og heilsugæslustöð rekin sem ein heild. Eins og kunnugt er hafa heilsugæslustöðvar verið reknar bæði af ríki og sveitarfélagi. Þegar lög um aðskilnað þessa reksturs voru samþykkt var það gert vegna þeirrar bitru reynslu að kostnaður sem falla átti á sveitarfélögin, einkum lyf og tækjanotkun, var auðveldlega fluttur yfir á ríkissjóð og létti þar með fjárhagsbyrði viðkomandi sveitarfélags. Svo framarlega sem ekki verði tryggilega gengið frá lausum endum í þessu sambandi er mér erfitt að sjá hvernig framkvæma eigi slíka sameiningu. Vil ég því vekja athygli á þessu og vara við öllu fljótræði í sameiningu heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.

Í öðru lagi vil ég nefna 18. gr. Þar er lagt til að bæði stjórnsýsla og stjórn heilsugæslustöðva í Reykjavík verði sameiginleg. Þetta þýðir að heilsugæsla verði öll á einni hendi, stjórn og framkvæmdastjórn, og geti þessir aðilar í einu lagi gert útboð fyrir allar heilsugæslustöðvar og valið að vild. Ég vil benda á að þetta þýðir algjöra miðstýringu á heilsugæslu í Reykjavík og þar með er stjórn heilsugæslu Reykjavíkur gefið vald til að gera samninga við ódýrustu sérfræðiþjónustu í Reykjavík, þess vegna, sem þarf þó langt í frá að vera hin besta og útiloka aðra sérfræðiþjónustu jafnvel á köflum með klíkuskap sem þekkist jafnt í heilbrigðisþjónustu sem í öðrum greinum. Ég er því alfarið á móti þeirri miðstýringaráráttu sem í þessari grein felst, enda er hún þvert gegn stefnu Sjálfstfl., og má því spyrja sig að því af hverju þetta stendur þarna. Er þarna um mistök að ræða eða með vilja gert vegna samstöðu þeirra umboðsmanna sem nú fara með völdin í Reykjavík og sem Framsfl., flokkur heilbrrh., tekur því miður þátt í? Þessi stefna eins og við þekkjum mun að sjálfsögðu hindra mjög mikið valfrelsi allra borgara.

Loks um 19. gr. Þar er kveðið á um að ráðherra geti með reglugerð, að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, sameinað sjúkrastofnanir. Þetta þýðir að Alþingi Íslendinga afsalar sér --- ég endurtek, afsalar sér hér með allri ábyrgð á rekstrarformi tveggja stærstu ríkisstofnana landsins, þ.e. Landspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur, ásamt því sem lítil sjúkrahús, sem rekin hafa verið á hagkvæman máta, t.d. St. Jósefsspítali í Hafnarfirði og önnur smá sjúkrahús á landinu, verða líka, reyndar með öðrum sjúkrahúsum í landinu, að langmestu leyti háð pólitískum duttlungum ráðherra og, næstu ár, vinstri meiri hluta Reykjavíkur.

Ég vil koma því á framfæri hér að þar til nýlega hafa sveitarfélög ekki borið hluta af rekstrarkostnaði heilsugæslustöðva en samt sem áður tel ég mjög mikilvægt að verði farið mjög varlega með þá sameining heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa sem ég nefndi áðan í sambandi við 18. gr. vegna þess að eðli reksturs heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa er allt, allt annað.

En með allri virðingu fyrir hæstv. heilbrrh. vil ég mótmæla þessum vinnubrögðum enda brýtur sameining Landspítala og Borgarspítala, ef svo kynni að fara að Samband ísl. sveitarfélaga og heilbrrh. yrðu sammála um slíkan gjörning, algjörlega í bága við þá stefnu sem Sjálfstfl. hefur haft á undanförnum árum og kemur þannig í veg fyrir það valfrelsi, sem við höfum talað fyrir, borgaranna, sjúklinganna og annarra sem að málum koma. Ég vil því vara við að greinin, þegar hún verður afgreidd endanlega héðan úr þinginu, hljóði á þennan máta og að Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítali verði aðskildir. Og ég vil gjarnan vekja athygli hv. þingmanna á því að í skýringum með 19. gr. er talað um að heilbrrh. ákveði með reglugerð nánari flokkun, starfssvið og verkaskiptingu sjúkrahúsa, að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga en það er hvergi minnst á sameiningu. Ég spyr hvers vegna.