Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:09:21 (941)

1996-11-07 15:09:21# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:09]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi umræðunnar fara þess á leit að kallað verði á hæstv. menntmrh. Hér er þvílíkt mál á ferð, sem varðar hans ráðuneyti, að óhjákvæmilegt er að fá hann til þessarar umræðu.

Það er mjög margt í frv. sem vert er að ræða og mismunandi stór mál. Ég vil byrja á að nefna 1. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að 150 millj. kr., sem eiga að renna til endurbóta á menningarbyggingum og menningarstofnunum, renni í ríkissjóð og ég spyr: Hvað um þá miklu þörf sem er á endurbótum? Ég veit ekki betur en boðað sé í fjárlagafrv. að t.d. eigi að hefja endurbætur á Stjórnarráðshúsinu. Eitthvað kostar það. Bessastaðir hafa kallað á miklar fjárveitingar og ég hefði haldið að ekki veitti af peningunum í þennan sjóð. Ég lýsi furðu minni á því hvernig menn höggva í þennan knérunn ár eftir ár og eru svo að sækja sér aukafjárveitingar annars staðar. Þetta vekur upp þá spurningu, hæstv. forseti: Hvað er að marka þá stefnumörkun að eyrnamerkja fé? Hvers vegna er ríkisvaldið eða við á hinu háa Alþingi að setja lög ár eftir ár þar sem markaðir eru ákveðnir tekjustofnar og síðan eru þeir skertir á hverju einasta ári, hver á fætur öðrum? Ég held að rétt væri að við hættum þessu og mundum ákveða á fjárlögum á hverju ári hversu miklum peningum skuli varið í einstaka málaflokka heldur en brjóta og afturkalla lögin með þessu móti sem gert er ár eftir ár. Þetta er þvílík vanvirðing við lagasetningu að ég held að við ættum að hætta þessu.

Þá kem ég að málinu sem snertir menntmrh. Hann er kominn hingað og ég þakka honum fyrir að mæta til umræðunnar en það er hinn svokallaði fallskattur, 1.500 kr. gjald sem á að leggja á nemendur í framhaldsskólum landsins ef þeir eru svo óheppnir að falla á prófi. Samkvæmt frv. er markmiðið með þessu að reyna að auka aðhald í skólunum, reyna að ýta undir að nemenedur standi sig og er auðvitað gott og gilt. En skólarnir hafa ýmsar aðrar leiðir til að auka aðhald en þá að láta nemendur borga fyrir að falla á prófum. Mér finnst þetta svo fráleitt og ég er í hjarta mínu svo hneyksluð á þessu að ég á ekki orð. Það á að skattleggja þá sem standa verst að vígi. Ég vil benda á að t.d. í Menntaskólanum í Hamrahlíð hefur verið unnið að því á undanförnum árum að byggja upp nám fyrir fatlaða nemendur. Eini skólinn sem hefur einbeitt sér að því að byggja upp nám fyrir fatlaða nemendur. Þeir nemendur standa margir hverjir þannig að vígi að þeir þurfa að taka marga áfanga tvisvar. Námið er einfaldlega þannig að þeir eiga erfitt með að ná því á þeim hraða sem boðið er upp á eða þeir ná ekki áföngunum og taka þá tvisvar. Er það virkilega meining hæstv. menntmrh. að fara að skattleggja fatlaða nemendur sérstaklega og þá sem eiga af öðrum orsökum erfitt um nám?

Gallinn í okkar framhaldsskólakerfi er sá að skólarnir bjóða ekki upp á nógu fjölbreytt nám. Hér er enn ein tilraunin til að þrengja þann farveg, gera nemendum erfiðara fyrir. Greint er á milli bekkjarskóla og áfangaskóla og ég fæ ekki betur skilið þessi áform en sem enn eitt dæmið um fjandskap þessarar ríkisstjórnar við áfangaskólana. Ég fæ ekki betur séð. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvaða greinarmun á að gera á áfangaskólanum og bekkjarskólanum? Þar eru mismunandi kerfi en það eru endurtekningarpróf í báðum þessum tegundum af skólum. Hvernig mun þetta bitna á nemendum? Það er ljóst að ákveðinn hópur nemenda mun lenda í því að borga þetta. Einhver hópur mun taka sig á og er það út af fyrir sig gott þó að ég endurtaki að skólarnir hafa aðrar leiðir til þess. En hvað um kennarana? Þeir semja prófin og eiga að standa frammi fyrir að vega og meta nemanda sem viðkomandi kennari veit að stendur illa að vígi bæði félagslega og í námi. Kennarinn þarf að vega og meta: Á hann að sleppa þessum nemanda í gegn eða ekki? Mér finnst þetta andstyggilegt, ég verð bara að segja það fullum fetum.

[15:15]

Hvað ef skólarnir ná ekki þessum tekjum? Það er verið að hækka sértekjur skólanna allnokkuð. Ég tek tvö dæmi af handahófi. Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum á að afla sér 2 millj. til viðbótar vegna þessa skatts, Menntaskólinn í Hamrahlíð rúmlega 5 millj. Hvað ef aðhaldið verður svona gífurlegt eins og menntmrh. vonast eftir að skólarnir ná ekki þessum sértekjum, nemendur einfaldlega falla ekki í jafnríkum mæli, skólarnir ná ekki þessum sértekjum? Þá er bara gat. Þá er gat þar sem vantar í reksturinn. Þó það þurfi kannski ekki eins mörg próf, þá verða alveg örugglega nemendur sem falla í stærðfræði og efnafræði og jafnvel sögu. Það er töluvert um það að nemendur falli í sögu og auðvitað öllum greinum, ensku, dönsku, frönsku, þýsku og hverju sem er. Það er einfaldlega þannig að nemendum gengur misjafnlega við sitt nám. Vandinn felst í því að það vantar aukna fjölbreytni, það vantar aukið starfsnám og verknám, eins og margoft hefur komið fram í máli hæstv. menntmrh. hefur bara ekkert bólað á fjárveitingum til að bæta og auka kennslu. Það er frekar að það sé verið að skera niður og fækka. Nei, skólarnir eiga að skattleggja nemendur sem falla og eiga í erfiðleikum um 32 millj. kr. Ég mótmæli þessu harðlega og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að draga þennan ósóma til baka.

Tíminn er skammur og ég ætla að víkja að öðru atriði sem snýr að hæstv. félmrh. sem er ekki hér mættur. Það er starfsmenntun í atvinnulífinu. Þar er enn ein hringavitleysan á ferð. Þar er verið að blanda saman allsendis óskyldum málum, verkefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs og starfsmenntun í atvinnulífinu sem hefur verið fjármögnuð og er styrkir til ýmiss konar fyrirtækja til að efla starfsmenntun, auka við hæfni starfsfólks og er menntun sem kemur atvinnuleysi ekkert við. Með einni hendinni er verið að taka verkefni af Atvinnuleysistryggingasjóði sem voru sett þar inn einhvern tíma fyrir langalöngu þegar atvinnuleysi var lítið, þ.e. kjararannsóknarnefnd og eftirlaun aldraðra sem voru greidd úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er verið að færa þetta núna út vegna þess að menn segja sem svo: Þetta á alls ekki heima þarna. En í staðinn á að setja inn starfsmenntun í atvinnulífinu sem kemur atvinnuleysi ekkert við eins og ég sagði áðan og hins vegar styrkjum til atvinnusköpunar kvenna sem er heldur ekki atvinnuleysismál. Þarna er verið að blanda saman ólíkum málum. Þetta er auðvitað spurning um menntastefnu og ekki vantar nú fögru orðin um framtíðina og það hvernig þurfi að búa sig undir upplýsingaþjóðfélagið, auka og bæta starfsmenntun. Nei, það er farið að blanda þessu inn í atvinnuleysismálin. En í raun felst breytingin í því að í stað þess að ríkið hafi veitt fjármagn til starfsmenntunar í atvinnulífinu, er verið að færa þetta yfir á atvinnulífið sjálft. Það á að borga vegna þess að það greiðir með hluta tryggingagjalds inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Mér finnst þetta því vera fráleitt mál og ég bendi á að bæði Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið leggjast alfarið gegn þessu vegna þess að þetta er fyrst og fremst spurning um menntastefnu. Og ég auglýsi enn og aftur: Hvar er menntastefna þessarar ríkisstjórnar? Hvar er hún stödd? (Gripið fram í: Hvar er menntmrh.?) Ég sé hann í hliðarsal þannig að hann heyrir hvað hér er til umræðu. Þetta tengist menntamálum. Þessi sérstaki liður heyrir að vísu undir félmrn. og hér var mikil rimma um það fyrir nokkrum árum undir hvaða ráðuneyti þetta ætti að falla. Hér er sem sagt um hið versta mál að ræða. Ég tek undir það með Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu og bæti því við að það kom fram á fundi í félmn. að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er lítt hrifin af því að fá þessi verkefni til sín. Menn fullyrtu að stjórn sjóðsins hefði engar forsendur til að veita styrki til endurmenntunar og uppbyggingar í atvinnulífinu. Þetta eru bara gjörólík og óskyld mál.

Ég vil vekja athygli á því að í frv. er gert ráð fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki um 2%. Ég spyr nú hvað er hér á ferð? Ég man ekki betur en það sé almennt í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að laun hækki um 3--3,5%, 3,7% hefur maður séð einhvers staðar í tölum. Af hverju er ekki samræmi í þessu? Af hverju er ekki reiknað með því að atvinnuleysisbætur hækki til samræmis við annað? Er nú komið hér enn eitt dæmið um vanáætlanir af hálfu ríkissjóðs og hálfu ríkisstjórnarinnar? Og svo á að koma í aukafjárlögum og ná í það sem á vantar vegna þess að það getur ekki verið ætlunin að hækka atvinnuleysisbætur minna en annað. Það getur ekki verið meiningin. Ég trúi því ekki.

Þá kem ég að stóra málinu, hæstv. heilbrrh. Nú vil ég ítreka það í upphafi að ég er sammála hæstv. heilbrrh. hvað það varðar að uppstokkun þarf að eiga sér stað, bæði í heilsugæslu og við sjúkrahús úti á landi og það að skoða samvinnu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að nefndir séu starfandi á vegum heilbrrn. Ég sit í einni sem er að fjalla um forgangsröðun. Önnur nefnd er að fjalla um skipulag heilbrigðismála og það er verið að vinna að ýmsu á vegum ráðuneytisins. Hvað á það þá að þýða að stökkva hér fram fyrir og fara fram á það í þessum lagagreinum að hæstv. heilbrrh. fái nánast alræðisvald í þessum málum? Út frá sjónarmiði löggjafans og því að hér á Alþingi er rædd stefnumörkun, þá finnst mér þetta algerlega forkastanlegt og ég mótmæli þessu harðlega. Ég mótmæli því harðlega að heilbrrh. fái bara upp úr þurru heimildir til þess að sameina og sundra, fækka stjórnum og ég veit ekki hvað og hvað, upp á sitt einsdæmi. Af hverju í ósköpunum kemur hæstv. heilbrrh. ekki með frumvörp um þessi mál þannig að við getum farið rækilega í gegnum þetta og markað stefnu? Ég get alveg skilið það og veit að auðvitað er mikil tregða við að taka á þessum málum. Það vill enginn missa neitt af sínu. Það er algerlega ljóst. Menn gleyma því að við erum ekki nema 270 þúsund manns í þessu landi og við getum ekki haft yfir okkur endalausa og útþanda yfirbyggingu. Við þurfum, ekki síst vegna framtíðarinnar og þess mikla kostnaðar sem er fram undan í heilbrigðismálum, að skipuleggja okkar heilbrigðismál á eins hagkvæman hátt og við mögulega getum. En við eigum að ræða það. Við eigum að fara hina eðlilegu leið og marka stefnu á hinu háa Alþingi, ekki að veita hæstv. heilbrrh. það mikla vald sem hér er gert ráð fyrir. Þetta fór út úr þessu frv. í fyrra og hvers vegna í ósköpunum hefur tíminn ekki verið notaður, hæstv. forseti. Hvers vegna hefur tíminn ekki verið notaður til að marka stefnu og reyna að koma þessum málum í frumvarpsform ef það er vilji hæstv. heilbrrh. að gera breytingar í þessa veru þannig að málin fái eðlilega umræðu og eðlilega umfjöllun?

Ég hef ekki skoðað afleiðingar 18. gr. --- þetta kom mér svo á óvart þegar ég las þetta. Ég held að það hafi bara verið í gær --- með það að setja eina stjórn yfir allar heilsugæslustöðvarnar í Reykjavíkurhéraði. Ég get tekið undir það að þarna er um ákveðna miðstýringu að ræða og við erum að tala um mjög stórt heilsugæslusvæði. Ég skil það þannig að meiningin sé sú að ná fram sparnaði með því að fækka stjórnendum. En ég held að þetta sé mál sem við þurfum að skoða mjög rækilega.

Herra forseti. Ég vil fá að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort þetta hafi verið sett fram í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur, sem auðvitað á að gæta hagsmuna okkar Reykvíkinga eins og við þingmenn Reykjavíkur. Ég áskil mér allan rétt til þess að skoða rækilega hvað þetta þýðir. Svo að ég snúi aftur að 15. gr. þar sem verið er að tala um að þar sem aðstæður leyfa skuli heilsugæslustöð og sjúkrahús rekið sem ein stofnun undir einni stjórn. Ég spyr: Er hér fyrst og fremst verið að hugsa um landsbyggðina eða nær þetta t.d. til heilsugæslustöðvarinnar í Fossvogi sem er inni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, inni á Borgarspítalanum? Hver er eiginlega meiningin? Ég tek undir það að þarna er um ólíka starfsemi að ræða, en auðvitað er hægt að hafa mjög nána samvinnu og að nýta sér t.d. rannsóknir á sjúkrahúsinu þannig að ég er ekkert frá því að þetta sé mjög eðlilegt fyrirkomulag, en það þarf bara að ræða það og kanna.

Tími minn er mjög að styttast, herra forseti. En að mínum dómi er kaflinn sem snýr að heilbrigðismálunum algert stórmál og ég harma að hæstv. heilbrrh. skuli ekki hafa komið með sérstök frv. og leitað sér stuðnings með eðlilegum hætti í því að endurskipuleggja og breyta heilbrigðiskerfinu sem ég segi enn og aftur að mikil þörf er á.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, svo að ég víki að örfáum þáttum til viðbótar, enn einu sinni að taka stóran hluta af vegafé inn í ríkissjóð. En ég spyr: Hvaða áhrif munu náttúruhamfarirnar á Skeiðarársandi hafa á þau áform? Það er alveg augljóst að óvæntur og mikill kostnaður mun bætast við hjá Vegagerðinni. En þarna er auðvitað þetta sama sem ég nefndi í upphafi. Þarna eru eyrnamerktir peningar sem eiga að renna til ákveðins málaflokks sem síðan er verið að klípa endalaust af og það meira að segja stórfé, 856 millj. í þessu tilviki sem er töluvert meira en gert var á síðasta ári.

Rétt undir lokin varðandi gjaldið sem þeir þurfa að greiða sem telja sig verða fyrir órétti vegna dóma eða hvað á ég að segja, úrskurða Samkeppnisstofnunar. Þeir eiga að borga 120 þús. kr. fyrir að leita réttar síns. Mér þætti nú gaman að vita það hvort þetta stenst mannréttindasáttmála. Fólk sem fær á sig nánast dóm, leitar réttar síns og er gert að greiða gjald fyrir þá ákvörðun að sætta sig ekki við dóminn. Hugsanlega verður niðurstaðan sú að þeir hafi verið órétti beittir, að niðurstaða Samkeppnisstofnunar hafi ekki verið rétt. Mér finnst þetta alveg furðulegt ákvæði og þetta stríðir alveg gjörsamlega gegn minni réttlætiskennd. Það verður að kanna í hv. efh.- og viðskn. hvort þetta hreinlega stenst lög og sáttmála sem við erum aðilar að um réttarvernd og rétt einstaklinganna til að ná fram réttlæti. Ég mótmæli líka þessu ákvæði. Mér finnst þetta alveg fráleitt.

Að lokum vil ég vera á allt annarri skoðun en síðasti ræðumaður hvað varðar eyðingu refa. Ég hef lengi verið ákaflega hrifin af íslenska refnum og finnst að hann eigi sinn rétt hér á landi eins og við og hef oft verið harmi slegin yfir þeim ofsóknum sem íslenski refurinn sætir. Ég held að oft hafi verið gert allt of mikið úr því tjóni sem hann veldur og hef stundum verið að velta því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort menn hafi ekki verið að rugla saman úlfum og refum þegar þeir komu frá Noregi og gert helst til mikið úr hættunni af refnum. En sá stuðningur sem ríkið hefur veitt sveitarfélögunum við eyðingu refa og minka hefur verið skorinn niður ár eftir ár. Það þarf að halda áfram að vinna á minknum en mér þykir ákaflega vænt um refinn og vil vernda hann.