Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:00:48 (949)

1996-11-07 16:00:48# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:00]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ýmis ákvæði í þessu frv. eða nokkur þeirra eru tímabundin og kunnugleg en önnur sem verið er að leggja til eru öllu alvarlegri vegna þess að hér er verið að leggja grunn að bæði stefnubreytingu og meiri háttar skipulagsbreytingum til frambúðar.

Þau mál sem ég vildi gjarnan ræða snúa að heilbrrh. sem ég fagna hér við þessa umræðu og einnig félmrh. sem ég geri minna með að sé við umræðuna vegna þess að ég hef reynslu af því núna við fjárlagaumræðuna, af því ég var þá að ræða þau mál sem eru í þessum bandormi, starfsmenntunarmálin og málefni fatlaðra, að hæstv. ráðherra ber bara hausnum við steininn og segir að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Það er því algerlega tilgangslaust að ræða við hæstv. félmrh. Og jafnvel þó að það standi í þessum bandormi sem við erum að fjalla um frá hæstv. forsrh. að verið sé að skera niður Framkvæmdasjóð fatlaðra um 268 millj. þá segir hæstv. félmrh.: ,,Nei, nei. Það er ekki verið að skera neitt niður. Það er verið að auka í málaflokknum um 190 millj.`` Þannig að mér finnst nú, virðulegi forseti, alveg tilgangslaust að ræða við félmrh. og legg ekki nokkra áherslu á að hann sé við þessa umræðu.

(Forseti (ÓE): Nú, þá vitum við það.)

Ég hefði frekar viljað hafa hæstv. forsrh. við þessa umræðu vegna þess að hann hafði, a.m.k. meðan ég var félmrh., mikinn skilning á málefnum fatlaðra og ég trúi því ekki að hæstv. heilbrrh. hafi svo heilaþvegið hæstv. forsrh. að forsrh. hafi ekki eitthvað möglað þegar hann þurfti að fara að mæla fyrir bandormi þar sem var niðurskurður upp á 268 millj. í þann málaflokk sem hann stóð ágætlega við hlið mér í að verja á sínum tíma. Ég vildi því gjarnan hafa hæstv. forsrh. viðstaddan umræðuna.

(Forseti (ÓE): Hæstv. forsrh. er í húsinu og forseti gerir ráðstafanir til að hann komi í salinn.)

Það hefur verið farið ítarlega yfir nokkrar greinar frv. þannig að ég get nú stytt mál mitt. Ég nefni t.d. greinina um framhaldsskóla þar sem verið er að skattleggja sérstaklega námserfiðleika ungmenna. Yfir það hefur verið farið ítarlega hér og ekki síst af hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, þannig að ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í það. Ég lýsi því bara yfir að mér finnst forkastanleg vinnubrögð á ferðinni varðandi þennan þátt mála.

Varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu, sem ég ætla að taka fyrir meðan ég bíð eftir forsrh., þá hefur hana nokkuð borið á góma hér. Það sem þar er verið að gera og reyndar einnig í atvinnumálum kvenna, eru grundvallarbreytingar, virðulegi forseti, frá því sem við höfum þekkt áður í fjárlögum. Það er alveg rétt sem hér hefur verið haldið fram að verið er að fella þessa mikilvægu þætti, starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna, undir eitthvað sem væri hægt að kalla félagsleg úrræði þar sem nú á að fara að fjármagna þetta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það sýnir áherslu þessarar ríkisstjórnar á forgagsröðun að hún skuli setja þessa tvo mikilvægu málaflokka undir þennan hatt og um leið að steypa þessum málaflokkum fjárhagslega í algera óvissu vegna þess að áður voru þó bundnar í fjárlögum fjárhæðir sem renna áttu annars vegar til atvinnumála kvenna og hins vegar til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Nú er þessu bara vísað á Atvinnuleysistryggingasjóð og óvissan er alger. Enginn veit þegar við afgreiðum þessi fjárlög hvort starfsmenntun í atvinnulífinu fær 5 millj. á næsta ári úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða 50--60 millj. eins og hefur verið áður. Það er ekki að undra að verkalýðshreyfingin gagnrýni meðferðina á þessu mikilvæga máli. Starfsmenntun í atvinnulífinu er auðvitað mjög mikilvægur þáttur í menntakerfi okkar og á að meðhöndlast sem slíkur í kerfinu. Það er ekki síst mikilvægt varðandi tæknivæðingu og öra þróun í atvinnulífinu að vel sé búið að starfsmenntamálum. Ég er sannfærð um að hver einasta króna sem við látum til starfsmenntamála mun margfalt skila sér aftur inn í þjóðarbúið og inn í atvinnulífið. En hér er þessu bara stefnt út í algera óvissu. Ef stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs á einhvern afgang, þá má það gjarnan fara í starfsmenntamál.

Sama gildir um atvinnumál kvenna. Það hafa ekki miklir peningar runnið til þess málaflokks og það tók töluverðan tíma á árum áður að fá þetta viðurkennt inn í fjárlögin. Nú er þessu kippt út og sett inn í Atvinnuleysistryggingasjóð, þar í algerlega óvissu. Ég tel þetta óviðunandi og bið nú hæstv. forsrh. lengstra orða að skoða hvort það sé eðlilegt að afgreiða þessa tvo mikilvægu málaflokka, starfsmennun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna, raunverulega sem félagsleg úrræði en að þau skipi ekki þann sess í fjárlögum, í menntakerfinu og í atvinnumálum sem þau ættu að gera.

Í raun og veru gefur það tilefni til að fara yfir Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem verið er að setja þessi mikilvægu verkefni á þennan sjóð. Það er gert ráð fyrir töluvert mikilli skerðingu milli ára á framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Spáð er að atvinnuleysi verði 0,2% minna og af því leiðir að hægt er að lækka framlagið um 130 millj. milli ára. Síðan kemur fram í fjárlögum að 128 millj. kr. eigi að fást með hertum úthlutunarreglum sem enginn veit enn hvað þýðir, þ.e. hvort verið sé að skerða bætur hjá atvinnulausum. Þar að auki á að bæta við starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumálum kvenna sem hefur haft upp undir 70 millj. á fjárlögum þannig að það er raunniðurskurður, fyrir utan minna atvinnuleysi, upp á 200 millj. í þennan sjóð. Það skyldi því engan undra þó að ég viðhafi þau orð að verið sé að setja þessa málaflokka út í algera óvissu með því að ætla Atvinnuleysistryggingasjóði, sem hefur nóg með sitt, að fjármagna einnig þessa þætti. Og ég spái því að verkalýðshreyfingin muni ekki láta því ómótmælt að á þessum málum verði tekið.

Allir sem þekkja til vita að þau framlög sem hafa farið til atvinnumála kvenna hafa skilað sér aftur, hafa skilað miklum árangri, þar sem konur hafa um allt land haft frumkvæði á ýmsum sviðum varðandi nýjungar og nýsköpun í atvinnulífinu gegnum þetta litla fjármagn. Og það hefur verið mér mjög lærdómsríkt að fylgjast með hvernig konurnar hafa nýtt þetta framlag vegna þess að úr mjög litlum peningum, það var ekki mikið sem þær fengu, gerðu þær mjög stóra hluti. Ég vil því mótmæla þessu.

Varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra, þá þakka ég hæstv. forsrh. fyrir að vera við þá umræðu. Ég lét þau orð falla áðan að hæstv. forsrh. hafði, meðan ég sat í hans ríkisstjórn sem félmrh., ávallt haft mikinn skilning á þeim málum þegar var verið að reyna að gera tilraunir til að skerða þann málaflokk. Þess vegna undraði mig, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra skyldi láta hafa sig í að þurfa að tala fyrir því að leggja hér nánast í rúst, leggja grunn að því að eyðileggja Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég veit að hæstv. félmrh. hefur engan skilning á þessu og þess vegna leita ég nú til hæstv. forsrh. og spyr hvort hann telji nú ekki tilefni til að endurskoða þá tillögu sem hér liggur fyrir.

Hæstv. forsrh. minnist þess sjálfsagt að þegar ákveðið var að Framkvæmdasjóður fatlaðra fjármagnaði að hluta til rekstrarkostnað á stofnunum fatlaðra, var það áskilið og samþykkt --- og ég man ekki betur en forsrh. hafi barist mér við hlið í því --- að sjóðurinn hefði óskertar tekjur af erfðafjárskatti sem hann lögum samkvæmt á að hafa, lögum samkvæmt. Nú er verið að kippa grundvellinum undan þessum sjóði með því að taka um 260--270 millj. af erfðafjárskatti sem lögum samkvæmt á að renna í framkvæmdir í þágu fatlaðra, beint inn í ríkissjóð. Ég spái því a.m.k. meðan þessi ríkisstjórn situr, að það verði til frambúðar.

Því er haldið fram, ég man ekki hvort það var í fjárlagafrv. eða greinargerð með frv. sem hér er til umræðu, að engu að síður hafi sjóðurinn óbreytt framlög til framkvæmda eins og hann hefur á yfirstandandi ári, að hann hafi óbreytt framlög á næsta ári eins og hann hafði á þessu ári og er talað um 165 millj. Þetta er bara ekki rétt með farið. Ég get vitnað í formann Þroskahjálpar sem segir það sem satt og rétt er í þessu, að sjóðurinn hafði til þessara sömu verkefna á þessu ári til framkvæmda um 300 millj. en hefur eingöngu 165 millj. núna. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið hafa mjög mótmælt þessu og vita sem er að þarna er verið að fara inn á mjög hættulegar brautir varðandi framtíðaruppbyggingu í málefnum fatlaðra. Og maður spyr: Getur það verið að orsök þess að farið er út á þessa braut sé að verið er að undirbúa jarðveginn fyrir flutning á þessum málaflokki yfir til sveitarfélaganna, að það sé verið að skera þennan sjóð niður við trog þannig að þegar þessi málaflokkur flytjist yfir til sveitarfélaga, sem mér skilst að séu áform um, þurfi að finna fjármagn til þeirra? Maður veltir því fyrir sér vegna þess að hér er um svo stórfelldan niðurskurð að ræða. Og það er alveg ljóst að miðað við þessa stöðu núna munum við sjá biðlistana sem þó eru langir fyrir lengjast mjög ört á næstu mánuðum og missirum ef þetta á að ganga fram.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. um það sem fram kemur í 11. gr. frv. um að atvinnuleysisbætur eigi að hækka um 2%. Nú man ég ekki betur en það hafi yfirleitt verið að atvinnuleysisbætur hafi fylgt launaþróun í landinu. Er rétt að negla það niður í lögum að atvinnuleysisbætur eigi bara að hækka um 2%? Við skulum segja að launahækkanir yrðu eitthvað meiri. Það er a.m.k. gert ráð fyrir í fjárlögum að laun hækki um 3,5% á næsta ári. Er þá rétt að atvinnuleysisbæturnar eigi að hækka minna en nemur almennri launaþróun í landinu? Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. forsrh. mundi svara því vegna þess að ég hef ekki trú á því að hæstv. forsrh. hafi í huga að skerða bætur hjá atvinnulausum þannig að þeir fylgi ekki þeirri launaþróun sem verður.

Sama virðist vera varðandi gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Nú veit ég að sjálfstæðismenn vilja helst ekki kalla það sem heitir þjónustugjald eða gjaldtaka í einni eða annarri mynd, skattahækkun. En auðvitað er um að ræða skattahækkun þegar gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem er tekið í gegnum skattana á að hækka um 2%.

[16:15]

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að snúa mér að stærsta málinu í þessum bandormi sem snýr að hæstv. heilbrrh. og vil nú reyndar í upphafi míns máls nefna að það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. forseti þingsins hefur lesið þau ákvæði sem þinginu er boðið upp á í þessum bandormi. Þá er ég aðallega að tala, virðulegi forseti, um 15., 17. og 19. gr. frv. Ég velti fyrir mér hvort það sé yfirleitt þingtækt að bjóða þingmönnum upp á það sem hér er gert. Ég hef oft gagnrýnt það hér að það sé og hafi verið á undanförnum missirum mikið framsal á valdi frá þinginu til framkvæmdarvaldsins. En ég minnist þess ekki að hafa séð annað eins og hér kemur fram. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé verið að endurvekja af hálfu hæstv. heilbrrh., að vísu í öðrum búningi, frv. sem við ræddum á vordögum sem hæstv. ráðherra vildi hraða í gegnum þingið á einum eða tveimur sólarhringum sem var frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem ráðherra fór fram á að þingið mundi fela henni mjög mikið vald að því er varðar ýmsa þætti í sjúkrahúsrekstrinum, flokkun, starfssvið, þróun, fjárfestingaráætlanir og fleira sem þar var nefnt. Þar var þó verið að tala um Reykjavík og Reykjanes. En mér sýnist að ráðherrann sé að reyna að koma þeim ákvæðum sem eiga nú að ná til alls landsins núna inn í bandorm mun víðtækar en þó var gert á vordögum í þessu frv. --- það náði til Reykjavíkur og Reykjaness. Þarna er ráðherrann að biðja um að Alþingi framselji það vald sitt til hennar að ráðherrann geti bara sisvona breytt skiptingu á heilsugæsluumdæmum, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæða þeirra með reglugerð. Og að ráðherra geti með reglugerð ákveðið flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu. Og að ráðherrann geti með reglugerð jafnframt ákveðið sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu.

Það er furðulegt að hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, skuli bjóða þinginu upp á þetta. Að biðja þingið raunverulega um heimild til þess að fara út í algjöra skipulagsbreytingu á heilbrigðismálum í landinu án þess að þinginu komi nokkuð við hvað ráðherrann ætlar að gera. Aldrei man ég eftir að hafa verið svona frökk í stól ráðherra að ég hafið farið fram á það við þingið að ég fengi allsherjarvald. (ÖS: Þú varst þó frek oft og tíðum.) Ég var þó frek oft og tíðum. Fengið allsherjarvald til að umbreyta heilbrigðisþjónustunni og skipan heilbrigðismálanna. Ekki með frv., heldur í þremur línum í bandormi.

Hvernig á að taka á þessum málum, hæstv. ráðherra? Það á auðvitað að gera með því að fyrst á að ræða stefnumörkun í heilbrigðismálum. Við í þingflokki jafnaðarmanna höfum lagt fram ítarlega þáltill. um nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum. Fyrst á að ræða stefnumörkun í heilbrigðismálum, hvert framkvæmdarvaldið óskar að fara í þeim efnum, það á að ræða það á Alþingi og framkvæmdarvaldið á að hlusta á vilja löggjafans og síðan á að koma með frv. og frv. með skýringu og greinargerðum. Hér segir ráðherrann að hann vilji allt þetta vald og það þýði 160 millj. kr. í sparnað. Það er ekki einu sinni sagt, virðulegi forseti, í greinargerðinni hvar á að ná þessum 160 millj. Nú spyr ég ráðherrann og óska eftir því að fá svör við því vegna þess að þessar 160 millj. eru varla teknar úr loftinu. Hvað er að baki þessum 160 millj. kr.? Hér var talað um að verið væri að biðja um heimildir til að leggja niður starfsemi sjúkrahúsa út á landi. Er það það, hæstv. ráðherra? Það er ekki boðlegt þinginu að afgreiða málin með þessum hætti, að óska eftir þessari heimild og setja ekki stafkrók um það inn í frv. hvar á að ná þessum 160 millj.

Virðulegi forseti. Ég held að forsn. þurfi að skoða það sérstaklega hvort þessar þrjár greinar frv. séu yfirleitt þingtækar. Ég óska eftir að forsn. skoði það sérstaklega hvort þinginu sé bjóðandi upp á þessi vinnubrögð.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Mér skildist áðan að ráðherra væri að biðja um þetta þannig að hún gæti verið í viðræðum við hina og þessa aðila, þess vegna þyrfti hún lagastoð. Ráðherrann þarf enga lagastoð til að vera í viðræðum við aðila. Ef einhver niðurstaða næst þá kemur hún auðvitað með það inn í þingið í þeim búningi sem það er þá útfært fyrir þingið.

Ég spyr ráðherrann líka að því af því að við erum að ræða hér heilbrigðismál, þetta er ein af stærstu breytingunum sem er verið að biðja um í þessum bandormi sem snýr að heilbrigðismálunum, það hefur verið í umræðunum og komið fram hjá formanni stjórnar Ríkisspítalanna að það eigi að stytta biðlistana við bæklunaraðgerðir. Ég fagnaði því mjög þegar ég heyrði þetta. En það stefnir þegar í 160 millj. kr. halla. Ég spyr ráðherrann að því og óska svara hvort hann styður þau áform formanns Ríkisspítalanna að stytta langan biðlista. Hann er að mig minnir um 50. Mun ráðherrann sjá til þess að útvegað verði fjármagn til að hægt sé að stytta þennan biðlista? Hefur formaður Ríkisspítalanna stuðning ráðherrans í þessu efni? Ég óska eindregið eftir því að ráðherrann svari þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans. Ekki í stuttu andsvari, þetta er stærra mál en svo.