Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:50:26 (964)

1996-11-07 16:50:26# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ótrúlegt að eiga orðastað við hv. 13. þm. Reykv. Hún kvartar undan því að ég hafi farið með talnaflóð. Ég fór bara með þær tölur sem í fjárlögunum standa og hafa staðið. Þær sýna aumingjaskap hennar í ráðherradómi. Hún skyldi eftir 108 milljónir sem hún gat tekið til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á árinu 1990 og 1991. Ég rakti söguna bara nákvæmlega upp úr fjárlögunum. Ég er ekki litblindur og ég veit alveg hvað er hvítt og hvað er svart og þarf ekki neitt að efast um það. Hún vitnaði til greinar eftir formann Landssamtakanna Þroskahjálpar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun en formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar segir ekki alla söguna. Þar af leiðir að sú mynd sem hann dregur upp er ekki rétt. Hún er ekki rétt. Ég veit ekki hvort formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar ætlar að fara að reka Þroskahjálp sem stjórnmálaflokk í stjórnarandstöðu eða hvað. (Gripið fram í.) En þessi málflutningur hans og hv. 13. þm. Reykv. er ekki sæmandi.