Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:52:04 (965)

1996-11-07 16:52:04# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess oft að þegar ég var ráðherra fékk ég stundum hól frá stjórnarandstöðunni. Það var nú ekki oft en það kom fyrir. Og það var fyrir hvernig mér hefði alltaf tekist að verja málaflokkinn fatlaðir gegnum allan niðurskurðinn og þrengingarnar á þessum sjö árum sem ég var ráðherra. Og ég býst við að það séu ekki margir, hvorki í fatlaða geiranum eða þeir sem hafa kynnt sér þessi mál, sem geta tekið undir það sem ráðherrann --- honum verður alltaf órótt þegar verið er að ræða þennan málaflokk --- kallar aumingjadóm minn í þessum málaflokki þegar ég var félmrh. Ég gæti farið með tölur um þá raunaukningu sem varð í málaflokkinum, um hve mikið reis af sambýlum sem ég held að hafi verið 40 af 50 sem til eru á landinu, þau ár sem ég var ráðherra. Félagslegar íbúðir í þágu fatlaðra voru teknar upp, liðveislan o.s.frv., o.s.fv. Þannig að þau orð dæma sig auðvitað sjálf að kalla það að ég hafi sýnt einhvern aumingjadóm í því að byggja upp þennan málaflokk meðan ég var ráðherra. Þau sýna bara hvað ráðherranum er órótt út af því hvernig hann hefur sjálfur staðið sig sem ráðherra þessa málaflokks.