Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:55:03 (967)

1996-11-07 16:55:03# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur tosað þessari umræðu upp á svo hátt málefnalegt plan að það er með hálfum huga að ég leyfi mér að taka þátt í þessari umræðu. Ég ætla þó ekki að vísa máli mínu til hans enda sýnist mér hann vera orðinn svo þrútinn af lamstri veðra eftir þessi síðustu orðaskipti að það er rétt að hann fái að hvílast um nokkra stund.

Það er jafnan svo, herra forseti, að þegar líður á haustið, kemur ríkisstjórn hverju sinni í þingið með þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hún telur nauðsynlegt að koma fram til að ná þeim markmiðum sem hún hefur sett sér með fjárlagafrumvarpinu. Þetta er í hæsta máta eðlilegt og það er rökrétt að menn neyti þeirra ráða sem hægt er að grípa til til að ná fram þessum markmiðum. Jafnan hefur það verið svo að menn hafa reynt að hafa þær breytingar sem lagðar eru til einungis tímabundnar þannig að verið sé að grípa til ráða vegna einhverra sérstakra aðstæðna sem hafa skapast í ríkisfjármálum. Það er með öðrum orðum yfirleitt venjan að menn reyna að forðast varanlegar breytingar. Ég viðurkenni það hins vegar að bæði síðasta ríkisstjórn og sennilega ríkisstjórnir þar á undan hafa í æ ríkari mæli fetað þá slóð að koma í slíku frv. fram með breytingar sem eru að kalla má varanlegar breytingar. Ég sé á þessu frv. sem hér liggur fyrir að gert er ráð fyrir því að 17 lagabálkum verði breytt. Þar af sýnist mér að einungis sé um að ræða fjórar tímabundnar breytingar, að það sé verið að breyta 13 lögum varanlega. Ég tel að það sé ansi hátt hlutfall sem fellur undir þann flokkinn. Ég vil líka segja það, herra forseti, að margar þessar breytingar koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við og koma ríkisfjármálum bókstaflega ekkert við. Ég vek til að mynda athygli á þeim lagabálki sem hæstv. heilbrrh. hefur bersýnilega óskað eftir að fái hér að fljóta með. Þar eru sumar greinar sem lagt er til að sé breytt og snerta ríkisfjármálin með engu móti.

En, herra forseti, ég ætla í frekar stuttu máli, vona ég, að gera grein fyrir þeim skoðunum sem ég hef á einmitt þeim kafla sem lýtur að heilbrigðismálunum. Áður vil ég þó drepa á þrjú önnur atriði sem ég tel nauðsynlegt að ræða lítillega. Í fyrsta skipti gerist það að refirnir eru skornir í fjárlagafrumvarpinu, í þetta skipti út úr frv. þannig að hið forna hugtak hefur fengið nýja merkingu. Ég vil hins vegar lýsa því yfir, sökum þeirrar umræðu sem hefur farið fram um 26. gr., þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður hætti að taka þátt í kostnaði vegna refaveiða, að ég er þessu fullkomlega sammála. Ég minni á að hér fetar hæstv. forsrh. gamla slóð. Hann markaði sín spor í þingsöguna fyrir nokkrum árum þegar verið var að greiða atkvæði um lög til verndar villtum dýrum. Þá var það svo að þegar hv. þm., Hjörleifur Guttormsson, lagði til að refurinn yrði alfriðaður, gerðist það sögulega atvik að hæstv. forsrh. tók afstöðu með refnum í baráttunni gegn sauðkindinni og tók undir tillögu hv. þm., Hjörleifs Guttormssonar. Það tókst ekki þá þrátt fyrir að þáv. umhvrh. styddi þá félaga í þessari viðleitni sinni við að friða villidýrin. En nú hins vegar kemur þetta fram í nýjum búningi og ég er hlynntur þessu. Ég tel þetta mjög til bóta. Ég er ánægður með að menn skuli hætta að elta refinn til þess að murka úr honum líftóruna og þetta er í anda þeirrar stefnu sem var mörkuð með flutningi veiðistjóraembættis til Akureyrar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar var lögð áhersla á að gerð yrði breyting á stefnu þess embættis og þess yrði freistað að einhenda atgervi embættisins til að útrýma öðrum og miklu verri vargi sem er minkurinn. Ég tek því undir þessa breytingu þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ýmsir félagar mínir í þingflokki jafnaðarmanna séu annarrar skoðunar eins og ég hygg að hafi raunar komið fram fyrr í dag.

Ég vil, herra forseti, geta þess sérstaklega að ég er afar óánægður með 25. gr. Þar er gert ráð fyrir því að nú verði tekinn upp sérstakur áfrýjunarskattur þegar menn ætla að reyna að ná rétti sem þeir telja sjálfsagðan gagnvart samkeppnislögunum. Það er gert ráð fyrir því að þeir sem vilja áfrýja niðurstöðu Samkeppnisstofnunar til sérstakrar áfrýjunarnefndar þurfi núna að greiða 120 þús. kr. áfrýjunargjald. Það er beinlínis tekið fram í greinargerð með frv. að það sé gert til þess að draga úr því að menn neyti þessa sjálfsagða réttar. Ég skil vel að sjónarmiðið sem liggur að baki er væntanlega að menn áfrýji sjálfkrafa þegar úrskurður fellur þeim í óhag. En það er líka þannig að í vaxandi mæli eru lítil fyrirtæki, einyrkjar og frumkvöðlar að notfæra sér þá vernd sem lögin um Samkeppnisstofnun gefa þeim og það er sjálfsagður réttur þeirra að þeir eigi kost á að skjóta málinu til æðri nefndar, annarrar nefndar, ef þeir telja að úrskurðurinn sé ekki í samræmi við það sem staðreyndir máls bjóða. Og það á ekki að reyna að styggja þá frá því með því að leggja svo háan skatt á þá vegna þess að þetta er ekkert annað en skattur. Ég leggst gegn þessu. Þetta er hins vegar, herra forseti, kallað hagræðing í frv.

[17:00]

Aðra skylda hagræðingu gefur líka að lesa annars staðar í frv. Það er í 2. gr. þar sem lögð er til sú breyting á lögum um framhaldsskóla að innheimta eigi sérstakt endurinnritunargjald á þá sem innrita sig aftur til prófa eða í áfanga á nýjan leik. Veltum þessu örlítið fyrir okkur, herra forseti.

Í rauninni er þetta ekkert annað en skattur á þá sem falla á prófum. Hvers vegna á að leggja þennan sérstaka skatt á? Ég skil það vel því ákveðnir aðilar innan stjórnarliðsins vilja taka upp innritunargjöld í framhaldsskólunum. Ég minni á að þingmenn Alþfl. á síðasta kjörtímabili komu í veg fyrir að Sjálfstfl. næði fram þeirri fyrirætlan að leggja innritunargjöld á framhaldsskólann, sem var ekkert annað en skattur á ungt fólk í landinu. Hann átti alls að nema 140 millj. kr. Hér er vísir að slíkum skatti og (Gripið fram í.) nemur 32 millj. kr. Það er fróðlegt að lesa grg. með þessu. Þar er haldið fram að brottfall nemenda úr framhaldsskólum sé talið óeðlilega mikið. Svar hæstv. menntmrh. er að reyna að koma í veg fyrir að þetta fólk, sem fellur á prófum, freisti gæfunnar aftur, freisti þess að neyta atgervis síns aftur til að afla sér menntunar og gera sig að hæfari þjóðfélagsþegnum. Þetta er algerlega í andstöðu við þann anda sem Sjálfstfl. hefur a.m.k. fylgt í orði þar sem hann hefur talað um að nauðsynlegt sé að gefa öllum tækifæri til að efla þá hæfileika sem náttúran gaf þeim í vöggugjöf. Ég tel að hér sé verið að fæla nemendur út úr skólunum í nafni þess sem hér er kallað hagræðing. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvaða rannsóknir hefur hann látið gera sem hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að endurtekning prófa eða brottfall nemenda úr framhaldsskólum sé óeðlilega mikið? Við hvað miðar hæstv. menntmrh.? Miðar hann við Menntaskólann í Reykjavík þegar hann var þar í sinni tíð? Eða þegar ég var þar? Hver er viðmiðunin? Ég leyfi mér að draga í efa að hægt sé að setja fram svona fullyrðingu.

Við skulum líka velta fyrir okkur hvað veldur því að námsmenn ná ekki tilskildum áföngum í skólunum. Við höfum séð skýrslur um það, herra forseti, að í vaxandi mæli neyðast námsmenn í framhaldsskólum, fólk milli 15 ára og tvítugs, að leita sér vinnu til að sjá sér farborða vegna þess að fjölskyldan er ekki jafnöflug og áður. Menn hafa ekki jafnmikið aflögu til að koma börnum sínum til mennta. Ungt fólk í dag neyðist í vaxandi mæli til að afla sér tekna sjálft með því að stunda vinnu meðfram skólum og auðvitað gerist það, þegar slík staða er komin upp, að menn hafa því miður ekki jafna aðstöðu til að afla sér þekkingar, hafa ekki jafnmikinn tíma til að sinna náminu og það leiðir ef til vill til að einmitt þessu fólki er hættara við að falla en þeim sem koma frá efnameiri heimilum. Ég segi þess vegna, herra forseti: Það má halda því fram með nokkrum rökum að hér sé verið að skattleggja fátæktina. Það er verið að vega að þeim sem að öllum líkindum koma frá heimilum sem eru ekki jafn vel í stakk búin og ýmis önnur til að koma börnum sínum í gegnum framhaldsskólann. Ég tel þetta rangt, leggst gegn þessu og veit að þegar hæstv. menntmrh. skoðar þetta í tómi kemst hann að svipaðri niðurstöðu og ég að ekki er sanngjarnt að gera þetta með þessu móti.

Það sem ég vil þó aðallega ræða, herra forseti, eru þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á lögunum um heilbrigðisþjónustuna. Hér er verið að leggja til afskaplega veigamiklar breytingar. Það eru sex greinar sem sumar eru afskaplega djúpristar. Hæstv. heilbrrh. hefur fulla heimild til að hafa þær skoðanir sem koma fram í þessum greinum. Hann hefur fulla heimild til að neyta meiri hlutans sem hann hefur á þinginu til að reyna að koma þessari stefnu sinni í framkvæmd. En siðferðilega getur hann ekki komið hingað með breytingar sem fela í sumum atriðum í sér gjörbyltingu og ætlast til að menn ræði þær í bland við 16 aðra lagabálka. Það er enginn sem frýr hæstv. heilbrrh. vits, en meira er hann grunaður um að skorta áræði. Leggur hæstv. heilbrrh. ekki í það að koma fram með breytingar í sjálfstæðu frv. vegna þess að hann óttast afdrif þeirra hér í salnum? Verður hann að skjóta sér hjá heilbrigðri og algerlega eðlilegri umræðu? Getur verið að í hans eigin flokki, í stjórnarliðinu, sé ekki fullkomin sátt við þær breytingar sem koma fram þannig að nauðsynlegt sé að þrýsta þeim fram með þessu móti?

Ég mótmæli, herra forseti, að svo veigamiklum breytingum sem þessum sé nánast smyglað í gegnum þingið. Hér er um að ræða breytingar sem sumar hafa áður komið fyrir augu okkar í þessum sal. Í byrjun þessa árs og síðan í lok vorþingsins komu fram loforð í þingsal um að þessi mál kæmu fram í sjálfstæðu frumvarpsformi. Ég man ekki betur. Hér er samt sem áður verið að smygla fram efnum, sem menn vita að er ágreiningur um, ekki bara af hálfu stjórnarandstöðunnar heldur líka innan stjórnarliðsins. En það er auðvitað þess vegna sem menn eru að þvælast hérna.

Herra forseti. Sumt af þessum breytingum hæstv. heilbrrh. get ég tekið undir. Ég er til að mynda þeirrar skoðunar, og sýndi það í verki þegar ég var ráðherra í tíð síðustu ríkisstjórnar, að þegar verið er að skipa stjórnir og formenn stjórna á skipunartíminn að fylgja ráðherranum. Ég er þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að hinn pólitíski vilji ráðherra eigi með því móti að koma fram.

Ég hins vegar mótmæli því þegar verið er að gera slíkar breytingar, eins og er í 18. gr. í tengslum við fjárlagafrv. Hvað sparar það í ríkisfjármálunum ef stjórnarformenn heilbrigðisstofnana, sem skipaðir voru í tíð síðustu ríkisstjórnar, eru reknir og aðrir settir í staðinn? Það þarf líka að borga þeim launin og þóknunina. Eina réttlætingin sem hæstv. heilbrrh. hefði í þessu máli væri sú að hún gæti bent á að einhvers staðar hefði ekki tekist að koma í gegn einhvers konar áformum um sparnað, sem hún hefur beitt sér fyrir, vegna þess að þessir tilteknu formenn hefðu staðið gegn þeim. Ég veit ekki dæmi þess í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eitt slíkt dæmi kom upp í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það mætti með rökum halda því fram að hæstv. ráðherra hefði þá eitthvað til síns máls. Ef slík dæmi eru til hljóta þau að vera fá. Ég segi við hæstv. heilbrrh.: Ég er reiðubúinn til að fjalla um þessar breytingar, ræða þær og jafnvel samþykkja vegna þess að ég tel að þetta sé rétt. En ég vil ekki gera það í tengslum við fjárlagafrv. vegna þess að ekki er um neinn einasta sparnað að ræða, herra forseti.

Ég vil líka segja að 19. gr. orkar vægast sagt mjög tvímælis. Hugsunin á bak við hana er væntanlega að bæta fyrir vanhugsunina sem kemur fram í fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að náð sé fram 160 millj. kr. sparnaði á sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Það er ekki einn einasti maður sem veit hvernig þessi tala er komin til. Hins vegar vill svo til að gert er ráð fyrir að náð sé 340 millj. kr. sparnaði með aukinni samvinnu sjúkrastofnana á höfuðborgarsvæðinu. Maður veltir fyrir sér, af því að þessi reglustikuvinnubrögð eru þekkt úr ráðuneytunum, að menn hafi skellt þarna 160 millj. ofan á vegna þess að þá kemur upp þægileg tala, hálfur milljarður. Ég held að það sé skýringin. Þegar heilbr.- og trn. fékk fulltrúa heilbrrn. á sinn fund til að spyrja út í þetta mál voru engin svör. Það var ekki hægt að rökstyðja þessa tölu og ég skora á hæstv. heilbrrh. að koma hingað upp og segja okkur hvernig hún eða hennar starfsmenn komust að þessari tölu. Hún getur ekki farið og spurt til að mynda stjórn Landssambands sjúkrahúsa vegna þess að þeir vita það ekki. Heilbr.- og trn. hefur spurt þá, eins og varaformaðurinn úr stjórnarliðinu, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, getur borið vitni um. Þeir komu á fund nefndarinnar og sögðu einfaldlega: Við höfum ekki hugmynd um það.

Þegar spurt var: Eruð þið virkilega að segja okkur að hæstv. heilbrrh. hafi ekki leitað eftir afstöðu, skoðunum og reynslu þeirra sem sitja í stjórn Landssambands sjúkrahúsa? Þá er svarið nei. Heilbrrn. talaði ekki við einn einasta mann. Þetta er tala sem hæstv. heilbrrh. dró upp úr sínum fína hatti, hefur engan rökstuðning og byggist ekki á neinu. Og það sem meira er, herra forseti. Til að ná fram sparnaði og hagræðingu, sem á að gera með sameiningunni, með verkaskiptingunni þarf væntanlega að taka einhverjar ákvarðanir um uppsagnir. Við erum að tala um hluti sem varða fjárlagafrv. 1997, en það er það skammt til áramóta að þegar er orðið of seint að grípa til þessara ráða. Þetta er dæmi um handarbakavinnubrögð sem á ekki að þola og sem hæstv. forsrh. á ekki að þola sínum starfsmönnum, engum ráðherra.

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur skyggnst ofan í djúpin og gert sér grein fyrir að það er hæstv. forsrh. sem situr í þessari súpu alveg eins og samstarfsráðherra hans. Hann hefur staðið frammi fyrir því að ráðherrarnir hafa einfaldlega ekki getað unnið störf sín betur en þetta. Það er því ljóst, herra forseti, að verið er að breyta lögum til að skjóta undir lekann í heilbrrn. Til þess að reyna að bæta úr því illa unna verki sem tengist þessum sparnaði, þessu menntahagræði sem á að ná fram í sjúkrahúsum á landsbyggðinni.

Það kemur líka fram, herra forseti, í fskj. með fjárlagafrv. að fyrirhugað er að þetta séu einungis fyrstu aðgerðirnar. Í framhaldi af þessu, herra forseti, á að ná fram auknum sparnaði og maður veltir fyrir sér hvað sá sparnaður sé mikill? Getur verið að töfratalan 760 millj., sem datt út úr skýrslu sem unnin var fyrir nokkrum árum, sé takmarkið? Er þetta byrjunin á að ná fram sparnaði upp á 700--800 millj. kr.? Ég tel, herra forseti, að ekki sé hægt að ræða þetta mál til þrautar öðruvísi en að hæstv. heilbrrh. skýri hver sé hinn endanlegi lokaáfangi þessarar ferðar sem hún hefur núna lagt upp í. Eru þessar 160 millj. það eina sem hún ætlar að spara á landsbyggðinni? Eða ætlar hún að leggja spítalakerfið á landsbyggðinni í rúst með því að taka 700--800 millj.? Við verðum að fá að vita, herra forseti, hvað vakir fyrir hæstv. heilbrrh., þ.e. ef hæstv. heilbrrh. veit það sjálf.