Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 17:56:13 (973)

1996-11-07 17:56:13# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[17:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um þennan svokallaða bandorm ríkisstjórnarinnar, frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þær umræður hafa auðvitað ekki verið jafnumfangsmiklar og var hér fyrir ári enda voru greinarnar í frv. þá 63 eða svo en rúmlega 20 nú og þótti mörgum nóg um og var þá reyndar lofað að hafa þetta skaplegra næst og ef það yrðu svo margar greinar þá var því lofað að hafa þær í fleiri frv. Þetta er sem sagt með skaplegri bandormum sem hafa verið fluttir lengi þó ég sé ekki að biðja menn um að mæra endilega efni hans. Ég heyri á umræðunni að um efnið eru auðvitað skiptar skoðanir. Einstakir ráðherrar hafa gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem á bak við þær tillögur liggja er að þeirra ráðuneytum snúa.

Sá heildarsparnaður eða þau fjármálalegu tengsl sem tengd eru þessu frv. koma að hálfu leyti til vegna vegagerðar og öll önnur ákvæði frv. skila síðan helmingi. Það er rétt sem bent hefur verið á að sum þeirra skila ákaflega litlum beinum sparnaði í upphafi en eru til þess fallin þegar fram í sækir að leiða af sér verulegan sparnað og skilvirkari stjórnun, og að því er stefnt.

Ástæðan fyrir því að þessi bandormur er svo miklu minni en sá fyrri er sá að þegar hann var afgreiddur síðast var mörgum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum breytt varanlega, m.a. ákvæðum sem menn höfðu í tíu eða fimmtán ár á hverju einasta ári, hvaða flokkar sem voru í stjórn, frestað að uppfylla skilyrði í sérlögum vegna þess að þeir þurftu að koma saman fjárlögum. Að því leyti tel ég hreinna að breyta slíkum ákvæðum varanlega því þá hafa þingmenn, sem sitja á þingi á hverjum tíma, tækifæri til að beita áhrifum sínum til að koma fjármunum til þessara þátta eftir því sem þeir kjósa hverju sinni en eru ekki bundnir af ákvörðun þingmanna á árum fyrr um fjárhagsleg útlát. Ég tel það vera heilbrigðari stjórnunaraðferð.

Á nokkrum stöðum er ákveðin tilfærsla og skipulagsbreyting sem hefur ekki að þessu sinni áhrif á aðstæður þeirra sem lögin taka til eins og bent hefur verið á varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra og reyndar þá þætti sem snúa að Atvinnuleysistryggingasjóði og hæstv. félmrh. hefur gert glögga grein fyrir.

Ekki er meiningin með þessu frv. að friða refinn heldur er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin beri ábyrgð í þessum efnum og ábyrgðinni fylgi útgjöld. Ég veit að ég er ekki sérfræðingur í þessum efnum en ég hef þó á tilfinningunni að of mikið sé gert úr hættunni af refnum og það megi gjarnan fara varlegar í að farga honum en gert hefur verið en sveitarfélögin hafa sem sagt opnar heimildir til þess. Refurinn er af þeirri deild dýra sem fyrir var þegar forfeður okkar komu til landsins og ég held að við eigum að sýna honum nokkra virðingu enda er það svo að þegar menn vilja tala um stétt stjórnmálamannanna, sem er yfirleitt ekki í hávegum höfð í umtali, þá þykir það það skásta sem um okkur er sagt að við séum pólitískir refir. Þessir bræður okkar eiga því að eiga nokkurn skilning. Ég veit að um þetta kann að vera ágreiningur milli manna, mér sýndist það á svipnum á þeim sem fram hjá mér gekk í þessari andránni. En að öðru leyti verður þetta mál náttúrlega skoðað í nefnd. Það voru nokkur atriði í framsöguræðu minni sem ég bað um að nefndin mundi skoða sérstaklega. Síðan fá menn tækifæri til að ræða þetta á nýjan leik í þingsalnum.