Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:01:07 (974)

1996-11-07 18:01:07# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég beindi í máli mínu áðan spurningu til hæstv. forsrh. sem hann svaraði ekki þegar hann sté í ræðustól. Ég vil ítreka þá spurningu sem snertir 11. gr. frv. Þar er talað um að atvinnuleysisbætur hækki um 2%. Ég tel að atvinnuleysisbætur hafi hækkað til samræmis við launaþróun og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í fjárlagafrv. að laun hækki meira en þetta á næsta ári. Því vil ég spyrja um þegar verið er að binda þetta svona niður hvort ekki sé hugmyndin að atvinnuleysisbætur hækki til samræmis við þá launaþróun sem verður í landinu á næsta ári.

Síðan spyr ég ráðherrann um afstöðu hans til þess að hækka skatta sem fram kemur í 14. gr. en þar er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki um 2%. Ég hélt að það væri í stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka ekki skatta. Eins finnst mér nauðsynlegt að fá afstöðu forsrh., sem flytur frv., til þeirrar gagnrýni sem helst hefur komið fram, þ.e. það mikla framsal á valdi sem hér er beðið um frá löggjafarvaldinu yfir til framkvæmdarvaldsins í heilbrigðismálum þar sem gert er ráð fyrir að heilbrrh. fái heimild til meiri háttar skipulagsbreytinga til frambúðar í heilbrigðiskerfinu og þarf ekki að lýsa því frekar en hér hefur verið gert.