Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:05:06 (976)

1996-11-07 18:05:06# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem fram kom hjá hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin er ekki að binda sig í þessi 3,5% vegna þess að það er fjarri lagi að launabreytingar í landinu verði ekki meiri en 3,5%. En ég hafði áhyggjur af því, virðulegi forseti, að með því að vera að binda niður hámarksbæturnar hækki þær ekki nema um 2% og ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort hann teldi ekki eðlilegt að atvinnuleysisbætur hækkuðu til samræmis við launaþróun í landinu og hvort menn séu ekki að festa sig niður með því að binda þetta með þessum hætti.

Ég er ósammála hæstv. forsrh. um það að ekki sé um nein kaflaskipti að ræða í þeim heimildum sem hæstv. heilbrrh. óskar eftir. Ég held að verið sé að fara fram á miklu víðtækari heimildir en við höfum áður séð. En sjálfsagt mun nefndin sem fær þetta til meðferðar skoða það og mér býður svo í grun að ekki sé allt útsagt í þeim efnum. Það er alveg öruggt að þingið getur varla látið bjóða sér svona mikið framsal á valdi til framkvæmdarvaldsins eins og hér er beðið um.