Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:35:29 (985)

1996-11-07 18:35:29# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega alveg gáttuð á þessu. Það á að ná inn 32 millj. með þessu gjaldi samkvæmt þeirri áætlun sem frv. byggir á. Samt sem áður á ekki að íþyngja nemendum. Hverjir eiga að borga þetta? Eru það ekki nemendur sem eiga að borga þetta? Ég er í raun og veru engu nær varðandi þessa tölu. Ég reiknaði þetta út lauslega áðan miðað við fjölda nemenda og miðað við það fall sem greint er frá í frv. til fjárlaga og ég fæ þessar tölur ekki til að ganga upp á nokkurn hátt nema reiknað sé með því að nemendur falli margfaldlega og það gera vissulega sumir nemendur. Og það er góð spurning hjá hæstv. ráðherra: Hvers vegna er allt þetta brottfall? Ég held að skýringin sé ósköp einföld.

Íslenskir framhaldsskólar bjóða nemendum ekki upp á nógu fjölbreytt nám. Það er allt of mikil áhersla lögð á bóknám, framhaldsskólarnir eru öllum opnir og það eru því miður allt of margir sem ráða ekki við það nám sem er boðið upp á. Það er ósköp einfalt. Auðvitað kunna aðrar skýringar að koma þarna til, sérstök vandræði, bæði félagsleg og líkamleg og ýmislegt sem hér hefur fléttast inn í umræðuna.

Málið er það, hæstv. forseti, að í fjölbrautaskólunum er það fyrst og fremst í kjarnagreinum sem nemendur falla. Það er í stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði og íslensku og ýmsum þeim greinum sem teljast til kjarna. Það er það sem öllum er ætlað að taka þannig að það er ekki eins og menn falli í einhverju sem þeir eru að velja sér ,,af því bara`` og af því að þeir velja vitlaust. Þetta eru kjarnagreinarnar sem fyrst og fremst er um að ræða. Við erum að fjalla um að það á að taka ákveðið gjald af þeim nemendum sem ráða ekki við það sem þeir eru að fást við.