Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:37:43 (986)

1996-11-07 18:37:43# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi 2. gr. í þessum bandormi sem mörgum hefur orðið tíðrætt um, þ.e. 1.500 kr. endurtökugjald á prófum. Ég verð að segja að skólamönnum er ærinn vandi á höndum þegar þeir eiga að fara að leggja á þetta gjald. Nú kemur nemandi sem hefur verið veikur á önninni og tekur próf og nær ekki. Á hann að borga endurtökugjald? Hann var veikur. Nú koma þeir sem eiga við sérstaka örðugleika að glíma sem eru margvíslegir. Hér hefur verið nefnd t.d. lesblinda, en það er margt annað sem gerir fólki sérlega örðugt um nám þó það leggi sig allt fram. Eiga þeir sérstaklega að gjalda fyrir það að þurfa að endurtaka próf? Og nú er það svo að fólk þarf oft ekki að endurtaka eitt próf. Það eru kannski þrjú próf sem þarf að endurtaka. Og hvað á að gera í þeim tilfellum í áfangaskólum þar sem nemandi hefur verið í t.d. áfanga 301. Hann fellur þar. Þá innritar hann sig í hliðaráfanga sem heitir kannski 302 eða 303, tekur próf þar. Þá er hann kominn í annan áfanga. Á hann að borga það?

Ég held að þetta verði endalaust rugl og ég held að eina leiðin til að forða kaosi út af þessu og endalausum leiðindum sé að afnema þetta og drífa þennan kafla út úr frv.

Það hefur verið talað um hér að slíkt gjald kynni að hafa mikið uppeldisgildi og ráðgjafar hæstv. menntmrh. hafa hvíslað því að honum að sennilega mundi fólk hætta að falla á prófum ef það þyrfti að borga 1.500 kall fyrir. Ég verð að segja að ég efa það mjög. Ég held að það hafi ekkert með uppeldi að gera hvort fólk þurfi að borga þetta. Þetta kemur hart niður á þeim heimilum sem minnst hafa. Eiga kannski þau börn sem mest þurfa að vinna með skólanum og þurfa svo líka að fara að borga endurtekningargjald á prófum ofan á bækurnar og ofan á skólagjöldin, sem nú er búið að lögfesta? Og ofan á efnisgjöldin sem á kannski að fara að taka upp til viðbótar við skólagjöldin því að mörgum ráðgjöfum menntmrh. í skólamálum þykir ekki nóg að gert og vilja auk skólagjaldanna fá að innheimta efnisgjöld líka.

Það var talað um að brottfall mundi minnka sérstaklega ef skólagjöldin væru tekin upp. Ég hefði gaman af að heyra það hvort sú hafi orðið raunin, að skólagjöld hafi sérstaklega minnkað brottfall úr skólum. Þetta er nefnilega mikið vandamál hjá okkur, hversu miklu minna hlutfall nemenda lýkur framhaldsskólanámi á Íslandi heldur en í nokkru öðru nálægu landi. Og ég verð að segja það að ég sé aðrar leiðir til að koma í veg fyrir það heldur en að leggja sérstök gjöld og skatta á þá sem standa höllum fæti í skólakerfinu.

Enn eitt vil ég minna á. Kennarar eru nú misharðir, misvondir við nemendurna. (Gripið fram í: Misgóðir.) Og misgóðir, já. Svo kemur maður að því að það er nemandinn sem er á gráu svæði. Það er í sjálfu sér með hæfilegum góðvilja hægt að gefa honum 5, en hann hefði kannski afskaplega gott af því að lesa aftur yfir námsefnið þannig að e.t.v. ætti að gefa honum 4 og láta hann fara í endurtekningarpróf. En þá kemur spurningin: Þetta er fátækur strákur frá fátæku heimili og á ég kannski að gefa honum bara 5 svo að hann þurfi ekki að fara að borga fyrir endurtekningu á prófi ofan á allt annað?