Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:43:11 (987)

1996-11-07 18:43:11# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mikið þessa umræðu sem hefur verið ágæt, en minna um svör frá hæstv. ráðherrum. Ég vil byrja á því að undrast 2. gr. sem hefur verið hér til umræðu undanfarnar mínútur. Ég furða mig á því að enn skuli ætlað að seilast í vasa þeirra sem minnst hafa því að eins og menn vita eru það oft þeir sem eru fatlaðir eða þeir sem minna mega sín sem eiga erfitt uppdráttar í skóla og hjá fátækum fjölskyldum þurfa börnin oft að vinna með skólanum. Við þekkjum það úr stórmörkuðunum, þangað sem börnin fara eftir skóla til að vinna fram eftir kvöldi jafnvel. Það eru oft þessi börn sem ná ekki að klára öll próf þegar þau eru að létta undir með fjölskyldunni. Ég furða mig því á þessari tillögu frá menntmrn., að ætla að fara að seilast í vasa þessara nemenda með greiðslum fyrir það að þurfa að endurtaka próf og ég vonast til þess að þetta ákvæði verði farið út úr bandorminum þegar hann kemur hér til lokaafgreiðslu.

[18:45]

Ég undrast líka 11. gr. bandormsins þar sem lagt er til að atvinnuleysisbætur hækki um 2%. Ég hefði talið eðlilegt að þær fylgdu launahækkunum og minni á að álíka ákvæði var inni í bandormi fyrir ári þar sem aðrar bætur, sem voru greiðslur til lífeyrisþega, átti að binda með álíka prósentum. Ég tel því eðlilegt að menn létu atvinnuleysisbætur fylgja launaþróun og því sem næst í kjarasamningum um áramót.

Ég gagnrýni einnig það að ákvæði eins og koma fram um heilbrigðismálin, komi inn í bandorm. Hér er verið að fara með stefnumótunarmál. Ég hefði talið að þetta ætti að koma inn í sérstöku frv. þar sem við gætum þá rætt stefnumótun í heilbrigðismálum og tekið afstöðu til þessara mála samkvæmt því. Þessi mál eiga ekki heima í bandormi því að þetta eru ekki ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þessi ákvæði um heilbrigðismálin hafa ekkert að segja með ríkisfjármál. Það getur vel verið að það sé hagkvæmara að hafa eina stjórn yfir heilsugæslunni í Reykjavík. Ég ætla ekkert að segja um það hér. En ég hefði talið eðlilegt að menn skoðuðu það nánar. Ég sit í stjórn eins heilsugæsluumdæmis í Reykjavík og það hefur verið stefnan hjá borgaryfirvöldum að í stjórn heilsugæslustöðva sætu þeir sem búa í umdæminu og þekkja eðli starfseminnar og það er mismunandi starfsemi í mismunandi umdæmum í borginni. Það er t.d. annars konar starfsemi og aðrar áherslur í Vesturbæjarumdæmi en í Breiðholti eða í Grafarvogi og aðrar áherslur lagðar þar alveg eins og aðrar áherslur eru í sjávarplássi í heilsugæslu heldur en kannski í þjónustumiðstöð inni í landi. Það er því ekki óeðlilegt að heilsugæsluumdæmum í borginni væri skipt upp því að hér búa yfir 100 þúsund manns, tæpur helmingur þjóðarinnar og ekki óeðlilegt að þar fari ekki öll stjórn á heilsugæslunni á eina hendi eða undir eina stjórn. Það getur verið að það sé eðlilegt, en það þarf að ræða. Ég spyr, og ég hef ekki heyrt svar við því enn þá hjá hæstv. ráðherra, hvort haft hafi verið samráð við borgaryfirvöld þegar þessi tillaga var sett fram.

Eins og málum er nú háttað í heilsugæslunni í Reykjavík, eru fjórar stjórnir yfir hinum ýmsu heilsugæslustöðvum í borginni. Síðan er samráðsnefnd sem kemur saman eftir fundi stjórnana og samræmir milli þessara stjórna og leggur á ráðin sameiginlega. Ég sé því ekki rökin fyrir því sem kemur fram í þessum bandormi og skýringunum með honum að þetta eigi ekki að spara eða þetta eigi ekki að breyta neinu varðandi fjármál og velti því fyrir mér hvort þessi ákvæði eigi heima í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég hefði frekar talið eðlilegt að þetta kæmi undir sérstakt frv. og yrði rætt þar.

Einnig langar mig til að fá skýringar á 16. gr. hjá hæstv. heilbrrh. og þeim greinum þar sem verið er að tala um heilsugæsluna og sjúkrahúsin. Ég velti því fyrir mér og heyrði að um það var spurt fyrr í þessari umræðu, hvort þetta þýddi að Sjúkrahús Reykjavíkur og heilsugæslan í Fossvogi ættu að heyra undir sömu aðila og hefði gjarnan viljað fá svar við því. Ég heyrði að hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri eðlilegt úti á landi og það getur vel verið að það sé rétt og ég get alveg ímyndað mér að það væri hagkvæmni í því. En ég velti fyrir mér hvort við séum ekki að opna á að þetta heyri undir sömu aðila í borginni með því að samþykkja greinarnar eins og þær standa hér. Það væri gagnlegt, áður en frv. fer til nefnda, að fá skýringar á því hjá hæstv. ráðherra hvort þetta er inni í myndinni hvað varðar þessi ákvæði.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. En vegna þess að ekki hafa komið svör við þessum atriðum þá hefði ég gjarnan viljað fá þau í þessari umræðu. Síðan munum við náttúrlega leita frekari skýringa á þessu þegar frv. kemur til umsagnar í heilbr.- og trn. og viðkomandi nefndum sem þessi ákvæði heyra undir.