Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:12:05 (997)

1996-11-07 19:12:05# 121. lþ. 20.4 fundur 50. mál: #A kosningar til Alþingis# (skráning kjósenda) frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:12]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að hér í þessari stofnun er það þannig að það eru aldrei leynilegar kosningar nema þegar verið er að kjósa forustu þingsins, forseta. En það hins vegar styðst við þau rök að því er ég hef skilið að þegar menn eru fulltrúar, þingmenn eru fulltrúar fyrir einhverja, þá eigi þeir sem við erum fulltrúar fyrir að geta séð hvernig við greiðum atkvæði. Og það er litið þannig á að það sé hluti af því að gera þingræði gagnsætt. Þetta á t.d. við um Alþýðusambandsþing svo ég nefni dæmi, þar sem menn eru fulltrúar fyrir tiltekin samtök. Þar gilda ákveðnar reglur í þessum efnum.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að taka undir það með hæstv. forsrh. að mér finnst ástæða til þess að ræða þessi mál mjög rækilega því að það hefur ótrúlega mikið magn af rugli þróast í kringum þessa kosningaumræðu á undanförnum árum. Ég vona að þetta litla frv. fái sanngjarna og eðlilega meðferð ásamt ýmsum öðrum tillögum um breytingar á kosningalögunum sem hér liggja fyrir. Ég teldi reyndar að það væri gott að skoða þessi mál í heildarsamhengi. Ég er ekki hrifinn af því að það sé verið að gera margar, kannski tiltölulega litlar breytingar á kosningalögunum, sundurslitnar á hverju kjörtímabili. Það getur oft verið mjög vafasamt að standa þannig að málum. Þess vegna teldi ég heppilegra ef þingið á einhvern hátt tæki utan um þær tillögur sem koma, annaðhvort með því að kjósa sérnefnd eða með því að fela allshn. að fjalla um málið sérstaklega.

Ég bendi á, hæstv. forseti, að nú er verið að tala um breytingar á kosningalögum, jafnvel mjög miklar breytingar á þessu kjörtímabili og þá er auðvitað eðlilegt að svona breytingartillögur eða hugmyndir eins og þessi séu skoðaðar í samhengi við heildina en ekki sundurslitið. Það er mín skoðun.