Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:48:20 (1004)

1996-11-07 19:48:20# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:48]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv. er vafalaust flutt í góðri meiningu. Ég get tekið undir að það muni áreiðanlega vera erfitt að lifa af lægri launum en 80 þús. En því miður hafa margir í þjóðfélagi okkar lægri tekjur. En mér finnst hv. flm. vera kjarkmaður ef hann flytur þetta frv. í alvöru. Það verð ég að segja að ekki mundi ég þora að leggja það til að skipa launum með lögum. Ég er hræddur um að verkalýðsfélögunum þætti stigið illilega inn á verksvið sitt. Ég vil heiðra samningsréttinn og hafa kjarasamninga frjálsa. Ég er ansi hræddur um að það kæmi hljóð úr horni ef ég væri flutningsmaður þessa frv.

Verkalýðshreyfingin gagnrýndi lítillega í fyrravor að ég skyldi flytja frv. um breytingu á vinnulöggjöfinni en þetta frv. gengur miklu lengra heldur en það og undir engum kringumstæðum þyrði ég að leggja í svona frumvarpsflutning.

Hv. þm. segist ekki vera að slá sig riddara en ég tel nú að hann ætti að verða riddari fyrir kjark sinn og dirfsku.