Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:50:15 (1005)

1996-11-07 19:50:15# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:50]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók sérstaklega fram að ég væri ekki að reyna að slá mig til riddara. Ég sagði að í raun væri til skammar að það ætti að draga mál af þessu tagi inn á hið háa Alþingi. Þetta meina ég og það innilega. En á sama tíma og launafólk fær 8 þús. kr. laun fyrir fulla vinnuviku þarf það að borga af því á áttunda þúsund kr., eða 7.860 kr. í fæði og uppihald, og heldur eftir níu krónum í laun eftir vikuna inngreitt á reikning. Ég er með bunka af launaseðlum frá fólki sem er með laun á bilinu frá 50 þús. upp í 57 þús. kr. Það er sama niðurstaðan alls staðar. Þetta er farandverkaflólk sem hefur farið milli staða til að reyna að halda sig í vinnu vegna þess að því hefur verið fyrirskipað að ferðast, fyrirskipað að fara í vinnu annað. Alls staðar er sama sagan. Fólk er að fá frá 400 kr. niður í níu krónur útborgað eftir fyrstu vikuna eftir að dregið hefur verið af þeim vegna fæðiskostnaðar og húsnæðis. Þetta eru vandamálin sem blasa við. Þess vegna er verið að flytja frv. um lögbindingu lágmarkslauna. Það er ekki verið að slá sig til riddara. Það þarf engan kjark, hæstv. félmrh., til að flytja frv. þegar aðstæður eru svo himinhrópandi í þjóðfélagi okkar.