Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 20:36:11 (1007)

1996-11-07 20:36:11# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[20:36]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni og fagna því að heyra sjónarmið hans hér. Það má segja að þau hafi komið úr óvæntri átt en sjónarmið hans sýna að sem betur fer er mörgum ljóst að ástand launamála hér er algerlega óviðunandi og allt of margt fólk sem hefur allt of lág laun og það er okkur til skammar og veldur landflótta og erfiðleikum. Ég get tekið undir það með honum að maður hefði nú gjarnan viljað sjá hærri tölur í þessu frv. en ég hygg að raunveruleikinn sé sá að erfitt sé að ganga lengra og jafnvel þurfi að ná upp í þessa tölu í áföngum. En það er auðvitað mjög gott mál að vekja athygli á því að staða launamála gengur ekki lengur og ef atvinnulífið hér getur ekki borgað fólki mannsæmandi laun þá erum við í mjög vondum málum.