Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 20:54:01 (1010)

1996-11-07 20:54:01# 121. lþ. 20.8 fundur 33. mál: #A aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[20:54]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna. Þessi tillaga var lögð fram á 120. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Það má öllum ljóst vera hvílíkt nauðsynjamál er hér á ferð og vonast ég til að fá mikinn stuðning við þetta mál og að það nái fram að ganga á þessu þingi. Það er ástæða til að ætla að svo geti orðið eftir þær miklu umræður sem hér urðu um jafnréttismál fyrr í vikunni, eftir samþykkt á landsfundi Sjálfstfl. sem ég mun vitna til á eftir, og eftir allar þær umræður sem orðið hafa um launamál kvenna ekki síst eftir að könnun Jafnréttisráðs kom fram snemma árs 1994 fyrir kosningarnar þá.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það frammi fyrir þingmönnum hvernig launamisréttinu hér á landi er háttað. Könnun eftir könnun hefur leitt í ljós að þegar borin eru saman meðallaun kvenna og karla eru laun kvenna um 60% af launum karla. Þessar tölur sveiflast örlítið til eftir árum en bilið hefur verið u.þ.b. þetta. Þegar búið er að skoða alla þætti launakjara kvenna, bera þau saman við laun karla, taka út þætti eins og yfirvinnu, aukagreiðslur og annað sem getur haft áhrif á launakjörin, er samt til staðar launamunur sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði.

Á nýafstöðnu jafnréttisþingi voru lagðar fram nýjustu tölur frá öllum Norðurlöndunum um þennan kynbundna launamun, þ.e. launamun sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði og reyndist hann vera um 14% hér á landi ef ég man rétt. Nú þori ég ekki alveg að fullyrða, hæstv. forseti, að ég fari rétt með þessar tölur. En það kom reyndar í ljós eins og þar var sagt að þessi munur er á bilinu 10--20% á Norðurlöndum. Ef ég man rétt þá var hann mestur í Danmörku. Þannig að við erum ekki endilega verst í þessum málum. Þetta er alþjóðlegt fyrirbæri og auðvitað getur atvinnuskipting valdið þar miklu. Það hefur t.d. komið í ljós í rannsóknum að launamunur hjá verkafólki er sáralítill þegar borin eru saman laun karla og kvenna en munurinn eykst eftir því sem menntunin verður meiri, Þ.e. aukin menntun skilar konum ekki eins miklu og körlum. Allar þessar staðreyndir liggja fyrir, hæstv. forseti, og jafnframt það að margar þær stéttir þar sem konur eru í meiri hluta eru afskaplega lágt launaðar. Það tengist því máli sem hér var síðast til umræðu. Ef það næði fram að ganga fengi stór hópur kvenna verulega launahækkun. Það eru sérstaklega konurnar sem eru í umönnunarstörfunum, konur sem t.d. vinna sem aðstoðarkonur á leikskólum, konur sem eru í Starfsmannafélaginu Sókn, Verkakvennafélaginu Framsókn eða Verkakvennafélaginu Framtíðinni, eru á afskaplega lágum grunnlaunum en bæta þau reyndar oft upp með bónus eða vaktaálagi.

Í greinargerð þessarar tillögu er að finna nokkrar upplýsingar um slík laun. M.a. kemur fram að þrítug kona sem vinnur við umönnun og hefur sótt eitt námskeið fær í grunnlaun 64.226 kr. Reyndar eru grunnlaun stúlkna sem eru að byrja miklu lægri.

Í tillögunni eru lagðar til aðgerðir til að draga úr þessum launamun og til þess vonandi að afnema hann sem er auðvitað markmiðið. Við þekkjum frá ýmsum löndum að gripið hefur verið til markvissra aðgerða til að draga úr launamun kynjanna. En ég veit enn þá ekki nein dæmi þess að tekist hafi að afnema hann með öllu. Í Bandaríkjunum og Kanada og víðar hefur verið farin leið starfsmats sem hefur skilað verulegum launahækkunum í ákveðnum greinum. Á Norðurlöndunum hefur verið framkvæmt starfsmat en þar hefur einnig verið beitt launapottum, þ.e. að taka markvisst frá peninga til að bæta launakjör ákveðinna stétta. Síðan hafa ákveðnir hópar kvenna eða kvennastéttir, ég tek sem dæmi hjúkrunarfræðinga og reyndar fleiri, háð afar harða kjarabaráttu sem sums staðar hefur skilað árangri þannig að heldur hefur dregið úr launamun og þessar stéttir bætt stöðu sína. Málið snýst ekki aðeins um mun á launum karla og kvenna í sambærilegum störfum heldur einnig mat á þeim störfum sem konur hafa einkum og sér í lagi unnið, störfum sem áður fyrr voru unnin á heimilunum en hafa færst út í samfélagið. Þau hafa verið metin til færri fiska en önnur störf þar sem karlar hafa fyrst og fremst verið við vinnu.

Ég ætla að gera aðeins grein fyrir þessum tillögum sem eru í tólf liðum, hæstv. forseti.

Þar er fyrst að nefna að við leggjum til að framfærslukostnaður einstaklinga verði skilgreindur.

Það er svo sérkennilegt og tengist auðvitað þessum voðalega feluleik sem hér tíðkast í launamálum að það er ekki til nein skilgrening á nauðsynlegum launum, á framfærslukostnaði, á fátækramörkum, eða hvað við eigum að kalla það, eins og er til í öðrum löndum. Ég tek nokkur dæmi í greinargerðinni um mismunandi viðmiðanir við það hvað einstaklingur þarf að hafa. M.a. er viðmiðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna sú að einstaklingur í leiguhúsnæði þurfi 54.600 kr. á mánuði. Þetta er það lágmark sem lánasjóðurinn miðar við. Ef námsmaðurinn á eitt barn þá hækkar framfærslan í 79.170. Nú á einungis að hækka atvinnuleysisbætur um 2% samkvæmt frv. sem var til umræðu hér fyrr í dag, en fullar bætur einstaklings eru 52.728 kr., ellilífeyrir og tekjutrygging eru 37.978 kr. Vonandi hafa flestir þeir sem eiga að lifa á ellilífeyri og tekjutryggingu eitthvað meira en þetta enda veit ég ekki hvernig í ósköpunum fólk ætti að komast af með þessa upphæð í vasanum mánaðarlega. Opinber skilgreining á nauðsynlegri upphæð til framfærslu á mánuði er því ekki til.

Kvennalistinn lét hins vegar reikna út fyrir sig eftir tilbúnu dæmi fyrir síðustu kosningar hver framfærslukostnaður einstaklings væri og sú könnun leiddi í ljós að einstaklingurinn yrði að hafa um 94 þús. kr. á mánuði til að lifa og var nú ekki mikill lúxus í því dæmi. Þetta þýðir að einstaklingur þarf að hafa um 121.500 kr. í tekjur á mánuði. Það er reyndar hærra en meðallaun á Íslandi í dag. Þannig að einhver mikil skekkja er nú í þessu öllu saman. Við vitum það auðvitað að margt fólk er í tvöfaldri og þrefaldri vinnu og hefur allar klær úti til að sjá sér farborða eða byggir afkomu sína á vinnu annarra. En í okkar kvennabaráttu er það lykilatriði að konur séu efnahagslega sjálfstæðar, geti séð sér farborða og séu ekki upp á aðra komnar.

Við leggjum til að lægstu laun verði hækkuð í áföngum og miðað við skilgreindan framfærslukostnað. Þannig að ekki verði greidd laun undir ákveðinni upphæð.

Með þessu viljum við leiðrétta laun, sérstaklega kvennastéttanna sem eru á svo hróplega lágum launum.

Við leggjum einnig til að þegar þeirri tilraun verður lokið sem félmrn. og Reykjavíkurborg ætla að beita sér fyrir varðandi starfsmat verði unnið starfsmat bæði fyrir ríki og borg.

Við eigum auðvitað erfitt á hinu háa Alþingi að segja vinnumarkaðnum almennt fyrir um það hvað honum ber að gera. En starfsmat hjá ríki og sveitarfélögum --- reyndar hefur verið í gangi hjá sveitarfélögunum starfsmat sem hefur skilað konum launahækkunum --- sem hefur það að markmiði fyrst og fremst að útrýma launamun kynjanna mun auðvitað hafa áhrif á almennum vinnumarkaði.

Við leggjum einnig til að í komandi kjarasamningum verði farin sú leið að leggja til hliðar ákveðna upphæð, t.d. 1 milljarð kr., sem verði varið til að bæta lægstu laun hjá stéttum þar sem konur eru yfir 75% starfsmanna og starfsmat sýnir að um vanmat á störfum þeirra sé að ræða.

Það má kannski segja að það sé nokkurt bráðlæti að ætlast til að þetta gerist í næstu kjarasamningum því auðvitað þarf starfsmatið að vera unnið fyrst. En það er til grunnur að starfsmati víðast hvar. Ég minni einnig í þessu samhengi á ákvæði í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um sérstakar aukagreiðslur sem auðvitað væri hægt og á að beita til að bæta og draga úr launamun kynjanna en ekki að auka hann eins og margir óttuðust að gerast mundi í kjölfar breytinga á lögunum.

Við leggjum til að launakerfi ríkisins verði stokkað upp í því skyni að afnema launamisrétti sem m.a. er falið í ýmiss konar aukagreiðslum, að þetta kerfi verði einfaldað og gert gagnsætt.

Reyndar liggur hér fyrir sérstök tillaga um endurskoðun á launakerfi ríkisins á aðeins öðrum forsendum. En við vitum öll að mjög margar konur vinna hjá ríkinu og það kerfi sem þar viðgengst er orðið algjörlega óbrúklegt. Það bíður upp á þvílíkt misrétti og er orðið slíkt að það er bara ekki hægt að halda svona áfram með öllum þessum duldu greiðslum. Reyndar eru einstakar stéttir opinberra starfsmanna að átta sig á því að það kemur þeim í koll þegar þeir komast á eftirlaunaaldur að hafa grunnlaunin svona lág og byggja kaupið á ýmiss konar aukagreiðslum því að eftirlaunin byggjast fyrst og fremst á grunnlaununum.

Þá er lagt til að ákvæðum 3. gr. jafnréttislaganna verði fylgt eftir en hún kveður á um tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna.

Því miður hefur harla fátt verið gert í því að grípa til sérstakra aðgerða. Eins og hér kom fram í umræðunni á mánudaginn er það fyrst og fremst spurning um pólitískan vilja og að það verði tekið á því að ráðuneyti og opinberar stofnanir fylgi jafnréttislögunum eftir, jafnframt því að sjálfsögðu að fylgjast með því að vinnumarkaðurinn almennt virði lög og rétt. Ég hlýt að benda á það, hæstv. forseti, að það þarf að nota dómstólana meira en gert hefur verið til að knýja fram réttlæti. En það þýðir ekkert ef dómstólarnir líta svo á að jafnréttislögin hafi nánast ekkert gildi eins og mætti álykta af ýmsum dómum sem fallið hafa á undanförnum árum.

Við leggjum til sem félagslega aðgerð og jöfnunaraðgerð sem auðvitað skiptir bæði konur og karla máli að fæðingarorlof verði lengt í tólf mánuði í áföngum og að feðrum verði tryggður sjálfstæður réttur til þriggja mánaða orlofs.

Þetta er tengd aðgerð sem mundi auðvelda fjölskyldufólki að koma aftur út á vinnumarkaðinn. Þetta er svona fjölskylduvæn aðgerð.

Þá þarf að endurskoða vinnulöggjöfina og vinnuverndarlögin út frá þeim sjónarhóli að tryggja réttindi kvenna og stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Það þarf að herða viðurlög við brotum á jafnréttislöggjöfinni og fylgja því miklu betur eftir að þau séu virt.

Það þarf að endurskoða tryggingakerfið og lífeyris- og skattamál út frá könnun á stöðu kynjanna og út frá því sjónarmiði að jafna stöðu kynjanna.

Síðan nefnum við tvær félagslegar aðgerðir sem eru þær að komið verði á einsetnum skóla, skóladagur lengdur og sveitarfélögum tryggðir tekjustofnar til að grunnskólar geti starfað samkvæmt lögum. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. forseti.

Síðasta tillagan gengur út á að gerð verði tíu ára áætlun til að fullnægja eftirspurn eftir leikskólaplássum í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Reyndar verð ég að taka það fram, hæstv. forseti, að Reykjavíkurborg hefur gripið til mikils átaks í þessum efnum og því er von um að kannski verði þörfinni fullnægt innan tíu ára ef okkur tekst að halda meiri hlutanum í Reykjavík sem við, hæstv. forseti, vonum að sjálfsögðu að muni verða. Kannski má því breyta þessu. En þarna tengjast saman beinar aðgerðir í launamálum og félagslegar aðgerðir sem styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaðnum.