Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 21:25:57 (1013)

1996-11-07 21:25:57# 121. lþ. 20.8 fundur 33. mál: #A aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[21:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að svara þeim fsp. sem ég beindi til hennar. Það er nokkuð skýrara í mínum huga hvað hv. þm. hugsar sér varðandi viðurlögin. Það var líka athyglisvert sem fram kom hjá hv. þm. um 3. gr. jafnréttislaganna og ég held að gera eigi fulla alvöru úr því að skoða og beita þeirri grein.

Þegar verið er að tala um eitthvað sem snýr að heimilum í landinu eru alltaf mjög fáir hér inni til að taka þátt í umræðum. Það er mjög miður.

Það sem ég náði ekki að tala um varðandi þessa tillögu, sem er mjög yfirgripsmikil, er 2. tölul. um að hækka lægstu launin í áföngum. Mér finnst að því hafi vaxið fylgi í þingsölum, og hafi gert á síðustu missirum, að virkilega þurfi að fara þá leið að lögfesta lágmarkslaun í landinu. Það er svo í kjarasamningum og við þekkjum það, að lægstu taxtarnir gjalda fyrir það hvernig samið er. Margar viðmiðanir eru bundnar þessum lágu launum, t.d. bótagreiðslur og lífeyrisgreiðslur og fleiri þættir. Það er eins og aldrei megi hækka lægstu launin og þess vegna fara menn í það, að hluti af því sem samið er um, er í gegnum ýmsa félagsmálapakka, sem vissulega eru góðra gjalda verðir, en hafa líka komið í veg fyrir að lægstu launin hafi hækkað. Hið opinbera greiðir raunverulega alltaf niður stóran hluta af því sem samið er um. Ég man eftir því að fyrir tveimur árum var a.m.k. þriðjungur eða um 4 milljarðar sem ríkisvaldið greiddi niður í kjarasamningunum til að geta haldið niðri þessum launum. Mér finnst vera sá tónn í verkalýðshreyfingunni núna að það verði launataxtarnir númer eitt, tvö og þrjú sem hafi forgang í næstu kjarasamningum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt.

Menn tala um að ekki sé mjög stór hluti fólks á þessum lágu launum. Sumir segja það. En auðvitað er hann allt of stór. Þá spyr maður af hverju allt fari um koll í þjóðfélaginu ef hækka á þessa lægstu taxta. Það virðist lítið hreyfast í efnahagskerfinu þótt verið sé að hækka laun þeirra sem eru ofar í kerfinu, þeirra sem fá laun samkvæmt kjaradómi og þar fram eftir götunum. Það virðist lítið hreyfa við efnahagsumhverfinu. Ég tel að ef ekki gerist mikið í næstu kjarasamningum og ekki verði veruleg hækkun á lægstu launum, þá held ég að skoða verði af fullri alvöru í þinginu að samþykkja löggjöf um lágmarkslaun.

Lægstu launin í þjóðfélaginu eru til skammar og það viðurkenna allir. Menn verða að leggjast á eitt að hækka lægstu launin í komandi kjarasamningum og ef það dugar ekki verður að setja löggjöf um það.