Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 21:30:11 (1014)

1996-11-07 21:30:11# 121. lþ. 20.15 fundur 11. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[21:30]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Það eru lög nr. 75/1981. Þetta mál fjallar um það sem í daglegu tali eru kallaðir jaðarskattar eða jaðaráhrif í skattkerfinu. (Gripið fram í: Nú vantar fjmrh.) Og vantar þá illa fjmrh. hæstv. eins og bent er á en hann mun vera fjarri góðu gamni eins og slökkviliðsstjórinn sagði forðum þegar hann var utan bæjar þegar kviknaði í.

Flm. ásamt mér eru hv. þm. Alþb. og óháðra, allir með tölu og í stafrófsröð eins og sjá má á þskj. 11. Tillögugreinin sjálf er fremur einföld þó að málið sé stórt og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

a. Við álagningu tekjuskatts árið 1997 skal, til að draga úr jaðaráhrifum tekjutengingar bótaliða í skattkerfinu, haga útreikningi tekjutengdra bótaliða þannig: Samanlagt hlutfall álagðra skatta og skerðingar bótaliða skal vera að hámarki 55%. Skal skerðing vaxtabóta eða húsaleigubóta reiknuð fyrst en síðan skerðing barnabótaauka að áðurnefndum mörkum.

b. Alþingi skal kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka, auk formanns sem fjármálaráðherra skipar, til að gera í samráði við samtök launafólks ítarlega úttekt á áhrifum tekjutengingar í skattkerfinu og samspili slíkrar tekjutengingar við aðra þætti, svo sem almannatryggingakerfið, lífeyrisréttindi, tekjutengdar afborganir námslána o.fl.

Nefndin skal skila tillögum um breytingar á skattalögum sem fela það í sér að komist verði hjá óhóflegum jaðar\-áhrifum vegna tekjutengingar bótaliða, í skattkerfinu og utan þess.

Fjármálaráðherra skal leggja tillögur nefndarinnar fyrir Alþingi haustið 1997.``

Þannig hljóðar það, herra forseti, og fjallar í sínum einfaldleik um að við álagningu tekjuskatts á næsta ári verði sett þak á svonefnda jaðarskatta. Og sömuleiðis verði nefndin, sem getið er um, sett á fót til að fara í vandaða úttekt á málinu með fulltrúum samtaka launamanna. Markmiðið verði að setja tekjutenginu skorður eða afmarka hana þannig að jaðaráhrifin í skattkerfinu og/eða utan þess verði aldrei óhófleg. Þær ógöngur sem menn eru nú komnir í stafa einfaldlega af því að á tilteknu árabili var gengið mjög langt í að tekjutengja ýmsa þætti innan skattkerfisins og reyndar utan þess einnig. Þó að hver og ein af þessum tekjutengingaraðgerðum gæti verið eðlileg sem slík þá verkar þetta þannig að jaðaráhrifin eða tekjutengingaráhrifin leggjast saman. Skerðingarnar hefjast við svipuð tekjumörk þegar í hlut eiga þættir eins og vaxtabætur eða húsnæðisbætur og tekjutengd skerðing barnabótaauka. Og þannig leggjast áhrifin hver ofan á önnur og úr verða hin illræmdu jaðaráhrif.

Tekjutenging getur átt fullan rétt á sér þegar verið er að reyna að stýra takmörkuðum fjármunum til þeirra sem mesta hafa þörfina þ.e. fólks með lægri tekjur. Þess vegna er efni þessa frv. síður en svo það að útiloka með öllu þessa aðferð en hitt er alveg ljóst að menn eru komnir í miklar ógöngur þegar svo er komið að jaðaráhrifin eru 70--80 af hundraði, með öðrum orðum það er orðin sáralítil breyting sem verður á ráðstöfunartekjum fólks þó að það reyni að auka tekjur sínar með aukinni vinnu sökum þess að fjórar krónur af hverjum fimm hverfa úr launaumslaginu aftur. Þá er ekki annað að gera en að horfast í augu við að í óefni er komið og bregðast við samkvæmt því.

Það er allnokkuð síðan mönnum fóru að verða þessar ógöngur í skattkerfinu ljósar og talsvert er búið að tala um þetta undanfarin missiri. Sá sem hér talar hefur ítrekað tekið þetta mál upp og flutt um það þingmál. En einhvern veginn hefur samt farið svo að sáralítið, nánast ekkert, hefur verið gert í því að ráða bót á þessu meini, ef frá er talið það, að lítillega var dregið úr tekjutengdri skerðingu barnabótaauka sérstaklega fyrir barnflestu fjölskyldurnar við álagningu tekjuskatts í fyrra.

Á þessum árum sem nú eru að líða er enn að bætast við nýr þáttur sem veldur því að tekjutengingargildran, jaðar\-áhrifin, eru að fara út yfir öll velsæmismörk bókstaflega talað og þá á ég við hina þungu tekjutengdu endurgreiðsluskyldu námslána. Með breytingum á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna 1992 var endurgreiðsluskyldan eða kvöðin hert mjög verulega og gerð tekjutengd þannig að fyrstu árin eftir að endurgreiðslur námslána hefjast eru það 5% af brúttótekjum en hækkar síðan í 7%. Það þýðir að kannski 11%--12% af ráðstöfunartekjum, tekjutengt, renna til endurgreiðslu á þessu þætti einum. Þegar þessi jaðaráhrif leggjast við þau sem eru innan tekjuskattkerfisins getur myndin orðið óhugnanleg. Fræðilega má setja upp dæmi þar sem fjölskyldan er nógu stór og vaxtabæturnar það háar og námslánaendurgreiðslan svo þung, fyrir utan flata skatta sem teknir eru og slík gjöld, að nánast öll laun á tilteknu tekjubili hverfi aftur.

Í fskj. með frv. er sýnd mynd um tiltekna fjölskyldu. Hún á við fjölskyldu með tvö börn sem hefur fullar vaxtabætur en miðar að vísu við tekjutengda skerðingu barnabótaaukans eins og hún var á síðasta ári enda dæmið frá þeim tíma. En í reynd hefur það sáralítið breyst og nánast ekkert þó að tekjutengda skerðingin hafi lækkað um eitt prósentustig fyrir hvert barn. Myndin sýnir hins vegar ágætlega hvernig skattstiginn er eða jaðaáhrifin í skattkerfinu eru í dag fyrir venjulega fjölskyldu, dæmigerða íslenska fjölskyldu sem er rétt við það að vera vísitölufjölskyldan. Þá lítur málið þannig út að, --- ég biðst nú forláts, herra forseti, dæmið í grg. með frv. er af fjölskyldu með tvö börn en dæmið í fskj. sem myndin sýnir er af fjölskyldu með þrjú börn svo örugglega sé öllu til haga haldið. En vegna tekjutengdrar skerðingar vaxtabótanna og barnabótaaukans fyrir þessi þrjú börn verða jaðaráhrifin á tekjubilinu 1,4 millj. til 2,7 millj. í heimilistekjur þessarar fjölskyldu tæp 70%. Það þýðir að aðeins 30 kr. af hverjum 100 kr., 30 þús. kr. af hverjum 100 þús. kr. sem menn reyna að bæta við sig með auknum launatekjum á þessu tekjubili koma launamanninum til góða, hinar hverfa í formi skatta eða vegna skerðingar bóta á móti.

Með því að setja inn þak og láta staðar numið við tiltekin mörk gagnvart tekjubilinu hverju sinni þá dreifist skattbyrðin á þá sem hærri hafa launin eins og sýnt er á myndinni. Enginn vafi er á því að þessi tekjuauki fjölskyldunnar, sem dæmið sýnir, 11 þús. kr. meira til ráðstöfunar á hverjum mánuði miðað við hverjar 100 þús. kr. kæmu sér afar vel. Það er enginn vafi á því, herra forseti, að þetta eru þær fjölskyldur í landinu sem í hvað mestum erfiðleikum eru um þessar mundir. Það eru lágtekju- og meðaltekjufjölskyldur, stórar barnafjölskyldur með nýlegar húsnæðisskuldbindingar á bakinu. Svo maður tali nú ekki um öll ósköpin ef til viðbótar eru þungar endurgreiðslur af námslánum. Þetta sýna allar kannanir. Þetta má lesa út úr skattkerfinu m.a. út úr myndum eins og þessari hér.

Aðferðin sem frv. leggur til er ofur einföld. Hún byggir í raun og veru á tvennu. Annars vegar á því að skerðingu bótaþáttanna er forgangsraðað og þak sett við tiltekin mörk. Fyrst eru skertar vaxtabætur eða húsaleigubætur en síðar eða síðast barnabætur. Í framkvæmd ætti þetta ekki að skapa neina umtalsverða erfiðleika. Ég tel að innan staðgreiðslunnar sé í raun og veru auðvelt að gera þetta með þessu móti og í öllu falli er ljóst að kæmu einhverjir annmarkar í ljós hvað það snertir er afar einfalt mál að gera upp eftir á þá sem leiðrétta kynni að þurfa enda eru barnabætur, barnabótaaukinn til að mynda ekki greiddur út nema nokkrum sinnum á ári og það einfaldar málin.

Ég tel, herra forseti, að ekki séu rök fyrir að fresta þessu máli ár eftir ár þrátt fyrir miklar umræður og að í orði kveðnu samkomulag um að núverandi ástand sé óþolandi með þeim einu aumingjalegu rökum að málið sé flókið og tæknilega erfitt og þurfi að skoða og setja í nefnd aftur og aftur. En þær viðbárur hafa verið notaðar sl. tvö til þrjú ár til að gera ekkert í málinu. Það hefur farið í taugarnar á mér, herra forseti, og ég lagði þess vegna í þá vinnu að útfæra leiðina sem hér er lögð til. Ég hef borið þetta undir ýmsa sérfræðinga í skattamálum og allir hafa staðfest að með ákvæði af þessu tagi eigi að vera tiltölulega auðvelt mál að setja þak á hinn illræmda jaðarskatt. (Gripið fram í: Hvað kostar þetta?) Kostnaðaráhrifin, hv. þm., er dálítið erfitt að meta nema reikna út aragrúa af dæmum, þar sem settir eru inn tekjuhópar, til að reyna að átta sig á hver heildartekjuáhrifin yrðu. Á móti má reikna með því að eitthvað meiri launatekjur kæmu því almennt er viðurkennt að þessir háu jaðarskattar hafa fælingaráhrif og valda því að jafnvel er minni viðleitni hjá viðkomandi fjölskyldum að bæta stöðu sína með auknum launatekjum, svo maður nefni ekki það sem tæpast má nefna úr þessum virðulega ræðustóli, að flestir eru þeirrar skoðunar að þetta ástand ýti, kannski meira en nokkuð annað, undir svarta atvinnustarfsemi. Það að menn reyni að ná með ýmsu móti einhverjum hluta tekna sinna fram hjá skattkerfinu af þeirri einföldu ástæðu að menn sjá ekki mikinn tilgang í að þræla sér út ef einungis ein króna af hverjum fimm kemur í launaumslagið. Það er sú staða sem fjölmargir eru í gagnvart þessu dæmi hér.

Herra forseti. Það er skaði að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér því auðvitað þyrfti ég helst og mest eiga orðastað við hæstv. fjmrh. vegna þess að hæstv. ráðherra segir oft að hann sé mér sammála um að jaðaráhrifin í skattkerfinu hafi gengið algjörlega úr hófi og bregðast þurfi við og grípa til aðgerða. En það hefur hins vegar vafist mjög fyrir vini mínum, hæstv. fjmrh., að gera eitthvað róttækt í málinu. Ég tel mig þess vegna vera að koma honum til hjálpar, og ætti ekki að þurfa að standa upp á mig í þeim efnum, með því að leggja smávinnu í að útfæra tiltölulega einfalda aðgerð, a.m.k. til bráðabirgða, til að taka á þessu vandamáli á meðan það er skoðað ofan í kjölinn. (Gripið fram í: Er ekki einhver andstaða í ríkisstjórninni?) Þá kemur að því hvort hæstv. fjmrh. sé ekki sjálfrátt. Þetta er nú valdamikill maður, hæstv. ráðherrann, og ætti að hafa sitt fram í málaflokki af þessu tagi sem beinlínis heyrir undir hann. En af einhverjum ástæðum er þetta mál að malla í kerfinu ár eftir ár og nú í nefnd, að mér er sagt. Sjálfsagt er það virðuleg og góð nefnd og allt gott um hana að segja. En ég sætti mig mjög illa við, herra forseti, og uni því mjög illa að menn komi þessu réttlætismáli ekki fram, sem allir eru sammála um að brýnt sé að ráða bót á. Að menn finni sér bjálfalegar viðbárur ár eftir ár til að gera ekki neitt í málinu. Og maður óttast að ástæðan sé einfaldlega sú að þetta kostar líklega einhverja peninga. Ég dreg enga dul á að líklegt er að þetta kosti einhverja peninga. En ég hef ekki aðstöðu til þess, ég hef ekki einu sinni nógu öfluga tölvu til að reikna út nákvæmlega hvað það er. Og aðstaða okkar stjórnarþingmanna er slík að við höfum ekki á bak við okkur sérfræðingastóð til að aðstoða okkur við að vinna slíka hluti. Og væri nú mál fyrir hæstv. virðulegan forseta að taka upp að stjórnarandstöðuþingmenn hefðu eitthvað jafnari aðstöðu á við kerfið þegar þeir eru að reyna að vinna mál af þessu tagi. Í reynd ætti, að mínu mati, að vera svo að fjárlagaskrifstofa fjmrn. væri ekkert síður skyldug til að gera kostnaðarmat á frumvörpum þingmanna og stjórnarandstöðunnar heldur en á ríkisstjórnarfrumvörpum.

Ég tel, herra forseti, að þetta sé leið sem sé tiltölulega auðvelt að fara. Ég er meira en reiðubúinn til að ræða að á móti þeirri tekjulækkun ríkissjóðs, sem þetta réttlætismál mun vissulega hafa í för með sér upp á a.m.k. nokkur hundruð milljónir króna, ég vil ekki nefna tölur, enda mundi ekki muna mikið um það ef svo væri, er auðvelt mál að afla tekna á móti jafnvel innan tekjuskattkerfisins. Þannig að við getum þess vegna núllstillt tekjurnar, sem tekjuskattkerfið gerir, þó við færum skattbyrðina til. Íslenski skattstiginn er að mínu mati algjört hneyksli eins og hann er í dag. Það er algjört hneyksli að hann skuli fara lækkandi með tekjum, herra forseti, eins og sjá má á þessari mynd. Að þyngsta skattbyrðin skuli vera hér á launum á milli 1,4 og 2,7 millj. og fara síðan hraðlækkandi þangað til komið er upp á milli 3 og 4 millj. kr. að þetta kemst aftur í jafnvægi. Ég þekki hvergi í heiminum skattstiga sem er öfugur að þessu tagi. Venjan er sú að það er leitast við að hafa skattstigann í þrepum upp á við þannig að prósentan sé hærri á hærri laun en hér er þetta öfugt. Í reynd eru hlutirnir þannig að það er langþyngsta skattprósentan á lægri miðlungstekjur. Svo kemur alllangt bil þangað til það kemur þessi ræfilslegi hátekjuskattur upp á 5% sem ekki leggst á laun fyrr en 400 eða 450 þús. kr. heimilistekjur sem eru þá laun upp á um 5 millj. kr. á ári. Svona er þetta nú, herra forseti.

Ég sé ekki ástæðu til þess hér á þessum kvöldfundi að vera að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona að það verði sem sagt eftir að þetta mál er komið til nefndar og liggur fyrir þinginu ekki hægt að segja oftar að ekki séu uppi tillögur um að taka með beinum hætti á þessu máli. Ég bið menn þá að sýna mér fram á það að sú aðferð sem hér er lögð til gangi ekki upp áður en þeir segja oftar að málið sé tæknilega flókið, erfitt og vandasamt og það þurfi að hafa það nokkur ár í viðbót í nefnd. Ég uni því ákaflega illa.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn.