Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:03:56 (1029)

1996-11-12 14:03:56# 121. lþ. 21.11 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:03]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir það að hann hefur í raun og veru tekið undir veigamikla þætti í málflutningi Alþb. Það er ánægjuefni. Það á við um endurgreiðsluákvæðin og sömuleiðis að sjóðurinn þurfi nokkuð aukna fjármuni frá því sem verið hefur. Ég tel að það sé mikill árangur. Ég tel að það hljóti að vera einboðið með hliðsjón af yfirlýsingum hæstv. ráðherra og hv. þm. Hjálmars Árnasonar að þeir hljóti að beita sér fyrir því að a.m.k. hluti af frv. Alþb. og óháðra um þessi mál verði samþykktur núna fyrir áramótin þannig að hægt sé að taka eðlilega og þinglega á málinu. Ég vona að þeir séu ekki svo smáir í sálinni að þeir þoli ekki að samþykkja mál af því að það kemur frá stjórnarandstöðuflokki. Það liggur fyrir að það er greinilega samstaða um það, a.m.k. lýsir hæstv. menntmrh. yfir stuðningi við það, að endurgreiðslureglunum verði breytt og fjármunir verði auknir á nýjan leik.

Ég vil hins vegar spyrja í framhaldi af þessu: Hvað um samtímagreiðslurnar? Þær voru algjör snúningspunktur umræðunnar um Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrir síðustu kosningar. Ég man t.d. eftir fjölmennum framboðsfundi sem var haldinn í Háskólabíói þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna töluðu. Þeir sögðu allir og þar á meðal Framsfl.: ,,Samtímagreiðslur verða teknar upp að nýju.`` Mér hefur heyrst á fréttaviðtölum við hv. þm. Hjálmar Árnason, sem ég held að sé í nefndinni sem er að endurskoða þessi lög, að hann sé þeirrar skoðunar að samtímagreiðslur eigi að taka upp. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er öll nótt úti varðandi samtímagreiðslurnar? Ég spyr í fyrsta lagi hvort hann muni beita sér gegn þeim og þar með beygja Framsfl. í þessu máli. Í öðru lagi spyr ég: Hvenær verða þessar tillögur sýndar á Alþingi eða mun ráðherra hæstv. láta sér nægja að samþykkja tillögur Alþb.?