Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:27:23 (1035)

1996-11-12 14:27:23# 121. lþ. 21.11 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:27]

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að fagna sérstaklega síðustu ræðu þó það sé kannski ekki beint dagskrármál. Því miður hefur hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ekki talað hér mikið í seinni tíð og ég hef oft saknað hans. Mér þótti miklu betra að heyra þessa skörulegu ræðu áðan heldur en ekki þó ég hafi kannski ekki verið sammála henni að öllu leyti. Ég veit að vísu að þetta tilheyrir ekki dagskrármálinu 100% en ég ætla að misnota aðstöðu mína til að segja að mér þótti heldur betra að hafa þennan skörulega málflutning hér í stólnum þessar tíu mínútur sem hv. þm. flutti mál sitt.

Að öðru leyti langar mig aðeins til að vekja athygli á því sem fram hefur komið frá námsmönnum, stúdentaráði Háskóla Íslands, að grunnframfærsla námslána hefur, til viðbótar við allt annað, lækkað sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks, þ.e. launatekjunum hvort sem um er að ræða taxtakaup eða ráðstöfunartekjur. Það er dálítið alvarlegt umhugsunarefni. Með öðrum orðum, námslánin hafa fjarlægst það viðmið, sem sett var í upphafi, að það fólk sem væri í námi gæti í grófum dráttum komist af með ekki ólíkum hætti og gengur og gerist hjá þeim sem eru þó í lægri kantinum í launum. Það er merkilegt, hæstv. forseti, að þetta gerist þannig að á árinu 1995, ef við tökum meðaltal ársins 1995, er grunnframfærsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna 84,7% af ráðstöfunartekjum, eins og þær höfðu þróast á jafnlöngu tímabili frá 1983, þ.e. ef grunnframfærslan er tekin annars vegar og ráðstöfunartekjurnar hins vegar hefur bilið stöðugt farið vaxandi allan tímann frá árinu 1992.

[14:30]

Með öðrum orðum hafa kjör námsmanna verið sett skör neðar en annarra í þjóðfélaginu þannig að verulega munar um. Þetta er dálítið umhugsunarefni vegna þess líka í öðru lagi, hæstv. forseti, að inn í grunnframfærslunni kemur ekki fram sá veruleiki að krakkarnir eru að borga vaxtakostnað af þessari grunnframfærslu. Hæstv. menntmrh. sagði að þau væru ekkert að borga það af því að það væri lánað fyrir því. Það er rétt, það er lánað fyrir því að hluta til en þau verða væntanlega að borga þau lán einhvern tímann seinna þannig að skuldirnar hjá þeim þegar upp er staðið verða meiri en ella væri um að ræða.

Mér finnst það vera mikil spurning hvort það er skynsamleg menntastefna að halda þannig á málum að þeir sem eru í námi séu, mér liggur við að segja víðs fjarri hverdagslegum kjörum frá degi til dags --- enda uppfylli þeir nú öll skilyrði --- þegar námi lýkur. Mér finnst það ekki. Ég held við eigum að líta þannig á að hérna sé um að ræða vinnu og meðhöndla málið þannig. Nú hafa hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. haldið því fram hins vegar að þeir hafi verið að bjarga Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það hefur verið hrakið af Ríkisendurskoðun. Það liggur fyrir í skýrslum Ríkisendurskoðunar að eiginfjárstaða Lánasjóðs íslenskra námsmanna á árunum 1991 og 1992 var sterk. Hún var mun sterkari en flestra annarra sjóða. Hún var jákvæð um 6 milljarða kr. En segjum samt sem svo að þáverandi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hafi verið þeirrar skoðunar að það þyrfti að styrkja eiginfjárstöðuna enn þá frekar. Þá spyr ég: Batnaði eiginfjárstaðan, herra forseti, í tíð síðustu ríkisstjórnar? Hefur eiginfjárstaða Lánasjóðs íslenskra námsmanna verið að batna? Hefur staða hans verið að styrkjast á þessum tíma? Svarið er nei --- svarið er nei. Ef við skoðun reikninga Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá árinu 1991, 1992, þá er eiginfjárstaðan nákvæmlega eins og hún var þennan tíma. Það hefur ekkert verið gert til að styrkja eiginfjárstöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Algjörlega gagnstætt því sem fyrrverandi formaður Alþfl. hefur oft haldið fram, að síðasta ríkisstjórn hafi verið að bjarga sjóðnum. Það er göfugt í sjálfu sér að bjarga sjóðnum, ég skal taka undir það. Og það var ekki alltaf auðvelt að fá menn til að samþykkja að halda þessum sjóði uppi á sínum tíma þegar ég var að vinna í þessum málum. En eiginfjárstaðan styrktist ekkert þrátt fyrir í raun og veru þær aðgerðir sem efnt var til. Af hverju er það? Það er af því að framlögin hafa ekki hækkað heldur lækkað. Ef við skoðum framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins, samkvæmt upplýsingum sem ég hef í höndunum frá stúdentaráði og er byggt á ríkisreikningum, þá kemur fram, hæstv. forseti, að þróunin er þessi eins og sést --- þeir sem hér eru í salnum, á þessu súluriti. Hlutfall framlaga til LÍN sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs var þetta 1989 og 1990 þetta en svo hrapar það svona. Með öðrum orðum hafa menn ekki verið að styrkja fjárhagsstöðu þessa sjóðs. Það er ósatt að hlutirnir séu þannig.

Mér fannst nauðsynlegt, hæstv. forseti, í þessari umræðu vegna þess að henni er greinilega ekki lokið, að koma þessum upplýsingum á framfæri og ítreka jafnframt það sem ég sagði áðan. Ég hlýt að líta þannig á að það sé komin niðurstaða á milli stjórnarflokkanna eða að koma. Þó fannst mér í raun og veru svör hæstv. menntmrh. nokkuð loðin. Hann sagði: Ég vona að það sé að koma samkomulag. Hefur ráðherrann upplýst á þessum fundi hvenær það samkomulag kemur? Ég þurfti að bregða mér frá í símann en ég hef ekki orðið var við það að hæstv. ráðherra hafi upplýst um það hvenær samkomulagið kemur. Hafa stjórnarflokkarnir núna innsiglað samkomulag? Ég er ekki að tala um stjórnarsáttmálann 23. apríl 1995. Ég er að tala um núna. Hafa stjórnarflokkarnir núna nýlega innsiglað samkomulag í þessum efnum og hvenær verður það kynnt á hv. Alþingi? Spurningarnar í þeim efnum liggja fyrir og ég skora á hæstv. menntmrh. að svara þeim núna. En ég skora líka á hæstv. forseta og þingheim allan að veita því athygli að einn af talsmönnum Framsfl. í þessari umræðu, reyndar sá eini, sem um árabil átti sæti í menntmn. Alþingis og hafði með þessi mál að gera og fjárln. reyndar líka --- hvað var það sem þessi hv. þm. var að leggja áherslu á? Hann var að leggja á það áherslu að samtímagreiðslurnar yrðu teknar upp aftur. Það væri úrslitamál í dæminu og skipti miklu meira máli heldur en breytingar á endurgreiðsluákvæðunum.

Ég er eiginlega alveg sannfærður um það ef stúdentar, námsmenn, væru spurðir í hvaða röð þeir vildu raða þessu þá yrðu þeir sammála hv. 2. þm. Vestf. Það er ég líka. Og ef menn eru hér að ráðstafa tilteknum fjármunum í þessu efni þá eiga menn auðvitað að reyna að forgangsraða í þá röð sem þeir telja að sé skynsamlega óhjákvæmileg. Hv. 2. þm. Vestf. hefur gert það. Margir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það í umræðum aftur og aftur um þetta mál eins og á síðasta þingi. Þess vegna fyndist mér skynsamlegt hjá hæstv. menntmrh. að endurskoða afstöðu sína og fallast á að samtímagreiðslurnar verði teknar upp aftur.