Listamannalaun

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:43:31 (1038)

1996-11-12 14:43:31# 121. lþ. 21.12 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:43]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einungis nota þetta tækifæri til að varpa fram spurningu til hæstv. ráðherra vegna þessa frv. Eins og fram kom í máli hans er nýmæli í 9. gr. þess efnis að leiklistarráð fjalli um þann þriðjung fjárveitinga Listasjóðs sem þetta frv. gerir ráð fyrir að verði varið til starfslauna til einstakra leikhúslistamanna. Ég hlýt því að spyrja hér, ekki síst vegna þeirra umræðna sem fram fóru þegar lögin voru sett á sínum tíma, af hverju skrefið er ekki stigið til fulls að þessu sinni og búinn til sérstakur sjóður leikhúslistamanna innan lagaramma listamannalaunanna fyrst talin er ástæða til að fjalla um starfslaun leikhúslistamanna af aðilum utan Listasjóðs með sérstaka þekkingu á leiklist eða af aðilum sem hafa af því sérstaka hagsmuni hvernig þessum styrkjum er varið. Ég held það væri gagnlegt að það kæmi fram áður en að hv. nefnd fer að fjalla um málið af hverju sú leið var ekki valin fyrst leikhúslistamennirnir eru teknir út fyrir sviga eins og þar stendur.