Listamannalaun

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:44:45 (1039)

1996-11-12 14:44:45# 121. lþ. 21.12 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það nýmæli sem felst í ákvæðum 9. gr. er að þarna er veitt heimild til að veita starfslaun til einstakra leikhúslistamanna vegna þátttöku í uppfærslu leiksýninga á vegum leikhópa. Það verður skilyrði fyrir því að menn fái þessi starfslaun að þeir séu þátttakendur í leikhópum sem eru að færa upp ákveðnar leiksýningar. Þar sem leiklistarráð fjallar um styrki til atvinnuleikhópa var talið eðlilegt að taka út allt sem um þetta er getið í frv. og fela það leiklistarráði til þess að það hafi heildaryfirsýn yfir styrkveitingar til leikhópa á vegum hins opinbera. Ég held því að þetta snúist nú ekki um það sérstaka mál sem hv. fyrirspyrjandi og þingmaður nefndi heldur er þarna verið að tryggja að leikhópar fái starfslaun til að setja upp ákveðnar sýningar. Þar sem leiklistarráð hefur það hlutverk að veita styrki til atvinnuleikhópa var talið rétt að hafa þennan hátt á varðandi þetta atriði af því að þarna er ekki verið að styrkja einstaklinga heldur í raun og veru uppfærslur.