Listamannalaun

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:54:00 (1043)

1996-11-12 14:54:00# 121. lþ. 21.12 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þm. um hvort þetta ætti að hafa áhrif á fjárveitingar til atvinnuleikhópa eða áhugaleikhópa þá snertir þetta fyrst og fremst atvinnuleikhópana. Ég vil vekja athygli á því að í fjárlagafrv. er gerð tillaga um hækkun á fjárframlagi til atvinnuleikhópa um 2 millj. kr. ef ég man rétt. Sú tillaga er gerð enda þótt ég vissi að þetta frv. væri í smíðum. Ég lít því ekki þannig á að ætlunin sé að draga úr stuðningi við atvinnuleikhópana. Þvert á móti lít ég á þetta sem mikla aukningu í opinberum fjárstuðningi við atvinnuleikhópa og í góðu samræmi við þá gróskumiklu starfsemi sem nú er stunduð í leikhópum utan atvinnuleikhúsanna og hefur blómstrað mjög á undanförnum missirum. Ég tel að ef frv. verður samþykkt óbreytt og ef tillögurnar sem liggja fyrir í fjárlagafrv. verða samþykktar sé stigið mjög stórt skref til að treysta fjárhagslegar forsendur fyrir starfsemi atvinnuleikhópa.