Áhættu- og nýsköpunarlánasjóður

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:58:10 (1044)

1996-11-12 14:58:10# 121. lþ. 21.19 fundur 19. mál: #A áhættu- og nýsköpunarlánasjóður# frv., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:58]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. okkar þingmanna Alþb. og óháðra um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð. Þetta frv. er endurflutt.

Við lítum þannig á að frv. sé hluti af pakka ef svo mætti segja, málaflokki sem við kynntum í upphafi þings og kölluðum Fjölskyldan, lífskjörin og kjarabaráttan. Hér er eitt þeirra mála í þessum pakka sem snerta sérstaklega atvinnumál. Það er okkar skoðun að skort hafi verulega á að til væri áhættu- og nýsköpunarlánasjóður í landinu. Okkur finnst þess vegna nauðsynlegt að flytja frv. af þessu tagi og ekki kannski síst vegna þess að okkur hefur fundist að það virtist vera erfitt hjá stjórnarflokkunum að komast að niðurstöðu að því er varðar svokallaðan fjárfestingarbanka sem er mikið bitbein á milli stjórnarflokkanna. Það hefur verið ósætti á milli stjórnarflokkanna um þennan fjárfestingarbanka. Þrátt fyrir þriggja ára aðdraganda sér enn ekki fyrir endann á því máli. Það væri út af fyrir sig eðlilegt að hugmyndir um fjárfestingarbanka yrðu teknar til umræðu um svipað leyti og frv. okkar alþýðubandalagsmanna og óháðra um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð.

Frv. er endurflutt. Það var lagt fram seint á síðasta þingi og náði því ekki afgreiðslu. Í því er gert ráð fyrir að stofnaður verði sjóður sem starfi til loka ársins 2000. Sjóðurinn er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og er vistaður í forsætisráðuneytinu. Sjóðurinn er undir fimm manna stjórn sem er tilnefnd þannig að einn er tilnefndur af samtökum launafólks sameiginlega, annar af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, þriðji af samtökum atvinnurekenda sameiginlega. Forsrh. skipar tvo án tilnefningar og er annar formaður stjórnarinnar.

[15:00]

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar nýsköpun í atvinnulífi, en einnig þróunar- og tilraunastarfi og nýjum verkefnum sem virðast geta orðið arðsöm. Sjóðurinn skal sérstaklega sinna þörfum þeirra sem ekki hafa fullnægjandi aðgang að öðrum sjóðum né hefðbundnum lánastofnunum sem þó starfa í þágu atvinnulífsins. Sjóðurinn beinist ekki síst að því að styrkja þá einstaklinga og þau fyrirtæki sem ekki geta uppfyllt hefðbundnar kröfur um venjulega veðsetningu fyrir lánum eða skortir áhættufé í formi hlutafjár til að ráðast í ný verkefni.

Í 4. gr. er gerð grein fyrir tekjustofnum sjóðsins þar sem gert er ráð fyrir því að ríkissjóður leggi honum til 1 milljarð króna á ári á starfstíma sjóðsins eða samtals um 4 milljarða kr. Auk þess er gert ráð fyrir því að sjóðnum verði heimilt að afla sér tekna í samvinnu við aðra aðila.

Í 5. gr. segir að stjórn áhættu- og nýsköpunarlánasjóðsins geti ráðstafað fjármunum hans sem þar er greint. Það er til að kaupa hlut eða hluta í nýjum fyrirtækjum eða í eldri fyrirtækjum vegna nýrra verkefna sem efnt er til innan lands eða erlendis, enda selji sjóðurinn hlut sinn strax og viðkomandi fyrirtæki ræður eitt við verkefnið að mati sjóðstjórnar. Hér er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að sjóðurinn eigi hlut í fyrirtækjum til langframa. Við viljum það ekki. Við viljum að um leið og keyptur yrði hlutur í fyrirtæki til skemmri tíma þá verði jafnframt ákveðið hvenær sjóðurinn losaði sig við hlutabréf sín í fyrirtækinu. Við gerum í öðru lagi ráð fyrir því að það megi veita úr sjóðnum endurkræfan styrk, víkjandi lán eða vaxtalaus lán úr sjóðnum. Í þriðja lagi að veita megi lán úr sjóðnum jafnvel þótt fyrirtæki geti ekki veðsett eignir á móti lánunum með heðfbundnum hætti og það er mjög mikilvægt atriði. Í fjórða lagi má veita fé úr sjóðnum til að kosta sérfræðiaðstoð við markaðssetningu og þróunarstarfsemi fyrir fyrirtæki. Og í fimmta lagi má veita lán á venjulegum kjörum til viðbótar annarri fyrirgreiðslu annarra lánastofnana.

Í 6. gr. er talað um að stjórn sjóðsins sé skylt að ganga þannig frá málum að þar verði unnt að gera faglegar kröfur til fyrirtækjanna þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður og óvenjulegu aðferð. Hér er gert ráð fyrir því að menn geti fengið áhættulán jafnvel án þess að venjuleg steinsteypuveðsetning sé fyrir hendi í fyrirtækjunum.

Nú við höfum í greinargerðinni gert grein fyrir þessari hugmynd nokkuð rækilega. Við vitnum þar í útflutningsleið Alþb. sem var undirstaða kosningastefnuskrár okkar 1995 þar sem fjallað var rækilega um þessi mál og gerð ítarleg grein fyrir hugsuninni á bak við áhættulánasjóð. Ég ætla ekki að rekja það hér, hæstv. forseti, vegna þess að við erum að endurflytja málið. En það er spurning hvort að hæstv. iðn.- og viðskrh. sé kannski væntanlegur. Ég ætlaði að spyrja hann aðeins um þennan fjárfestingarbanka í leiðinni. Veit hæstv. forseti nokkuð hvort hæstv. iðn.- og viðskrh. sé væntanlegur?

(Forseti (RA): Samkvæmt tölvu er hann kominn í húsið og er sennilega skammt undan.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar. Ég hinkra þá bara í tvær mínútur meðan hæstv. ráðherra er á leiðinni í salinn. Hæstv. iðn.- og viðskrh. er sem sagt á leið inn í salinn og ég hefði viljað inna hann aðeins eftir þessu máli. Ég held að við þurfum að rífa okkur út úr þessum gamaldags sjóða- og veðsetningarhugsunarhætti eins og hann hefur verið, þar sem hlutirnir hafa verið misjafnir eins og sést í ýmsum skýrslum sem menn hafa verið að ræða hérna að undanförnu, og menn eigi að taka á málunum með nýjum hætti. Þess vegna flytjum við þetta frv. um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð sem hæstv. iðnrh. þekkir út af fyrir sig. Ég ætla ekkert að fara að endurtaka ræðu mína um það hér en ég hef þegar gert grein fyrir þeirri hugsun. En ég vildi spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. um fjárfestingarbanka, því það er ekkert óskylt mál. Í þrjú ár hefur verið rætt um að sameina þrjá fjárfestingarlánasjóði iðnaðar og sjávarútvegs í einn fjárfestingarbanka.

Miklar deilur hafa verið um málið, m.a. innan stjórnarflokkanna. En fréttir bárust um það í september sl. að samstaða hefði náðst milli stjórnvalda og iðnaðarins um að steypa Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði og Fiskveiðasjóði í einn fjárfestingarbanka sem veitti langtímalán til atvinnulífsins og í tengslum við sameininguna verði varið 40% eigin fjár sjóðanna til að setja á stofn nýsköpunarsjóð. Þetta er svipað og við erum með í þessu frv. Það hafa verið tíðir fundir um þessi mál. Um þetta var fjallað í ríkisstjórninni samkvæmt blaðafréttum. Það náðist ekki niðurstaða þar og mig minnir að í sömu fréttum, einhvern tímann í ágúst eða september, hafi verið sagt frá því að þrír ráðuneytisstjórar ættu að fjalla um þessi mál og reyna að leysa þau ágreiningsmál sem uppi hafa verið. Ágreiningsmálin hafa ekki síst verið við iðnaðinn en í raun og veru einnig sjávarútveginn. Það kvað svo rammt að þessu, mig minnir að það hafi verið haustið 1994, að þá var sett sérstök sáttanefnd í þetta mál þar sem til voru kallaðir þeir sem jafnan bera gott að deilumálum eins og alþjóð veit, þ.e. að segja Jóhannes Nordal, Ólafur Davíðsson og fleiri höfðingjar. Þeim tókst nú ekki að leysa þetta og þess vegna var búin til þessi ráðuneytisstjóranefnd. Ég vil sem sagt spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. hvenær þess er að vænta að niðurstaða þessarar ráðuneytisstjóranefndar liggi fyrir þannig að það megi hafa það mál til hliðsjónar þegar frv. okkar alþýðubandalagsmanna kemur til afgreiðslu á Alþingi. En auðvitað mætti bara afgreiða það mál því það tekur náttúrlega á áhættulánaþættinum í fjárfestingarbankamálinu. Ég er ekki með þessum orðum mínum, hæstv. forseti, að taka undir það að endilega verði stofnaður nýr ríkisbanki. Mér fyndist alveg eins sniðugt að halda þeim áfram sem eru til, í staðinn fyrir að selja þá og stofna nýjan. Ég held að það sé einfaldara. En það er utan við umræðu þessa. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvenær þess er að vænta að nefndin skili sínum niðurstöðum.