Áhættu- og nýsköpunarlánasjóður

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:07:29 (1045)

1996-11-12 15:07:29# 121. lþ. 21.19 fundur 19. mál: #A áhættu- og nýsköpunarlánasjóður# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:07]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Efnislega ætla ég ekki að fjalla um það frv. sem hér er til umfjöllunar um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð frá hv. þm. Alþb. En af því hv. þm. Svavar Gestsson spurði um einstök atriði sem snúa að verkum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum þá er því til að svara að það hefur reyndar átt sér mjög langan aðdraganda að menn hafa verið að undirbúa formbreytingu fjárfestingarlánasjóðanna annaðhvort með því að breyta þeim í hlutafélög eða byrja á því að sameina þá og breyta þeim síðan í hlutafélög og að úr því verði síðan útbúinn áhættu- og nýsköpunarlánasjóður kannski að nokkru leyti með svipuðum hætti og lagt er til í því frv. sem hv. þm. mælti fyrir áðan. Deilur um málið kannast ég ekki við innan stjórnarflokkanna. Deilur við atvinnulífið sem hv. þm. var að rekja áðan kannast ég heldur ekki við. Hvort sem það eru fréttir sem hv. þm. hefur úr blöðum eða fjölmiðlum, kannast ég ekki við deilurnar sem hv. þm. er að vitna til.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að að því skuli stefnt að breyta fjárfestingarlánasjóðunum í hlutafélög og útbúa nýsköpunar- og áhættulánasjóð. Til að undirbúa það starf á vegum þessarar ríkisstjórnar --- ég ætla ekki að tala um verk fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum --- voru ráðuneytisstjórar forsrn., sjútvrn. og iðn.- og viðskrn. settir í það verk fljótlega eða haustið 1995. Ráðuneytisstjórarnir hafa unnið að þessum skipulagsbreytingum. Tillögur liggja fyrir um það nú og nefnd er að störfum. Í henni sitja ráðuneytisstjórarnir með fulltrúum iðnaðarins og sjávarútvegsins. Ég tel að það sé tiltölulega gott samstarf og samkomulag um meginniðurstöðuna. Meginniðurstaðan er í stórum dráttum sú að tillaga liggur fyrir núna, án þess að nefndin hafi endanlega skilað af sér, um að þessi þrír lánasjóðir, Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður verði sameinaðir í Fjárfestingarbankann hf. sem yrði í eigu ríkisins vegna þess að ríkið á þessa fjárfestingarlánasjóði. Um það bil 40% af eigin fé þessara sjóða verði sett í nýsköpunar- og áhættulánasjóð til að standa að nýsköpunar- og áhættulánum fyrir atvinnulífið, til að styðja við vaxtarbrodda í atvinnulífinu, auka möguleika fyrirtækja til að ráðast í ný verkefni, auka verðmætasköpunina og fjölga störfum, sem er á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar og hefur tekist mjög vel til á undanförnum vikum og mánuðum og reyndar frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda.

Síðan má búast við og ég vonast til þess að fyrir áramót á þessu þingi verði hægt að leggja þetta frv. og þessi frv. bæði fyrir þingið þar sem gert er ráð fyrir því að þessi leið verði farin. Vonast ég til að þetta svari spurningum hv. þm. Og gerist það að frv. um þessi efni, þ.e. um fjárfestingarbanka atvinnulífsins og um nýsköpunarlánasjóð, verði lögð fyrir Alþingi fyrir jól, tel ég kjörið að ræða þetta mál í tengslum við þau.