Áhættu- og nýsköpunarlánasjóður

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:14:51 (1047)

1996-11-12 15:14:51# 121. lþ. 21.19 fundur 19. mál: #A áhættu- og nýsköpunarlánasjóður# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:14]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Tillögur ráðuneytisstjóranefndarinnar, sem vann að þessum undirbúningi, lágu fyrir vorið 1996. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Í framhaldi af því voru teknar upp viðræður við iðnaðinn og sjávarútveginn um tillögur ráðuneytisstjóranefndarinnar. Auðvitað hljóta að vera skiptar skoðanir um svona stór mál, eins og kom fram hjá hv. þm. Það er ekki ágreiningur en mönnum sýnist kannski sitt hvað um hvaða leið skuli fara í þessum efnum. Ég tel hins vegar að um þetta geti myndast mjög víðtækt samkomulag þegar upp er staðið og tekið til þess að sjóðirnir þrír verði sameinaðir í sterkan fjárfestingarbanka. Af því að hv. þm. minntist á tölur í kringum 10 milljarða kr., þá eru það einfaldlega tölur sem teknar eru út úr efnahagsreikningum viðkomandi sjóða um síðustu áramót. Eigið fé þessara sjóða eru rétt rúmir 10 milljarðar kr. Þá hefur sú hugsun verið uppi í þeirri vinnu sem í gangi hefur verið að í kringum 60% af þessu eigin fé yrði lagt í fjárfestingarbankann, sem væri sér stofnun með sér stjórn, og um það bil 40% færu í nýsköpunarsjóðinn, sem væri sér stofnun með sér sjóð og hefði það hlutverk, sem ég held að ég og hv. þm. séum sammála um hvert á að vera. Þetta er sú leið sem er unnið að núna og ég vonast til að um hana verði víðtæk samstaða. Og líka að hægt verði að leggja málið fram á þingi fyrir jól.