Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:35:54 (1050)

1996-11-12 15:35:54# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja örfá orð í belg út af þáltill. sem er til umræðu og fjallar um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana og er út af fyrir sig hið þarfasta mál að taka til umræðu. Vegna síðustu orða hv. 1. flm. um vistun tillögu af þessu tagi er sjálfsagt rétt að slíkt mál, undirbúningur að svona máli sem er stefnumarkandi mál pólitískt og fjallar um stefnu stjórnmálaflokka og ríkisstjórna, vistist hjá forsrn. og í þinginu hjá nefndum sem fjalla um mál af því tagi frekar en að þetta sé málefni einstakra fagráðherra eða fagnefnda. Ég læt það að öðru leyti liggja milli hluta. Mér finnst það ekki vera aðalmálið. Ég vil taka undir mjög margt sem kemur fram í þessari tillögu og í greinargerð hennar þó sérstaklega vegna þess að ég tel að verið sé að fjalla um mál sem miklu skiptir.

Þetta mál hefur lengi verið viljayfirlýsing í það minnsta, stjórnmálaflokka, a.m.k. þess sem ég starfa fyrir. Framsfl. hefur margsinnis í stefnumótum sinni lýst því yfir að hann telji að það beri að reyna að dreifa opinberum stofnunum öðruvísi en gert hefur verið, þ.e. að þær byggist allar upp og starfi allar á höfuðborgarsvæðinu, að það eigi að gera það öðruvísi ef kostur er og því verður við komið. Ríkisstjórnir sem ég hef tekið þátt í hafa einnig verið með þetta á stefnuskrá sinni. Og fleiri ríkisstjórnir, t.d. fjallaði sú sem starfaði næst á undan þeirri sem nú situr mikið um þetta mál, flutning stofnana. Að frumkvæði forsrh. starfaði nefnd á vegum þeirrar ríkisstjórnar til að fjalla um þessi mál. Hún skilaði áliti árið 1993 og hv. frsm. vitnaði til þess áðan. Þetta er því ekki nýtt mál. Þetta er mál sem stjórnvöld hafa fjallað um oft og lengi án þess að það hafi kannski skilað miklu. Ef til vill er það vegna þess að menn hafa ekki sett sér nægilega skýrar leikreglur eins og draga má ályktun af efni þessarar tillögu. Ég skal ekki rengja það eða deila um það við hv. flm. að kannski hefði verið auðveldara að standa að þessum málum í gegnum tíðina ef leikreglur hefðu verið nokkuð skýrar og meira unnið úr þessum viljayfirlýsingum sem menn hafa sett fram aftur og aftur, stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir.

Í mínum huga er það svo að ef við horfum eingöngu til þess að taka slíkar ákvarðanir þegar um er að ræða nýjar stofnanir, stofnanir sem verið er að móta og búa til og ákveða staðsetningu fyrir, þá gerist afar lítið. Um þessar mundir er það að minnsta kosti svo að við erum ekki að búa til margar nýjar ríkisstofnanir. Þvert á móti er verið að reyna að draga úr ríkisrekstri allnokkuð. Það er verið að reyna að gæta aðhalds og sparnaðar í hinum opinbera rekstri og ríkisstofnunum. Ég vil ekki segja að þeim fækki en það er verið að sameina stofnanir og ekki er um það að ræða að í miklum mæli sé verið að móta eða stofna nýjar. Þó er það ekki svo að það gerist alls ekki. Hv. frsm. nefndi eina stofnun sem heyrir undir umhvrn. Ég vonast til þess að geta komið með frv. inn í þingið áður en langt líður um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem svo hefur verið kölluð og gert er ráð fyrir að muni starfa á Akureyri ef löggjafinn samþykkir að setja þá stofnun á fót sem hann hefur nú þegar gefið viljayfirlýsingu um. Það er svo sem ekki hægt að segja að þetta gerist ekki en það er ekki mikið um það þannig að við tökum ekki stór skref með því einu. Við hljótum því að horfa til þess hvort við getum náð áföngum varðandi þær stofnanir sem til eru, sem eru starfandi, jafnvel þó þær séu gamlar og grónar og hafi haslað sér völl á ákveðnum stöðum. Þá hljótum við að þurfa að skoða mjög vel umfang, starfsvið og verkefni þessara stofnana.

Í þeim vangaveltum sem ég hef haft um þessi mál, bæði mínum eigin hugleiðingum um þetta og í umræðum við aðra, hef ég leyft mér að skipta opinberum stofnunum í þrjá eða fjóra flokka. Það eru í fyrsta lagi stofnanir sem ekki er um að ræða að séu fluttar. Þær eiga heima á höfuðborgarsvæðin og eiga að starfa hér. Slíkar stofnanir eru að sjálfsögðu fjölmargar og það er óeðlilegt að þær séu annars staðar. Við höfum ýmsar stofnanir sem geta rekið starfsemi sína á fleiri stöðum. Þær eru kannski með höfuðstöðvar hér eða annars staðar og reka síðan útibú eða starfrækja starsemi sína á fleiri stöðum. Gott dæmi um það er t.d. Vegagerðin sem hv. þm. nefndi í sínu máli. Í þriðja lagi eru stofnanir sem eiga beinlínis að vera annars staðar eðli málsins samkvæmt og eðli síns vegna eru betur komnar annars staðar en hér og eiga þá auðvitað að vera þar. Hv. frsm. nefndi líka eina slíka stofnun sem er Skógrækt ríkisins. Ég gæti nefnt fleiri sem ég tel að sé eðlilegt að starfi annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Svo held ég að megi segja að við gætum sett æði margar opinberar stofnanir í fjórða hópinn í þessu efni sem geta starfað hvar sem er, ekki eru bundnar við neitt ákveðið landsvæði. Þar hefur staðsetning ekki mikilvæg áhrif og kannski lítil eða jafnvel engin á það hvernig stofnunin starfar. Ég nefni t.d. í því efni stofnun sem hefur verið í umræðu og ég hef tekið ákvörðun um að flytja héðan af höfuðborgarsvæðinu upp á Akranes, þ.e. Landmælingar Íslands. Það er stofnun sem ég tel að geti starfað annars staðar en hér á þessu svæði.

Ég tel að þegar við veltum þessu fyrir okkur, þ.e. að flytja til stofnanir þá gerum við það á pólitískum forsendum. Það hefur stundum verið sagt, og e.t.v. stundum með lítilsvirðingu, að pólitísk ákvörðun í þessu efni sé ekki mikilsverð og það sé undarlegt að menn séu að taka ákvarðanir um svo mikilvæg mál á pólitískum forsendum einum saman. Það tel ég ekki að sé lítið mál. Ég tel að það sé afar stórt mál og mikilvægt og það er kannski fyrst og fremst á pólitískum forsendum sem við tökum ákvarðanir um það hvort rökrétt sé eða eðlilegt að flytja stofnanir til eða að þær starfi annars staðar en hér. Að minnsta kosti ef það skiptir ekki máli fyrir stofnunina sjálfa, hvort hún er hér eða annars staðar, eru það pólitískar forsendur ef við teljum af öðrum ástæðum en vegna verkefna stofnunarinnar sjálfrar eða viðfangsefna hennar að hún sé eins vel komin annars staðar. Í því sambandi vil ég nefna að á fjölmörgum smærri stöðum úti á landi er ekki mikið um opinbera starfsemi. Það er auðvitað það sem tilheyrir sveitarfélaginu sjálfu. Grunnskólar hafa til skamms tíma heyrt ríkinu til en heyra nú sveitarfélögunum til þannig að það er kannski að mestu leyti að verða starfsemi sem beinlínis heyrir til viðkomandi sveitarfélagi og er rekin á vegum þess. Í öðru lagi er það á nokkrum stærri stöðum þar sem við höfum skóla og heilsugæslustöðvar sem reknar eru --- þá er ég að tala um framhaldsskóla og heilsugæslustöðvar --- af hálfu ríkisins og geta skipt veruleg máli fyrir íbúaþróun og byggð á viðkomandi stöðum. En til þess að treysta hana enn frekar þurfum við líka að hafa þar stofnanir sem eru fyrir fólk sem hefur sérhæft sig á fleiri sviðum. Það er m.a. til þess að auðveldara verði fyrir maka að fá vinnu á viðkomandi svæði af ýmsum ástæðum og gefa fólki kost á fjölþættari möguleikum fyrir sitt starfssvið, ég tala ekki um ef það hefur sótt sérhæft nám með langskólanámi eða æðra námi eins og það er stundum kallað, utan sinnar heimabyggðar eða kýs að búa annars staðar en á höfðuborgarsvæðinu, þ.e. úti á landsbyggðinni.

Ég sé nú, hæstv. forseti, að tími minn er hlaupinn frá mér þannig að ég skal ljúka máli mínu. Ég vil undirstrika að þó við séum að tala um stofnanir eins og skólana og heilbrigðisstofnanir er mikilvægt að til séu fleiri kostir. Við eigum að nýta okkur þá kosti með því að horfa á þær stofnanir sem hið opinbera hefur möguleika á að setja niður annars staðar og gefa með því miklu fjölþættari möguleika til starfa fyrir fólk sem hefur leitað sér menntunar utan heimabyggðar og treysta búsetuna og byggðina í landinu með öðrum hætti en er í dag.