Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:05:34 (1059)

1996-11-12 16:05:34# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:05]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Nefndin sem skilaði af sér árið 1993 kom með nokkrar uppástungur um hvernig og hvert væri hægt að flytja nokkrar ríkisstofnanir auk þess að meira að segja var lagt til að búin yrði til ný stofnun á Ísafirði, í kjördæmi hv. þm. og þangað yrðu flutt verkefni. Það er eitt í viðbót sem ég hef ekki nefnt í þessum andsvörum en það var að styrkja sýslumannsembættið og færa þeim fleiri verkefni.

En höfuðmáli skiptir að vissar forsendur séu til staðar til að flutningur ríkisstofnana geti og eigi að eiga sér stað. Það þarf ákveðnar forsendur. Og ekki bara hvort fegurra sé á Selfossi eða Akranesi eða hvort þar er einum skólanum fleiri eða færri eða atvinnutækifærin betri eða meiri. Fyrst og fremst að þessar forsendur séu til staðar. Eins og þær að nógu mikill fjöldi starfsmanna vilji fara með svo að starfsemin raskist ekki. Að stofnunin verði þannig staðsett að hún geti áfram sinnt þeirri þjónustu sem henni er ætlað og fleiri forsendur sem verða að vera til staðar. Við þennan flutning eru þær það ekki. Þær eru það ekki vegna þess að starfsfólkið vill ekki fara.